21.11.1935
Neðri deild: 79. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1333 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Eftir að ég var búinn að ljúka mínum ræðutíma við 2. umr. þessa frv. og var af hæstv. forseta neitað um að svara, notaði hv. þm. Ak. sér tækifærið til að gera litla og lélega tilraun til þess að véfengja andmæli mín gegn höfuðástæðum flm. fyrir frv. Hann réðst þó ekki í meira en að reyna að verja fjögur fyrstu atriðin í grg. frv. Ég vil nú við þessa umr. nota tækifærið til þess enn á ný að sýna fram á léttvægi þessara ástæðna hv. flm. frv., þó ég væri áður búinn að andmæla þeim við 1. umr. Ég vil vona, að hv. þm. Ak. sjái sér fært að reyna að svara mér nú, meðan ég hefi ræðutíma til þess að svara honum enn á ný, en að hann slengi ekki inn órökstuddum atriðum í málinu eftir að minn tími er búinn, því það er náttúrlega þrátt fyrir það nokkuð ójafn leikur í þessu máli, þar sem ég verð að standa næstum því einn uppi gegn mörgum. Því vil ég skora á hv. þm. Ak. að koma með sínar aths., ef hann hefir eitthvað að segja, þegar er ég er búinn að reka ofan í hann það, sem hann sagði við 2. umr.

Hann minntist fyrst á fátækramálin. Umsögn í grg. frv. um þau hljóðar á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar kennir hins mesta ósamræmis, því útsvör langstærsta fyrirtækisins renna út úr kauptúninu, þrátt fyrir allmikil sveitarþyngsli meðal fyrrverandi og núverandi verkamanna þessa fyrirtækis, þeirra sem fyrir sunnan ána búa“.

Ég var búinn að láta það í ljós, að einasta ástæðan, sem eftir stæði fyrir sameiningunni, væri sú, að Blönduóshreppur þyrfti að ná í útsvör samvinnufélaganna norðan við ána. En ég get nú ekki talið það neinn ókost fyrir þann hrepp, þó íbúar hans fái vinnu og þar af leiðandi tekjur frá samvinnufélögunum.

Þá er næsti liður um hið mjög svo vítaverða ástand, sem þeir telja á fræðslumálum íbúanna norðan Blöndu, þar sem þeir halda því fram, að börnin séu sett til náms í súðarherbergjum eða öðrum lélegum húsakynnum. Aftur á móti telja þeir í grg., að nóg pláss sé fyrir þessi börn í barnaskólanum vestan árinnar. Ég get nú upplýst það, að ekki eru nema tvö börn á skólaskyldualdri í byggðinni austan Blöndu, svo þau geta ekki orðið til verulegrar fyllingar í það skarð, sem þeir telja í skólanum fyrir vestan, sem fylla þurfi til þess að kennarar hafi þar nóg að gera. Það liggur og í augum uppi, að skólanefnd Engihlíðarhrepps getur ekki verið í neinum vandræðum með að koma fyrir í skóla þessum tveimur börnum. Það er nú svo í flestum sveitum, að skólabörnum verður að koma fyrir á tveimur bæjum eða fleiri við hvern skóla, og gefst vel, enda hefir því ekki verið mótmælt, að barnafræðslan í Engihlíðarhreppi þoli fullkomlega samanburð við barnafræðsluna á Blönduósi. Þess vegna eru það ekkert nema sleggjudómar, svo ekki sé nú tekið of djúpt í árinni, að segja það, að barnafræðslunnar vegna sé nauðsynlegt að sameina kauptúnshlutana, og er óviðeigandi að bera slík rök fram á Alþingi. Ég sé því ekki, að hægt sé að hengja hatt sinn á þessar ástæður.

Þá eru næst heilbrigðismálin. Ég vil nú segja, að þar sé svo ósvífnislega að orði komizt í grg., að út yfir tekur, þegar sagt er, að heilbrigðissamþykkt kauptúnsins hafi strandað á neitun Engihlíðarhrepps um samvinnu. Sannleikurinn er sá, að það var einmitt hreppsnefnd Engihlíðarhrepps, sem lagði frv. til heilbrigðissamþykktar fyrir sýslufundinn. En hver var það þá, sem beitti sér á móti því og kom því til vegar, að það frv. var ekki samþ.? Það var einmitt héraðslæknirinn á Blönduósi, Páll Kolka, maðurinn, sem einna harðast berst fyrir sameiningunni, og maðurinn, sem síðar leyfir sér að reyna að nota þetta verk sitt sem ástæðu fyrir sameiningunni. Annað eins og þetta kallar maður nú nokkuð óvenjulegan málflutning og vopnaburð. Við þetta allt saman bætist svo það, að sjálfur formaður sýslun. gerist á Alþingi flm. þessara heiðarlegu röksemda fyrir þennan embættismann fyrir norðan. Þegar embættismenn þjóðarinnar gerast svo ósvífnir í því að reyna að villa almenningi sýn sem hér er raun á, þá verð ég að segja það, að mér finnst syndamælirinn orðinn fullur. Ennfremur er í þessari grein bent á það, að ekki hafi fengizt, vegna andstöðu Engihlíðarhrepps, að stækka ljósmóðurumdæmi Blönduóshrepps norður fyrir ána. En það vita allir, að umdæmi ljósmæðra fara ekki ætíð eftir hreppum, og þarf því enga sameiningu hreppanna til þess að breyta ljósmóðurumdæmi Blönduóshrepps.

