18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1317 í B-deild Alþingistíðinda. (2156)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Frsm. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Hv. þm. V.- Húnv. er stórhuga og stórorður eins og venjulega, en ég er hræddur um, að hann verði að grípa til dagskrárinnar við 3. umr., vegna þess, að svo er deildin ekki slysaleg í störfum, að frv. þetta verði fellt við þessa umr. — Ég get ekki fallizt á, að rök hv. þm. séu sérstaklega mikils virði. Hann segir, að ekki sé farið eftir orðalagi sveitarstjórnarl. Skýringin liggur í því, eins og ég sagði áðan, að þau skilyrði þarf ekki að uppfylla, vegna þess að í 4. gr. er gert ráð fyrir, að þegar svo stendur á sem hér, þarf ekki samþykki hrepps- eða sýslufélags. En af því að Blönduóshreppur er þegar til af nokkrum hluta kauptúnsins, telur hv. þm. þetta ekki vera eftir orðanna hljóðan, en það er tvímælalaust eftir anda laganna.

Þá talar hann um að vísa þessu máli heim aftur til aðilja, en það er alveg óþarfakrókur, því að vitað er um afstöðu hrepps- og sýslunefndar í þessu máli. Annars er það um afstöðu hv. þm. V.-Húnv. að segja, að hann lítur mjög einhliða á þetta mál, þ. e. a. s. frá sjónarmiði Engihlíðarhrepps eingöngu, og telur, að ef fullnægt er þeirra sérstöku kröfu og mannanna norðan Blöndu, þá sé allt gott. En mál þetta er víðtækt og fjölþætt og snertir ekki síður kauptúnið sunnan Blöndu. Atvinnureksturinn var fyrir innan Blöndu, eins og ég drap á áðan, og hefir færzt út fyrir, og það er einmitt þetta, sem gerir rökin með sameiningunni svo sterk, að sanngjarn maður getur ekki staðið á móti. Þessi málsatriði liggja ákaflega ljóst fyrir, og þýðir því ekki um það að deila lengi. Hv. þm. hafa gert sér ljóst, hvað skiptir máli í þessu sambandi og hvað ekki.

Viðvíkjandi aths. hv. flm. um 5. brtt. n., er snertir fjörubeit, geri ég ráð fyrir, að fullt samkomulag geti náðst um það atriði.

Um hitt atriðið geri ég ekki ráð fyrir, að n. geti orðið sammála hv. flm., hvort sem maður vill orða það eins og hv. þm. V.-Húnv. gerði, að sé til að kaupa málinu fylgi, eða þá til að ná sættum aðila, sem í rauninni er gerð tilraun með, að sætt geti orðið, með því að gætt sé réttlætis.

Vitanlega tala ég hér nú persónulega, en get ekki sagt um aðra nm. Er vitanlega sjálfsagt að leitast við að fá samkomulag um málið, þó ég geri ekki ráð fyrir, að n. fallist á brtt. hv. flm. Hinsvegar þegar á að meta bætur, þá ber að taka til greina gildandi löggjöf í þessu efni, m. a. 4. gr. sveitarstjórnarl., svo og allar kringumstæður og siðferðislegar réttarkröfur, sem hvor aðili um sig hefir fram að færa, þannig að þetta er alls ekki útilokað, og þó ekki sé tekið fram um einstök atriði, þá eiga þau að koma jafnt til greina fyrir því við matið.