18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1323 í B-deild Alþingistíðinda. (2163)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Mér þykir sem umr. um þetta mál gangi nokkuð úr hófi fram og ekki alveg á vissan veg.

Ég sé ekki, að aðalatriðin hafi verið til umr. nú á aðra klst., heldur aukaatriði, sem ekki skipta máli og engu valda um það, hvort málið nær fram að ganga eða ekki. Og margt, sem talað hefir verið um, einkum af hv. þm. V.-Húnv., er gersamlega utan við það frv., sem hér liggur fyrir. Vitnaði hv. þm. til sveitarstjórnarl. um, að hvergi mætti breyta takmörkum hreppa. En í 3. og 4. gr. sömu l. er kveðið á um, hvernig breyta megi takmörkum hreppa, ef umboðsstjórnin framkvæmir breytinguna. En einnig gæti orðið spurning um, hvort löggjafarvaldið hefir ekki heimild til að fara sína leið í þessu máli eins og öðrum, hvað sem líði umboðsvaldinu. Og nú er svo komið norður þar, að ákvæðin um heimild umboðsstj. til þess að breyta takmörkum hreppanna verða ekki nýtt. Það gengur svo, að oft verður úr reipdráttur, ef tekjuvon er af sneiðinni. Þetta þekkist vel, og vitanlega er svo hér, enda ekki farið leynt.

Ég verð að taka undir með hv. frsm. um það, að höfuðatriðið er, hvar tekjurnar lenda. Þetta atriði liggur þannig við þm., að þeir eiga að gera upp, hvort sveitarfélag, sem af tilviljun hefir nú um skeið hirt tekjur af kauptúni, sem þar hefir vaxið upp, hafi sérstakan rétt til að gera það til eilífðar. Áður var þetta svo, að ekkert af kauptúninu var sérstakur hreppur, en verzlunarlóðin var báðumegin við Blöndu, og er því þetta frv. í samræmi við það. Þegar svo hreppnum var skipt úr Torfalækjarhreppi, var þessi sneið, sem nú er rætt um hér á þinginu, ekki tekin með, af þeim eðlilegu sökum, að hún var þá ekki orðin jafnþýðingarmikil og nú, og því ekki sinnt um hana af aðilum málsins í héraði. Og aðeins þess vegna er málið hér komið, að ekki hefir reynzt kleift heima í héraði að koma því í rétt horf. En í rétt horf kalla ég, að það komist, þegar kauptúnið er komið í eina heild, sem er sjálfu sér ráðandi, og gætir sjálft sinna eigin hagsmuna og ber ábyrgð á að sjá íbúum kauptúnsins farborða.

Náttúrlega eiga kauptúnin í vök að verjast eins og hrepparnir, og munu þeir erfiðleikar ekki verða leystir hér á þinginu. En það sýnir sig alltaf betur og betur, að það kemur ekki til mála, að hrepparnir geti farið þá leið, að skipta hluta úr kauptúni og nota sér til framdráttar. Og þetta hefir komið hér fram, að sveitin, sem er stærri hluti hreppsfélagsins, hefir haft tilhneigingu til að nota sér, að kauptúnsbúar máttu sín lítils, og þó aðaltekjurnar kæmu frá kauptúninu, að nota þær til sameiginlegra þarfa, en láta það ekki fá sambærilegt til sinna þarfa. Svona er þetta yfirleitt þar, sem líkt stendur á. En hreppurinn, sem hirðir tekjurnar, léttir sínu fólki að lifa og hrærast, svo það er mjög eðlilegt, þó það verði því viðkvæmt mál að missa af þeim. Og þar eð hreppurinn hefir ekkert lagt af mörkum, hvorki verzlun né annað, sem skapar fólkinu lífsskilyrði, hefir hann þar engan sérstakan rétt.

Hvað sem líður heimild umboðstj. til þess að ráða fram úr svona máli, er það gefið, að löggjafarvaldið getur tekið það í sínar hendur án þess að raska að nokkru grundvallarreglum sveitarstjórnarl.

Hvort hér eigi að vera um nokkrar bætur að ræða, getur mjög orkað tvímælis. Þegar allt kemur til alls verður grundvöllurinn að vera sá, að kauptúnin fái tekjur af sínu fólki og sjái því farborða. (HannJ: L. eiga að byggja á réttlæti). Hv. þm. getur ekki neitað því, að l. eru ekki alltaf réttlát, og að þá á að breyta þeim. Einnig eru l. oft rangt skilin, og er þá skylda löggjafans að leiðrétta þá, sem slíkt hendir. En það er augljóst mál, að hvort sem kauptún er vel eða illa statt, og ekki síður, ef það er illa statt, þá þarf það á öllu sínu að halda. Ég hefi engar sagnir af því, hvernig Blönduós er staddur. En hvað um það, — kauptúnið þarf samt sem áður að fá þær tekjur, sem því með réttu ber af þessum hluta kauptúnsins. Hvað brtt. hv. allshn. snertir vil ég benda á það, að sú breyt., sem þar er farið fram á, að gerð verði á 4. gr. frv., segir berum orðum, að Blönduóshr. verði að greiða Engihlíðarhr. bætur eftir mati fyrir missi tekna úr Blönduóskauptúni fyrir norðan Blöndu. Mér er spurn: Á þetta að verða til eilífðar? Á kauptúnið ekki að fá það, sem því í raun og veru ber? Á það ekki að fá tekjur af sínum eigin eignum, til þess að geta staðið straum af kostnaði þeirra framkvæmda, sem á herðum kaup túna hvíla yfirleitt?

Þessi brtt. er mjög varhugaverð. Ég hygg, að hv. n. hafi ekki athugað forsendur þessa máls til fullnustu, og það er spurning, hvort ekki væri verr farið en heima setið fyrir Blönduóskauptún með slíkri sameiningu. Ég vil því mælast til þess, að hv. n. og þeir, sem áhuga hafa á þessu frv., taki það aftur til 3. umr., til frekari athugunar.