Þá voru kirkjumálin fjórða og síðasta atriðið, sem hv. flm. reyndi að nota máli sínu til framdráttar. Nú er það svo, að ytri hluti Blönduóskauptúns heyrir til Höskuldsstaðasókn, en notar þó Blönduóskirkju og Blönduóskirkjugarð. Þetta finnst þeim svo öndvert fyrirkomulag, að sameina þurfi kauptúnshlutana í einn hrepp til þess að koma þessu í lag. Ef þessu væri haldið fram af fávizku, þá væri það afsakanlegt, en svo er einmitt ekki, heldur eiga þetta að vera rök. Þessir heiðruðu menn ættu þó að vita, að kirkjusóknir fara ekki eftir hreppum, og þar sem takmörkum hreppa hefir verið breytt hér, er því seilzt nokkuð langt til lokunnar. Mér hefir fundizt ástæða til að benda á þennan nauðaómerkilega málflutning, svo að ljóst megi vera, á hve veikum grundvelli þetta mál er reist.

Ég vil gjarnan eins og áður viðurkenna eina ástæðu fyrir því, að Blönduóshreppur vilji sameininguna, og hún er sú, að ná handa þessum hreppi tekjum af kauptúnshlutanum norðan árinnar. Annað mál er það, hversu réttmæt þessi ástæða er. Ég vil benda á það, að Engihlíðarhreppur er fátækur hreppur; þó honum hafi á nokkrum síðustu árum tekizt að safna nokkrum sjóði, þá man ég það, að um eitt skeið, áður en samvinnufélögin voru stofnuð, var Engihlíðarhreppur svo illa stæður, að hann varð að fá styrk úr sýslusjóði. Þetta verður að viðurkenna, þó leitt sé, en það sannar aðeins það eitt, að þarna eru svo léleg skilyrði, að hreppurinn verður ekki sjálfbjarga, þegar búið er að taka þennan tekjustofn af honum. Ég viðurkenni, að það er leitt að þurfa að segja frá þessu, en það þýðir ekki að leyna staðreyndum. Ég hefi áður bent á það, að einn hluti hreppsins, Laxárdalurinn, er alltaf meir og meir að leggjast í auðn. Það ætti að geta verið skiljanlegt, að því meir sem hreppurinn rýrnar, því ófærari verður hann til að standa undir þeim gjöldum, sem hvíla á sveitarfélaginu. Ég hefi bent á það, að til þess að standast gegn hinu mikla hruni hefir hreppsnefndin reynt að ná eignarheimild á þeim jörðum, sem fara í eyði, til þess að byggja þær upp. Er hreppsnefndin þannig að reyna að auka aftur lífsmöguleikana, en vitanlega með því að taka af hreppnum kauptúnshlutann og þær tekjur, sem samvinnufélögin veita hreppnum, þá er möguleikunum til þessa burtu kippt. Hér er því verið að fara aftan að siðunum, ef á að fara að rýra möguleika leiðandi manna í Engihlíðarhreppi til þess að efla búskapinn þar, en fara að efla Blönduóshrepp, sem nóga möguleika hefir til að standa undir sínum rekstri, og hefir auk þess engar sérstakar framkvæmdir með höndum samanborið við Engihlíðarhrepp, þá verð ég að segja það, að slíkt yrði að teljast í meira lagi undarleg og óviturleg ráðstöfun. Ástandið er nú svo í Engihlíðarhreppi, ef ekkert verður að gert, að það verða ekki nema tvær til þrjár jarðir í Langadal, sem verða þá að halda uppi sveitargjöldunum. Refasveitin er svo rýrt pláss, að það er ekki hægt að reikna með henni, ef þessi hluti verður hlutaður af, eins og hv. þm. Ak. þekkir. Hvíla þá öll megingjöld hreppsins á örfáum mönnum í Langadal. Af því mundi leiða það, sem þegar er farið að bera á, að þessir menn mundu hreint og beint flýja sveitina undan svo óhæfilegum álögum. Ekki af því, að þær væru ranglátar í sjálfu sér, heldur af því þær væru svo erfiðar, en óhjákvæmilegar, þar sem á svo sárafáa gjaldendur væri að leggja, og yrði því að ganga á eigur gjaldendanna. Það stefnir því allt að því, ef rýra á tekjumöguleika Engihlíðarhrepps á þennan hátt, að þá verður það til þess, að margar jarðir leggjast í eyði, en þeir bændur, sem eitthvað eiga, flýja undan óbærilegum gjöldum, — og hvernig er þá komið? Ég efast ekki um, að hv. þm. Ak. og hv. þm. A.-Húnv. er kunnugt um það, að Engihlíðarhreppur er einhver rýrasti hreppurinn í Austur-Húnavatnssýslu, og er því hart aðgöngu að taka af honum til þess að bæta við annan hrepp, sem er betur stæður. Frá því sjónarmiði verður Alþingi að líta á málið. Hér er verið að taka möguleika af þeim, sem veikari er, og bæta við hinn sterkari. Þetta er ekki hin ríkjandi stefna í okkar þjóðfélagi, og trúi ég því ekki á Alþingi, að það hallist á þá stefnu. Ég vil að óreyndu vænta þess, að fulltrúar Alþfl., sem telja sig málsvara þeirra, sem eru minni máttar, komi hér til sögunnar og hjálpi til þess að verja rétt hinna smáu. Ég verð að leggja sérstaka áherzlu á það, að þessu máli verði gaumur gefinn, og ég vil einmitt í sambandi við þetta mál vekja athygli hv. þm. á öðru máli, sem við þrír þm. flytjum, sem kannske kemur síðar fyrir í dag.

