18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1313 í B-deild Alþingistíðinda. (2153)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Frsm. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Hv. þdm. sjá á nál. á þskj. 555, að allshn. hefir orðið sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. Það fylgja í rauninni svo greinilegar upplýsingar og rök fyrir málinu, að ég þarf ekki að vera margorður. En ég vil taka það fram, að það, sem réði afstöðu n. til þessa máls, er sú eðlilega og sjálfsagða nauðsyn, sem kauptúninu er á því að verða eitt hreppsfélag, sérstaklega vegna sameiginlegrar framfærslu. Eins og hv. þdm. vita, þá hefir þetta kauptún vaxið upp beggja megin við hreppsmörkin, en upphaflega var kauptúnið aðeins sunnan árinnar, eða í Torfalækjarhreppi, og var þar að öllu sá atvinnurekstur, sem kaupstaðurinn myndaðist af, en síðar hefir orðið sú breyt., að mikill hluti þess atvinnurekstrar hefir flutzt út yfir ána, og virðist það hafa færst í það horf, að allt fólk, sem af eðlilegum ástæðum vinnur við þennan atvinnurekstur, er hinumegin við hreppsmörkin. Það hefir nú verið svo, að verkamenn og aðrir starfsmenn hafa getað haft atvinnu þar, þó svona sé ástatt, en sveitarframfærslan hefir verið aðskilin, en það er hin mesta nauðsyn fyrir kauptúnið, að framfærslan sé sameiginleg. Auk þessa eru ýms sameiginleg mál kauptúnsins, sem eru þess eðlis, að nauðsyn er að sameina það.

Eins og ég sagði áður, þá sé ég ekki ástæðu til þess að vera margorður um þetta mál. Hitt er alkunna, að þetta er deilumál milli hreppsfélags Engihlíðarhrepps og Blönduóshrepps. Engihlíðarhreppur er einróma móti sameiningunni, þegar frá er skilinn kauptúnshlutinn, enda hefir hreppurinn allverulegar tekjur af verzluninni, sem þar er rekin. En n. lítur svo á, að jafnvel þessi afstaða hreppsins sé ekki nægileg til þess að synja um sameininguna, og geti ekki hrakið þá nauðsyn, sem kauptúninu er á sameiningunni. Ég get í því sambandi vísað til sveitarstjórnarlaganna, og þá til 4. gr. þeirra, sem segir, að hvert kauptún, sem er svo stórt, að það hefir yfir 300 íbúa, eigi rétt á því að verða sjálfstætt hreppsfélag. Ef svo væri ástatt, að kauptúnið fyrir sunnan ána væri ekki orðið að sérstöku hreppsfélagi, þá er enginn vafi á því, að kauptúnið ætti lagalega kröfu á því að vera skilið frá hreppunum, Engiblíðarhreppi og Torfalækjarhr., og gert að sérstöku hreppsfélagi. Kauptúnið fyrir innan ána er búið að gera að sérstöku hreppsfélagí, en það er enginn vafi á því, að þetta ákvæði í sveitarstjórnarlögunum er svo sterkt, að þó það hefði ekki verið, þá hefðu þessir tveir kauptúnshlutar haft rétt til þess að skilja við báða hreppana og verða að sérstöku hreppsfélagi. Það hefir verið fært sem ástæða, að kauptúnið eigi kröfu til þessa. En ég vil vekja athygli á því, að í 4. gr. sveitarstjórnarlaganna eru fyrirmæli um það, hvernig skipti eigi að fara fram. Og ef þetta væri tvímælalaust, og samkomulag næðist um að fullnægja þeim fyrirmælum, þá ætti þetta mál ekkert erindi inn á Alþ., því þá væri þetta aðeins framkvæmdaratriði, og það væri þá á valdi ríkisstj. að skipta hreppunum. En n. hefir tekið þá afstöðu, að þetta væri ekki tvímælalaust samkv. sveitarstjórnarlögunum, og því ekki viljað skorast undan því, að málið væri afgr. hér á hv. Alþ. En n. hefir orðið sammála um að setja aðrar reglur um skiptin en þær, sem eru í sveitarstjórnarl., og eru líka í samræmi við annað í frv. settar aðrar reglur um það, hvenær skiptin eigi að fara fram.

