26.02.1935
Sameinað þing: 2. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

1. mál, fjárlög 1936

Magnús Jónsson óyfirl.:

Herra forseti! Þegar hæstv. fjmrh. leggur fyrir Alþingi fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár, vil ég nota tækifærið, sem gefst, til nokkurra aths. Þetta tækifæri er, frá útvarpsins hálfu, góðra gjalda vert, þótt mér hefði fundizt heppilegra að geta fengið tíma til andsvara næsta dag, því enginn möguleiki er á því að ná fullu valdi á öllum þeim tölum, sem lesnar eru upp í svo fljótu bragði, og því síður að draga af þeim fullkomnar ályktanir. Ég mun því láta ræðu hæstv. fjmrh. að mestu afskiptalausa, nema það, sem ég kem að henni ósjálfrátt, með því að lýsa fjármálaástandinu og fjármálastefnunni.

Ég undraðist það stórlega, hve ræða hæstv. fjmrh. var full af illkvittni og aðdróttunum í garð andstæðinganna, og að hann skyldi leyfa sér að skapa þann tón, að nota sinn ótakmarkaða ræðutíma til að rifja upp blaðadeilur og svara blaðagreinum, þegar öðrum er skammtaður tími til andsvara. Hygg ég, að útvarpið ætti að taka til yfirvegunar, hvort ekki ætti að breyta útvarpsreglunum svo umr. gætu orðið hlutlausari.

Ég get verið fáorður um kattarþvott hæstv. ráðh. um það, hverjum sé um að kenna, hvernig útkoma fjárhagsins er, því ég tel það sjálfsagt, að einhver af ráðherrum fyrrv. stjórnar fái leyfi til andsvara, þegar deilt hefir verið svo ódrengilega á fyrrv. fjmrh.

Það er nú óvenjustutt síðan síðasta fjárlagafrv. var lagt fram, og mætti því ætla, að fátt hefði breytzt á þeim tíma. Og eitt virðist a. m. k. óbreytt með öllu, og það er stefna hæstv. fjmrh. Hann leyfði sér þá, með þá voðalegu útsýn framundan, sem ég þá lýsti, að bera fram útgjaldahæsta fjárlagafrv., sem nokkru sinni hafði verið lagt fyrir Alþingi, leyfði sér að bera það fram og keyra það í gegnum Alþingi með talsverðum hækkunum, og lét með harðri hendi fella þær till. til lækkunar, sem sjálfstæðismenn í fjvn. báru fram. Og nú kemur ráðh. hér og leggur á borð þingsins enn hærra fjárlagafrv. Ég vil nú spyrja: Hefir ástandið breytzt til hins betra? Eru horfurnar bjartari? Eru líkur fyrir meira gjaldþoli þegnanna og atvinnuveganna nú en í haust? Eru markaðshorfur betri? Er gjaldeyrisástandið betra? Er lánstraust landsins sterkara?

Allur landslýður veit, að engri af þessum spurningum er hægt að svara játandi. Fjmrh. getur ekki heldur gefið þessu játandi svar, enda væri það lítils virði þótt hann gerði það, þvert ofan í alla skynsemd.

Mér finnst breytingin frá því í haust öll vera á hinn bóginn, öll á öfuga veginn, öll niður á við. Og ég er ekkert hissa á því. Ef haldið er áfram á rangri braut, þá miðar alveg eðlilega í ranga átt. Ég vil nefna um þetta aðeins örlítil dæmi.

Í haust, þegar hæstv. fjmrh. hélt sína fyrstu fjárlagaræðu, gerðu margir sér góðar vonir um árangurinn af skipulagningu afurðasölunnar, sem þá var byrjað á. Það var ekki heldur haft hljótt um þá glæsilegu möguleika, sem þar væru opnaðir. Var hafinn um það heljarmikill básúnuhljómur og skrölt eins og venja er í þeim herbúðum. Löggjöf þessi var líka sett með samvinnu allra flokka, þótt trúin á hana væri nokkuð mismunandi, en útfærsla og framkvæmd öll í höndum stj., og eftir því hefir árangurinn orðið. Lögin voru verkfæri, sem lögð voru í hendur stj., en það er alkunna, að verkfæri eru misjafnlega vel notuð. Það slá ekki allir jafnmikið eða jafnvel, þótt með sama ljánum sé, og róa ekki allir jafnmikið, þótt þeir hafi sömu árina. Og ég held, að óhætt sé að segja, að á útfærslu þessara laga hafi orðið allveruleg mistök. Að vísu er ekki full reynsla fengin enn, en vonir manna eru mun lægri nú en í haust. Kjötsölulögin hafa í sumum sveitum landsins gert stórtjón, í öðrum sveitum hvorki til né frá, og jafnvel þar, sem bezt hefir gengið, mun ávinningurinn vera vafasamur.

