18.11.1935
Neðri deild: 76. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1327 í B-deild Alþingistíðinda. (2168)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég skal ekki lengja umr. mikið. Ég vil þó segja nokkur orð viðvíkjandi rökst. dagskrá, sem hv. þm. Borgf. hefir borið fram, en hann virðist hafa ýmugust á þessari aðferð til framkvæmdar málinu, en hann hefir þó ekki látið í ljós beina andúð gegn efni málsins. Það er líklegt, að hann sé með því. (PO: Ég hefi ekki sagt það). Það er líklegt, að hann sjái, að þetta er sanngirnismál, en til þess að fullnægja einhverjum ókunnum þörfum, vill hann fara krókaleið, en sú leið liggur út í ógöngur, en ekki að markinu. Þessi dagskrártill. felur sem sé í sér allt annað en það, sem hér um ræðir. Í henni er talað um, að ekki hafi verið leitað álits sýslunefndar A: Húnavatnssýslu. Nú gæti maður ímyndað sér, að það hefði ekki mikla þýðingu fyrir okkur að fá álit sýslunefndar, ef við teldum þetta mál að formi og efni til óhjákvæmilegt. Hinsvegar er það svo, að það er upplýst, að hreppar þeir, sem hér um ræðir, hafa ekki komið sér saman um þetta mál, og sýslunefndin mun ekki heldur taka í þann streng að sameina þennan hluta kauptúnsins við Blönduóshrepp, af hverju sem það kann að stafa. Viðvíkjandi 3. gr. sveitarstjórnl., sem hv. þm. Borgf. talaði um, er það að segja, að hún hljóðar aðeins um það, ef samkomulag næst milli hreppa, sem hlut eiga að máli, og sýslunefnd mælir með skiptingunni. En hér er ekki um neitt slíkt að ræða. Þessi dagskrártill. er því aðeins út í hött, og það ætti ekki að geta komið til mála, að hún verði borin upp. Rökstuðningurinn er allur úti á þekju og fjallar í rauninni um allt annað efni en hér um ræðir. hér liggur fyrir frv. um skipun þessara mála, svo að við verði unað, og önnur leið en sú, sem farin er í þessu frv., hefir ekki reynzt fær, því að grundvöllurinn fyrir hinni leiðinni er samkomulag á milli hreppa, og það samkomulag hefir ekki og getur ekki náðst undir þessum kringumstæðum þar norðurfrá. Það er því munnleg till. mín, að hæstv. forseti neiti að bera upp dagskrártill. þessa. Ef hún verður samt borin upp, þá er hún á móti anda þingskapa, og þá er sjálfsagt að fella hana sem óviðkomandi mál.