18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (2167)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Mér kom allundarlega fyrir sjónir, hvernig hv. þm. Ak. hagaði orðum sínum. Hann sagði, að ég væri mótfallinn þessu máli. Það, sem ég hefi lagt til málsins, er rökst. dagskrá, sem ég hefi borið fram. Hún felur það í sér, sem hann hefir ekki mótmælt, að málið hafi ekki fengið þá meðferð heima í héraði, sem það á að fá, áður en það er borið fram á Alþingi. Málið hefir sem sagt aldrei komið til kasta sýslunefndar Húnavatnssýslu á þann hátt, sem sveitarstjórnarl. gera ráð fyrir, þ. e., ef samkomulag fæst ekki milli viðkomandi hreppa. Hvað fullyrðingu hv. þm. snertir um það, að þetta mál yrði ekki afgr. í sýslunefnd A.- Húnavatnssýslu með tilliti til þess, hvernig málið liggur fyrir, heldur með tilliti til hagsmuna kaupfélagsins í A.-Húnavatnssýslu, vil ég taka það fram, að ég tel satt að segja ekki, að sýslunefnd sé skipuð þannig, að hún afgr. málin út frá allt öðrum forsendum en liggja fyrir til afgreiðslu málsins. Og hvaða skynsamlega ástæðu er hægt að færa fyrir því, að þetta mál yrði afgr. á þessum grundvelli? Í sýslunefndinni eiga sæti einn maður úr hvorum þessara hreppa, sem hér um ræðir. Það getur því ekkert hallazt á um beina íhlutun þessara tveggja hreppa um þetta mál í sýslunefndinni. En hvað það snertir, að útsvarið, sem kaupfélagið á að greiða, sé það, sem ráði úrslitum í þessu efni, þá stendur svo sérstaklega á um kaupfélög, að útsvör þeirra eru lögákveðin. Það getur því enginn fengið mig eða aðra til þess að trúa því, að farið yrði eftir þessu atriði við afgreiðslu málsins í sýslunefnd. Ég verð að segja, að ég tel það meðmæli með þessu máli, ef svo er, eins og hv. þm. Ak. hyggur, að maður standi verr að vígi við að leggja dóm á málið eftir að hafa ferðazt þangað norður nokkrum sinnum. — Hv. þm. heldur að ég hafi orðið fyrir „agitation“ í þessu máli. Það er mesti misskilningur hjá honum, því að ég hefi ekkert sagt um afstöðu mína til þessa máls, þegar það er orðið frambærilegt til þess að verða lagt fyrir þingið. En á meðan ekki hafa verið reyndar til þrautar þær leiðir, sem sveitarstjórnarl. gera ráð fyrir í þessu efni, þá er ekki tímabært að bera þetta mál fram á þingi, og við það miðast dagskrártill. mín. Þetta er mín afstaða til þessa máls á núv. stigi þess.