Það er í þessu efni eins gagnvart sveitarfélögunum og innbyrðis afstöðu þeirra, að hinu opinbera ber skylda til að rétta þeim hjálparhönd, sem minni máttar er og veikari aðstöðu hefir. Hér ber því að hjálpa þeim, sem utan árinnar búa, til þess að þeir fái að hafa aðstöðu til að lifa þar nokkurnveginn heilbrigðu lífi. Alþingi verður að hafa það í huga að ganga ekki á rétt þessa sveitarfélags með því að fá öðru sveitarfélagi í hendur aðaltekjustofn þess. Það er almennt álit manna af öllum flokkum, að það verði á næstunni að skapa sveitarfélögum yfirleitt nýja tekjustofna. Hvílíkt herfilegt öfugstreymi væri þá ekki í því að fara að taka af einu fátæku sveitarfélagi sterkasta tekjustofninn, sem það hefir haft yfir að ráða, þegar yfirleitt er viðurkennt, að sveitarfélögin komast ekki einusinni af með þá tekjustofna, sem þau hafa, heldur verði að bæta við þau nýjum tekjuöflunarmöguleikum. Þetta hljóta hv. þm. að skilja, og þrátt fyrir harða „agitation“ allt frá þingbyrjun efast ég ekki um, að þeir athugi þetta mál nokkru nánar áður en þeir samþ. það.

Ég hefi nú rakið þessi atriði nokkru nánar en áður hefir verið gert, sem hv. þm. Ak. nefndi. Ég hefi ekki fundið ástæðu til að fara út í hin önnur atriði, því ég hefi áður rakið þau sundur lið fyrir lið, og hv. þm. Ak. tók þau ekki upp aftur máli sínu til stuðnings; það voru aðeins þessi fjögur atriði, sem hann tók upp, og nú hefi ég bent á, að ekkert þeirra á nokkurn stuðning í veruleikanum nema þetta eina, ránsferðin á hendur Engihlíðarhreppi til þess að ræna hann helztu tekjum sínum.

Mér er það ljóst, að þetta mál er rekið af meira offorsi af hálfu stóru flokkanna í þinginu heldur en við hefði mátt búast. Ég tók eftir því, að hv. form. Sjálfstfl. var að hvíslast á við hv. frsm. n. í þessu máli. Ég get sagt það, að af hendi þessa hv. flokksformanns hefir þetta mál verið rekið í hans flokki með meiri ofstopa heldur en dæmi eru til um áður, að undanteknum einstökum ofbeldis- og ósvífnisbrögðum, sem beitt hefir verið af leiðandi manni í flokki sósíalista og form. Framsfl. (ÓTh: Var það þegar hv. þm. var rekinn?). Svo hatramleg hefir baráttan verið í þessu máli, að haldið hefir verið fram, að hér sé verið með einhver pólitísk brögð gagnvart manni eins og hv. þm. A.- Húnv. Finnst mér sá flokkur velja illa sína menn, ef hann er það barn, að það verði að hafa með honum barnapíu til þess að passa, að hann pissi ekki á sig.