En svo fylgdi böggull skammrifinu, og það var kauphækkun í opinberri vinnu. Sú kauphækkun nam þúsund krónum á dag og var greidd strax og affallalaust.

Um framkvæmd mjólkursölulaganna hefir verið rætt hér í útvarpið, og er því í minni þörf á að tala um það hér, en svo óskaplega hefir verið með það mál farið, að nú er dunið á mjólkurverkfall hér í Rvík. Mjólkursölunefndin lætur pólitískt hatur sitja í fyrirrúmi þess að vinna skylduverk sín og situr um að rétta löðrunga að þeim, sem hún á að þjóna. Stj. hefir þannig dregið upp merkilega mynd af sér síðan í haust. — Af vonum manna um bætta afkomu við skipulagningu afurðasölunnar eru nú eftir þessar álitlegu rústir.

En hefir þá birt yfir um þá afurðasöluna, sem mestu skiptir fyrir gjaldþol landsmanna? Þar er nóg að minnast á síðustu hörmungasöguna — lokun Ítalíumarkaðarins. Svo geigvænleg er þessi fregn ofan á annað, að enginn sér afleiðingar hennar í fljótu bragði. Ofan á takmörkun Spánarmarkaðarins, ofan á rýrnun Portúgalsmarkaðarins kemur þessi síðasta fregn eins og dauðadómur.

Það má nú náttúrlega segja, að ríkisstj. íslenzka geti ekki að þessu gert og að hún eigi engan þátt í þeim ráðstofunum, sem gerðar eru í Suðurlöndum. En á þá að láta eins og það sé ekki til, sem ekki er hagt að gera við? Vitanlega ekki. Þeim viðburðum, sem ekki er hægt að ráða við, verður að mæta með gagnráðstöfunum. Bóndinn getur ekki að því gert, að vetur kemur eftir sumar. En það afsakar hann ekki, ef hann vanrækir að gera sínar ráðstafanir. Stj. getur ekki gert við því, þótt Miðjarðarhafslöndin takmarki innflutning sinn, en hún á ekki að svara vaxandi verzlunarörðugleikum með hærri og hærri álögum á þegnana og með síhækkandi útgjöldum í fjárlögum.

En er þá stj. alveg saklaus í fisksölumálunum síðan í haust? Ekki finnst öllum það. Með lögum, sem hún keyrði gegnum síðasta þing, lagði hún að velli langarðmesta fyrirtæki, sem landsmenn hafa eignazt; fyrirtæki, sem á undanförnum árum hefir veitt millj. eftir millj. króna inn í landið. En ég á þar við fisksölusamlagið. Af því að einhverjir geðillir menn í Sambandi ísl. samvinnufélaga og öðrum herbúðum stjórnarflokkanna höfðu nú fengið þá hugmynd, að samlagið væri ekki eins og þeirra geðillu köllum líkaði, þá varð að rífa það til grunna. Nú er að vísu verið að reyna að klambra við það með bráðabirgðalögum, en þetta verk verður nú ekki aftur tekið. Erfiðleikunum í markaðslöndunum er mætt með fullum glundroða í fisksölumálinu hér heima fyrir. Og fjmrh. mætir erfiðleikunum með því að bera fram hin útgjaldahæstu fjárlög.

Fjmrh. skýrði frá því, að sendimaður stj. væri nú í Englandi og hefði tekið þar lán, nærri tólf millj. króna að upphæð. Öllu þessu fé á að verja til þess að borga áfallnar skuldir innan lands og utan.

Það má vera, að stjórnarliðinu detti í hug að kenna öðrum þessa voðalegu skuldasöfnun. En ég verð að segja það, að mér er ómögulegt að skilja annað en hún hljóti að vera þeim að kenna, sem hafa farið með stjórn fjármálanna.

