09.12.1935
Efri deild: 90. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Páll Hermannsson:

Það er aldrei nema rétt, að þegar meta á þær bætur, sem Blönduóshreppur á að greiða til Engihlíðarhrepps, þá ber fyrst og fremst að líta á fortíðina, en að miða aðeins við síðustu 5 árin tel ég of þröngt. Þó ekki sé spáð fram í framtíðina, þegar meta skal þessar umræddu bætur, þá má þó líta á, hvernig útlitið er, hvort líkur séu til, að þarfirnar framundan muni verða svipaðar þörfum undanfarinna ára, og hafa það eitthvað til hliðsjónar. Annars verð ég að halda mig við það, sem ég þegar hefi tekið fram, að skynsamlegasta leiðin í þessu tilfelli sé sú, að láta dómkvadda menn meta bæturnar. Það verður réttlátast fyrir báða aðilja.

Þá vil ég að síðustu taka það fram, að ég hefði kosið, að frv. þetta hefði fengið betri undirbúning heima í héraði, áður en það var sent hingað til Alþingis. Þetta tel ég mig hafa sýnt með till. mínum. Hinsvegar skal ég taka það fram, að eftir þeim staðháttum, sem þarna eru fyrir hendi norðurfrá, þá mun aðeins lítið tímaspursmál, þar til Blönduóskauptún verður sameinað í eitt hreppsfélag, enda þótt það verði ekki í þetta sinn. Öll rök, sem færð hafa verið fram með frv., hafa sýnt það ljóslega, að allt bendir til þess, að Blönduóskauptún hljóti að eiga að vera eitt sveitarfélag.