18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (2154)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Ég get eftir atvikum verið þakklátur hv. allshn. fyrir af greiðslu hennar á þessu máli, þar sem hún leggur til, að það nái fram að ganga í öllum aðalatriðum, og hefir því fallizt á skoðun þá, sem fram kemur í frv. Ég vil bæta því við, að ég hefi í öllum aðalatriðum sömu afstöðu til málsins og hv. frsm., og vænti ég, að hans ræða komi óbrjáluð í þingtíðindunum, svo að á sínum tíma sé hægt að vitna til hennar.

Um brtt. hv. allshn. vil ég segja þetta: 2. brtt. er til bóta, en hún er umorðun á 3. gr. Hún er betur orðuð eins og n. leggur til. Ennfremur er rétt að setja þann fyrirvara, sem ekki felst í frv., að íbúar í Blönduóskauptúni norðan Blöndu fái þegar kosningarrétt í Blönduóshreppi um leið og l. öðlast gildi, enda var til þess ætlazt, þó að það hafi ekki verið aðgætt, að það þurfti að taka það fram. — 5. brtt. er orðabreyt., sem fer í þá átt að kalla kauptúnspartinn fyrir norðan Blöndu í staðinn fyrir austan Blöndu, og er það meiri málvenja. En ég hefi svolítið að athuga við 1. brtt., en hún er um það, að ábúandanum á Enni sé heimiluð fjörubeit í landi kauptúnshlutans. Það má vel vera, að um þetta atriði ætti að semja milli aðilja, en ég vil þó taka það fram, að ég mun ekki setja mig á móti þessu, ef því er bætt inn i, að það gildi aðeins vetrarlangt. Hitt er ófært, að það gildi að sumarlagi, því þá getur það orðið til skemmda á görðum í kauptúninu, því það er kunnugt, að skepnur í kauptúnum eru aðgangsfrekar. Ég mun fara fram á það við n. að fá þessu breytt og skotið inn orðunum „að vetrarlagi“, eða þá að ég flyt brtt. um það.

Aðalbreyt. er við 4. gr. frv., um það, að fella niður allar hliðsjónir við matið á bótum fyrir missi tekna úr Blönduóskauptúni norðan Blöndu, en það eru þær, sem andstæðingum málsins hefir orðið tíðrætt um. Ég get nú gengið inn á, að tveir liðirnir séu felldir niður, en ég get alls ekki gengið inn á, að þriðji liðurinn sé felldur niður. Mér finnst nokkuð langt gengið að fella niður það ákvæði, að taka tillit til sameiginlegra eigna, því ef hreppsfélaginu er skipt, þá eru þær eign Engihlíðarhrepps. Eftir orðalagi n. á að meta bætur fyrir tekjumissinn, en ekki að taka tillit til eigna, þegar bætur eru metnar. Nú er það svo, eins og hv. frsm. benti réttilega á, að ef sá hluti kauptúnsins, sem er fyrir sunnan ána, hefði ekki á sínum tíma verið skilinn frá Torfulækjarhreppi, þá ætti kauptúnið nú skilyrðislausa heimtingu á því að vera skilið bæði úr Engihlíðarhreppi og úr Torfulækjarhreppi. Og þá hefði ekki verið um neinar bætur að ræða. Það er meira að segja svo langt frá því, vegna þess að kauptúnið hefði þá orðið að taka fulla hlutdeild í eignum og skuldum hreppanna, og hefði því orðið að fá vissan hluta af eignum Engihlíðarhrepps. En þó að það sé ekki hægt að fylgja nákvæmlega ákvæðum sveitarstjórnarlaganna, vegna þess, að það er búið að skipta kauptúninu sunnan Blöndu úr Torfalækjarhreppi, þá er fráleitt að ákveða, að Blönduóshreppur skuli greiða bætur, án þess að tillit sé tekið til eigna þeirra, sem safnazt hafa fyrir hjá Engihlíðarhreppi við það að skattleggja kauptúnshlutann án þess að útgjöld kæmu á móti. Ég mun því leita samkomulags við n. um, að þessu sé breytt, eða að öðrum kosti bera fram brtt. fyrir 3. umr. — Ég mun svo ekki meira um þetta mál, en vænti þess, að það fái greiðan gang í gegnum þingið.