09.12.1935
Efri deild: 90. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Bernharð Stefánsson:

Mér virðist óþarft, að mikið sé talað um þessa brtt., og þá ekki sízt fyrir mig sem get unað vel við þá lausn þessa máls, að því sé öllu komið fyrir kattarnef. Ég fæ ekki séð, að brtt. á þskj. 193 sé neitt til bóta fyrir frv., ef það á annað borð verður samþ., eða bæti rétt Engihlíðarhrepps frá því, sem frv. ætlast til. Annars mun ég ekki fara langt út í umr. um mál þetta nú, því að ég get að mestu leyti fallizt á það, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði í sambandi við það. En úr því ég annars stóð upp, vil ég nota tækifærið til þess að víkja nokkrum orðum að hv. 10. landsk. Hann sagði, að vitanlega lægju fyrir skýrir hreppsreikningar, sem hægt væri að byggja á útreikninga í þessu sambandi. Ég veit það vel, að fyrir liggja hreppsreikningar Engihlíðar- og Blönduóshreppa, en ég veit það líka vel, að sýslufundir eiga að úrskurða alla hreppsreikninga. Um þetta þarf hv. 10. landsk. því ekki að fræða mig. En ég hygg, að það standi ekki í reikningum Engihlíðarhrepps, hver hafi verið útgjöld hans fyrir þann hluta hreppsins, sem nú er talað um að leggja undir Blönduós. Ég býst við, að það gæti orðið flókið mál að ganga úr skugga um, hversu mikil þau hafa verið, a. m. k. hvað fátækraframfærsluna snertir, því oft er ekki hægt í fljótu bragði að vita um þurfamennina, þar sem í mörgum tilfellum þarf löng málaferli til þess að fá úrskurð um þá. Þetta þekki ég af langri reynslu í því að fást við sveitarstjórnarmál.

Þá sagði hv. 10. landsk., að það væri skylda sýslun. að úrskurða um þetta mál. Ég veit vel, eins og ég þegar hefi tekið fram, að sýslunefndin á að úrskurða hreppsreikningana, en ég held, að það standi hvergi í lögum, að hún eigi að úrskurða reikninga viðvíkjandi þessu máli. Mér virðist því einsætt, að verði brtt. samþ., þá geti það orðið til þess, að það geti dregizt lengi, að Engihlíðarhreppur fái nokkrar bætur, því alltaf má véfengja þær tölur, sem komið er með, ef enginn á að úrskurða. Ég held, að það sé misskilningur hjá hv. 1. þm. Skagf., að matsmenn eigi að kveða á um þessar umræddu bætur, enda þótt brtt. 703 verði samþ. Mér skilst nfl., að með samþ. hennar séu þeir úr sögunni. En samkv. henni liggur málið þannig fyrir, að Engihlíðarhreppur á að fá bætur eftir reikningum, sem enginn á að úrskurða.

Hvað mig snertir, lít ég svo á, að eigi á annað borð eitthvað að verða úr þessu, þá býst ég ekki við, að önnur sanngjarnari leið verði fundin en sú, sem frv. gerir ráð fyrir, að óvilhallir menn geri hér um. Ég tel till. því óþarfa og jafnvel skaðlega, eins og hún liggur fyrir. En ég bendi aðeins hv. flm. till. á það, hvort þeim sýnist þá ekki að gera till. þannig úr garði, að hún verði frambærileg.