02.12.1935
Efri deild: 84. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1342 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Briem) [óyfirl.]:

Hv. frsm. varð að játa, að enginn stafur lægi fyrir frá annari hreppsnefndinni né frá sýslunefnd. En hann sagði, að það gerði ekki svo mikið til, þó að sýslunefnd hefði ekki átt kost á að kynna sér málið, af því að oddviti hennar vari einn aðalfylgismaður málsins. Þetta var nú öllum kunnugt áður. En ég lít nú svo á, að oddviti sýslunefndar sé ekki sama og sýslunefnd, enda óttast hv. þm., að afstaða sýslunefndar myndi verða öll önnur en hans, sem sjálfur er hreppsbúi á Blönduósi. En ef sýslunefnd leggst á móti málinu þrátt fyrir eindregið fylgi oddvitans, virðist það benda til þess, að meira en lítið sé bogið við málið. Þá taldi hann hættu á því, að málið kæmist á of breiðan grundvöll, ef því yrði vísað heim aftur. Ég get nú ekki séð, að nein hætta stafi af því, þótt hreppamörkin yrðu ákveðin eitthvað öðruvísi en frv. ákveður, t. d. þannig að þau kot, sem hann minntist á, yrðu þá lögð undir Blönduóshrepp, af því að þau eru svo lítilfjörleg, að ekki er lífvænlegt á þeim án vinnu í kaupstaðnum. Hann sagði, að engar óskir hefðu komið fram frá Engihlíðarhreppi um þetta. En þess er engin von, þar sem hreppsnefndin leggur eindregið til, að frv. verði fellt. En verði það ekki fellt, er það ósk hreppsn., að því verði vísað til sýslunefndar, og því væri tími til að koma fram með slíkar óskir.

Hv. þm. játaði, að ekkert lægi fyrir frá hreppsnefnd Blönduóshrepps um málið, heldur hefði einhver „samninganefnd“ tekið málið að sér, og væri hún kosin á almennum hreppsfundi. Ég ætla, að þetta um kosninguna sé vafamál; a. m. k. liggur ekkert fyrir um það.

Hv. frsm. meiri hl. sagði ennfremur, að trygging væri fyrir því, að smábændurnir í kotunum njóti atvinnu í kaupstaðnum framvegis. Fyrir þessu mun engin full trygging vera, heldur aðeins lauslegt loforð frá verkalýðsfélaginu þar á staðnum um einhverja náð í þessu efni. Enginn vafi er á því, að frá þessu þarf að ganga betur, ef það á að teljast full trygging.

Þá sagði hv. frsm., að ég hefði sagt, að til mála kæmi, að Blönduóshreppur legði allan Engihlíðarhrepp undir sig. Það er fullkominn misskilningur, að ég hafi sagt þetta, því að mér hefir þetta aldrei til hugar komið. — En sem sagt, þetta er allt ókannað mál, af því að það er ekki forsvaranlega undirbúið í héraði, og ég sé ekki, að um, hafi þess neinn kost að gera sér fyllilega grein fyrir því, hvernig málið horfir við í smærri atriðum og hvort ekki séu aðrar betri og heppilegri leiðir til þess að leysa það heldur en hér er ætlazt til.

Hv. frsm. viðurkenndi, að Engihlíðarhreppur yrði fyrir tekjumissi, og það er náttúrlega höfuðatriðið í málinu, að Blönduóshreppur vill ná í þær tekjur, sem Engihlíðarhreppur hefir af kaupfélaginu, en það er eign bænda út um alla sýslu, og ég geri ráð fyrir því, að það kjósi a. m. k. alveg eins vel, að tekjurnar af því renni til bænda eins og til kauptúnsins. Hv. frsm. færði það sem rök, að Engihlíðarhrepp munaði kannske ekki svo mikið um þetta, af því að hann væri nú vel stæður. Já, hreppurinn er vel stæður núna, af því að hann hefir haft tekjur af þessum kauptúnshluta, en það eru líkur til þess, að hann yrði verst stæður hreppanna í sýslunni, ef hans tekjur yrðu skertar svo mjög sem hér er gert ráð fyrir.

Hv. frsm. minntist á bæturnar, sem gert er ráð fyrir í 4. gr. frv. Ég mun áskilja mér rétt til þess að koma fram með brtt. við það ákvæði 4. gr. við 3. umr., ef hin rökst. dagskrá mín verður ekki samþ.

Þá var hv. frsm. enn að stagast á því, að ekki væri til neins að spyrja héraðsstj. eða hina réttu aðilja heima í héraði um þetta mál, þeir hefðu líklega minna vit á því heldur en þingið, sem ég hygg, að hafi mjög litla staðþekkingu yfirleitt á þessum stöðvum. Og að lokum sagði hann, að það væri langviturlegast, að Alþ. sjálft gerðist dómari í þessum efnum. En ég vil þá spyrja: Hvaða dómstóll er það, sem dæmir í máli án þess að hafa heyrt alla aðila? Og ég hefi fært rök að því, að hér hafa aðilarnir ekki verið heyrðir, og eins mikilsverður aðili eins og sýslunefnd hefir alls ekki átt kost á að láta sitt álit í ljós. Ég vil segja, að ef Alþ. ætlar að gera sig að slíkum dómstól, þá brjóti það allar réttarfarsreglur. Slíkt réttarfar og slíkt fyrirkomulag í dómi getur ekki átt sér stað undir þeim hugmyndum um réttarfar, sem menn almennt hafa gert sér hjá siðuðum þjóðum. Ég verð þess vegna að halda því fram, að eftir ræðu hv. frsm. sé það ennþá augljósara, að málið á ekki að afgr. á þessu þingi, heldur á því að vera vísað heim til forsvaranlegs undirbúnings.