N. hefir lagt til, að lítilfjörlegar breyt. séu gerðar á frv. viðvíkjandi framkvæmdinni á þessum skiptum, og skal ég gera grein fyrir þeim hreyt., en þær eru á þskj. 555. — 1. brtt. er ekki viðvíkjandi skiptum hreppsfélagsins, heldur viðvíkjandi skiptum við ábúandann á Enni, en það er gert ráð fyrir í frv., að hluti af jörðinni Enni sé tekinn eignarnámi og lagður undir kauptúnið. Í brtt. er lagt til, að ábúanda jarðarinnar Ennis sé áskilinn viss afnotaréttur, eða m. ö. o. fjörubeit, á þeim landshlutanum, sem taka má eignarnámi. Það verður að viðurkenna, að það yrði ábúandanum bagi, ef hann væri sviptur þessum rétti, en þetta er ekki mikilsvert fyrir kauptúnið. Það má líka gera ráð fyrir, að þetta hafi áhrif á málið, og jarðarhlutinn verður væntanlega metinn lægra en ella. — 2. brtt. er aðeins orðalagsbreyt. á skyldum Blönduóshrepps til þess að taka að sér framfærslu þeirra, sem öðlazt hafa eða öðlast kunna framfærslurétt í sambandi við l. þessi, vegna fæðingar eða dvalar í Blönduóskauptúni norðan Blöndu. Þarna er aðeins um orðalagsbreyt. að ræða, en efnið er hið sama og í frv. — 3. brtt., við 4. gr., fer í þá átt, að gera einfaldara ákv. um það, hvernig bæta skuli Engihlíðarhreppi skaða þann, sem hann verður fyrir við það, að kauptúnshlutinn fer úr sambandi við sveitahreppinn. Samkv. 4. gr. sveitarstjórnarl. ber Engihlíðarhreppi engar bætur fyrir missi þessa hluta hreppsins. Ég hallast að þeirri skoðun, að það sé ekki rétt að úrskurða hreppi neinar bætur fyrir tjón það, sem hann bíður við skipti, vegna þess að tekjur þær, sem hreppsfélagið aflar, eru miðaðar við ákveðnar þarfir, og þegar skipti eiga sér stað, þá verður að uppfylla þarfir hvors hreppsfélags fyrir sig, enn ef sá hreppur, sem aðskilinn er, á að greiða aðalhreppnum fullkomnar bætur fyrir tjón það, sem hann bíður, þá má spyrja, hvað hann eigi eftir til þess að fullnægja sínum eigin þörfum. En n. lítur nú svo á, að þetta falli ekki alveg undir 4. gr. sveitarstjórnarl., og því vill hún ekki standa á móti því, að Engihlíðarhreppur fái bætur fyrir það tjón, sem hann líður við skiptin, en n. vill láta það vera á valdi matsmanna, og hefir því breytt gr. eins og segir á þskj. 555. — 4. brtt. er þess efnis, að ákveða, að þeir, sem eru heimilisfastir norðan Blöndu, fái kosningarrétt í Blönduóshreppi um leið og sá hluti er sameinaður hreppnum. Það er ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, að þar sem þeir eru sviptir þessum rétti í Engihlíðarhreppi, eftir að þessi hluti hans er skilinn frá aðalhreppnum, þá fái þeir fullan rétt í Blönduóshreppi. — 5. brtt. er aðeins orðalagsbreyt. Það mun vera málvenja að kalla fyrir norðan og sunnan ána, en ekki fyrir austan og vestan, eða þá að sagt er fyrir utan og innan ána. Þetta er því aðeins orðalagsbreyt.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum að sinni.