Á árunum 1924—1927 voru sjálfstæðismenn við völd, og á þeim árum gerðist þetta ekki. Þá voru skuldir ríkisins lækkaðar um meira en þriðjung, þetta hlýtur því að hafa gerzt síðan. Og þessi ár öll hafa núv. stjórnarflokkar farið með þessi mál. En fjmrh. hampar sínu útgjaldahæsta fjárlagafrv. framan í staðreynd þessa.

Ég ætla nú ekki að orðlengja þetta, en ég ætla bara án allra æsinga að segja þetta:

Með þessu áframhaldi verðum við komnir undir fjármálaeftirlit útlendinga innan skamms tíma, kannske innan enn skemmri tíma en nokkurn varir. Og þá fáum við ekki fleiri svona há fjárlög. Þá byggjum við ekki lengur vegi eða brýr, hafnir, síma og skóla. Þá fáum við ekki lengur að sækja peninga til annara þjóða, heldur verðum að fara að borga þá.

Ég get ekki gert við því, að ég er þannig skapi farinn, að ég vildi, að við hefðum heldur sjálfir, af okkar eigin ákvörðun, tekið í taumana. Um þetta báðum við sjálfstæðismenn þjóðina fyrir síðustu kosningar. Meiri hluta kjósenda þóknaðist þá ekki að verða við þessum tilmælum okkar, enda verður nú þjóðin mest að gjalda þess sjálf, m. a. með þessum útgjaldahæstu fjárlögum ár frá ári. Þennan beiska bikar verður þjóðin nú að súpa í botn.

Út af orðrómi, sem gengið hefir hér í bænum undanfarna daga og ýmsir helztu framsóknarmenn eru bornir fyrir, um það, að núv. ríkisstj. hafi orðið að gefa einhver auðmýkjandi ókjaraloforð til þess að fá þetta lán í Englandi, vil ég taka þetta fram: Að ef svo er, að fleiri skilyrði séu gefin eða yfirlýsingar í sambandi við lántöku þessa en opinbert hefir verið, þá er slíkt gert án samþykkis Sjálfstfl.

Þá vil ég leyfa mér með nokkrum orðum að víkja að því, hve mikil áhrif kaupgetan hefir á greiðslujöfnuðinn. Þegar kaupgetan er meiri en afrakstur þjóðarbúsins, þá hallast á um greiðslujöfnuð og skuldir aukast. En sé kaupgetan minni en afraksturinn, þá verður jöfnuðurinn hagstæður og þá safnar þjóðin peningum, og þannig er það í ýmsum löndum, og það eru þau lönd, sem nú hafa peninga til þess að lána þeim, sem hafa lifað um efni fram, t. d. okkur, sem árum saman höfum haft óhagstæðan greiðslujöfnuð og tekið lán á lán ofan til þess að jafna hallann og með því haldið við því ólagi, að kaupgetan væri hærri en þjóðarbúið bæti borið.

Það er ekki á valdi stj. að halda kaupgetunni sífellt uppi. Breyting kaupgetunnar hlýtur óhjákvæmilega að koma og verður samkv. afrakstri þjóðarbúsins. Það er ekkert annað en rógur, illkvittni og fals — já, ég get naumast valið því nógu ill orð — að halda því fram, að einstakir menn séu að rýra kaupgetuna. Þetta vita líka allir, sem nokkurt vit hafa á almennum peningamálum.

Ég vil í þessu sambandi minnast á þrjár leiðir, sem liggja að því að færa niður kaupgetuna.

Sú fyrsta er, að mynt landsins fellur, en eftirspurn um erlendan gjaldeyri vex og hann hækkar að sama skapi, og ég er sannfærður um það nú, ef kaupgeta okkar væri færð niður í það, sem þjóðarbúið raunverulega getur borið, og allar óeðlilegar hömlur teknar af, að mynt okkar hríðfélli. Mundi enska pundið þá fljótlega komast upp í 30—40 krónur.

