18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1325 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Guðbrandur Ísberg [óyfirl.]:

Ég nenni nú ekki að elta ólar við hv. þm. V.-Húnv., en geymi mér það til 3. umr. En ég vil þó drepa á eitt atriði í ræðu hans. Hann margundirstrikaði, að hann hefði bent á leið til þess að ráða fram úr öllum þessum vandkvæðum, sem hér um ræðir. Ég ætla þá í þessu sambandi að drepa á nokkur af þeim vandamálum, sem getið er um í fskj. þessa frv. Þar er t. d. talað um það í sambandi við fátækramálin, að viss hluti af mönnum á Blönduósi greiði útsvar til annars hrepps. Samkv. fullyrðingum sínum í þessu sambandi ætti hv. þm. V.-Húnv. þá að hafa ráðið bót á þessu sandamáli, sem allir vita, að ekki er. — Þá er getið um það í sambandi við fræðslumálin, að sunnan Blöndu starfi fastaskóli með of fáum börnum til þess að þeir tveir kennarar, sem við skólann eru, hafi nóg að gera, en samt sem áður ganga börn utan árinnar ekki í þennan skóla. Hvaða leið hefir hv. þm. bent á til þess að ráða bót á þessu vandkvæði? Enga. Hvaða leið hefir hv. þm. bent á til þess að ráða fram úr ýmsum vanköntum, sem eru á heilbrigðismálum kauptúnsins? Enga. Hvað kirkjumálin snertir, þá er svo ástatt um þau, að þeir, sem búa norðan Blöndu, verða að fara 12—13 km. til þess að sækja kirkju þeirrar sóknar, sem þeir teljast til, en svo nota þeir Blönduóskirkju, án þess að neitt af sóknargjöldum þeirra renni þangað. Ég hefi ekki heyrt, að hv. þm. V.- Húnv. hafi bent á neina leið til þess að kippa þessu í lag.

Þessar fullyrðingar hv. þm. eru allar út í loftið, og þannig er allur hans málflutningur í þessu sambandi, og það er ekki við öðru að búast, því að þetta mál hefir við fyllstu rök að styðjast. Það er ekki hægt að mæla á móti því, að hér er um kauptún að ræða, sem á að vera eitt hreppsfélag.

Viðvíkjandi ræðu hv. þm. Borgf. skal ég strax taka það fram, að þetta mál hefir ekki verið rætt á sýslufundi í Húnavatnssýslu, og ég álít, að þetta mál eigi þangað hreint ekkert erindi.

Í þessu sambandi vil ég benda á það, að þegar Skildinganes var lagt undir Reykjavík, var leitað umsagnar Gullbringu- og Kjósarsýslunefndar, af því að þar var um breyt. á lögsagnarumdæmi Reykjavíkur að ræða. En hér er ekki um neitt slíkt að ræða. Þetta mál er sérmál tveggja hreppa. Á sýslunefndarfundi mundi þetta mál alls ekki vera rætt á grundvelli hagsmuna Blönduósbúa eða íbúa Engihlíðarhrepps, heldur yrði það rætt og afgr. með tilliti til hagsmuna kaupfélags Húnvetninga. Ég skammast mín ekkert fyrir að stuðla að því, að þetta gangi framhjá sýslunefnd, því að þangað á það ekkert erindi, eins og ég sagði áðan. Mér þykir leitt, að hv. þm. Borgf. skyldi snúast gegn þessu máli. Fyrir nokkrum árum flutti ég mál í þessari hv. d., sem var svipað þessu máli að vissu leyti. Það var frv. um afnám flugskattsins. Gegn því máli var „agiterað“ mjög mikið, sérstaklega af utanþingsmönnum. Hv. þm. Borgf. stóð þá með mér og barðist mjög drengilega fyrir málinu, sem hann vissi, að var byggt á réttum og sanngjörnum forsendum. Mér virðist þetta mál, sem hér liggur fyrir, jafnsanngjarnt og réttlátt, því að þetta frv. fer fyrst og fremst fram á að sameina tvo kauptúnshluta í eitt sveitarfélag. En hv. þm. Borgf. er á móti þessu sanngirnismáli. Ég veit ekki, hvað veldur þessu. Ef til vill hefir hv. þm. farið of oft yfir þessa makalausu Blöndubrú eða hann hefir lagt of mikið eyrun við „agitation“ gegn þessu máli, en ég vona samt, að hann athugi sinn gang og reyni að komast að annari niðurstöðu fyrir 3. umr.