Önnur aðferðin er sú, að draga úr útgjöldunum, og ég álít, að þá leið verði að einhverju leyti að fara. Hver einasti fjmrh., sem með nokkurri aðgæzlu og fyrirhyggju athugar ástandið, dregur af fremsta mætti úr útgjöldum á fjárhagsáætlun, reynir að stemma stigu fyrir útgjöldum og leggur skattana aðallega á eyðslu manna, en ekki á tekjur, og styrkir á þann hátt þjóðarbúskapinn.

Þá er þriðja leiðin, og virðist helzt vaka fyrir hæstv. fjmrh. að velja þá leiðina, en hún er sú, að rígbinda allan gjaldeyri í nafnverði. Þetta orsakar ákafa ásókn á banka og aðrar stofnanir, sem láta peninga af hendi og sjá um yfirfærslur, unz þessar stofnanir eru komnar í greiðsluþrot. Er þá reynt að stofna til nýrra lána og ná á þann hátt í erlendan gjaldeyri, og má í því sambandi minna á nýja lánið enska. En þetta er rétt eins og þegar sjúklingi er gefinn hitaskammtur til þess að kæla hann um stundarsakir. Veikin sjálf batnar ekki hót við það.

Hæstv. fjmrh. talaði um að bæta úr þessu með því að loka kaupgetuna inni í landinu, og muni þá renna upp sælutímar fyrir innlenda framleiðslu og ófyrirséðir möguleikar opnast um nýjar iðngreinar. En þetta er allt saman helber ósannindi og blekkingar. Við getum ekki lokað kaupgetuna inni, og við megum ekki loka hana inni. Við höfum gert verzlunarsamning við eina þjóð og verðum að gera verzlunarsamninga við fleiri þjóðir. Við verðum að leyfa innflutning frá Spáni á öllu því, sem þaðan er hægt að kaupa og þaðan er óskað að kaupa. Og svo kemur Ítalía og leggur sinn hnefa á borðið, og við verðum að svara þeim á sama hátt — verðum að halda kaupgetunni opinni upp á gátt. En til gamans má geta þess, að þótt hægt væri að loka kaupgetuna inni, mundi stefna að því sama. Vörur mundu hækka í verði, og hækkað vöruverð er ekkert annað en grímuklædd gengislækkun. Og þó að laun hækkuðu líka, þá væri lítið gagn að því, ef allt, sem þarf að kaupa fyrir launin, hefði margfaldazt í verði, svo launahækkunin ætist upp eða meira en það. Allt þetta skraf er þannig eintóm blekking og öllum fjármálamönnum kemur saman um það, að innilokun kaupgetunnar sé raunveruleg gengislækkun.

Ég get ekki stillt mig um að koma inn á eitt aukaatriði, og það er dreifing kaupgetunnar — þannig að taka frá þeim, sem meira hefir, og færa yfir á hinn, sem minna hefir. Dreifing kaupgetunnar er fjarskalega fínt orð og lætur vel í eyrum, en er hrein vitleysa, þegar reyna skal, og eingöngu til þess að herða á fjötrunum, og verkar aðeins þannig, að fjármagnið er flutt úr þeim stað, sem það dregur úr greiðsluvandræðunum, og flutt þangað, sem það herðir á þeim.

Hæstv. fjmrh. hefir nú rétt til andsvara og mun sjálfsagt nota hann líkt og í fyrra til þess að setja fram ýmsar fullyrðingar, sem mér er meinað að svara, vegna þess að útvarpið gefur mér ekki rétt til þess.

Í fyrra krafðist hann þess m. a., að ég benti á leiðir til niðurskurðar á fjárlögum. Á þessar leiðir var svo bent af sjálfstæðismönnum í fjvn. Þeir báru þá fram nokkrar lækkunartillögur, rétt eins og prófstein á vilja meirihlutaflokkanna og stjórnarinnar í þessu máli. En móttökurnar voru þær, að ekki var til neins að halda áfram.

Nú býst ég við, að hæstv. fjmrh. eigi erfiðara með að krefjast þess sama af okkur stjórnarandstæðingum. En um leið og ég minni á þetta, að ég eða minn flokkur á ekki kost á að halda uppi frekari svörum í málinu, vil ég ljúka þessum orðum mínum með ósk um, að þjóðin megi bera gæfu til að komast klakklaust út úr þessum miklu hættum, er hún nú horfist í augu við.