09.12.1935
Efri deild: 90. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Ingvar Pálmason:

Af því að ég er meðflm. að þessari brtt. ásamt hv. 10. landsk. og af því að hv. andstæðingum þessarar brtt. hefir þótt svo mikið liggja við, að þeir eru þrír búnir að tala yfir hv. 10. landsk. dauðum, þykir mér rétt að segja nokkur orð. — Það hafa aðeins tveir af hv. andmælendum till. fært rök fyrir því, hvers vegna þeir eru á móti henni. En það vill svo hlálega til, að þeir eru þar sinn með hvoru móti. Hv. 1. þm. Eyf. er á móti till. af því, að hann telur, að sá grundvöllur, sem á að reikna skaðabæturnar eftir, sé ekki til, eða a. m. k. svo ógreinilegur, að það hljóti að valda ágreiningi. Hv. þm. vitnaði til þess, að hann væri búinn að fást við sveitarstjórnarmál í 20 ár og vissi þetta af reynslu. Það geta náttúrlega fleiri. sagt. Ég tel það ekkert sönnunargagn, þó að ég sé búinn að fást við þessi mál í 35 ár, og alllangan tíma af því oddviti. En það verð ég að segja, að ég tel, að þeir reikningar séu ekki í góðu lagi, sem ekki er hægt að fá greinilega út úr, hver fátækraframfærslan hefir verið í hreppnum og hverjir hafa þegið sveitarstyrk.

Hv. þm. taldi mest vandkvæði á að finna, hver fátækraframfærslan hefði verið í hverjum hreppshluta. En ég held áreiðanlega, að fyrir hverri slíkri greiðslu séu til ágætar sannanir. Ég get ekki séð, að það þurfi að valda neinum ágreiningi, auk þess sem hv. 10. landsk. benti á, að ef um slíkt væri að ræða, þá væri það eðlileg leið að fara með það til sýslunefndar, sem ber ábyrgð á samþykkt hreppsreikninganna, og láta hana skera úr. Sýslunefndin hefir á sínum tíma samþ. reikningana, og ef þar hafa verið einhver ágreiningsatriði, þá upplýsast þau auðvitað með því.

Hv. 1. þm. N.-M. var á móti þessari brtt. af því, að hann taldi, að reynsla síðustu 5 ára væri ekki nægilega sterkur grundvöllur til þess að byggja á. Það er satt, að ætti maður að byggja á einhverju föstu, byggir maður á því, sem liðið er. Það má vel vera, að það væri tryggari grundvöllur að hafa tímann t. d. 10 ár. En það raskar ekki því, að þegar á að meta skaðabæturnar, er eðlilegt, að það sen lagðar til grundvallar þær tekjur, sem hreppurinn hefir haft af þessum hreppshluta. En öðru máli gegnir, ef um er að ræða að skipta hreppsfélagi í tvennt. Þá þyrfti að skipta ýmsu, t. d. eignum og skuldum og öðru því líku. Þó gæti komið til álita, hvort ætti að meta eða ekki. En hér er ekki um það að ræða, heldur að Engihlíðarhreppur fái bættan þann fjárhagslega halla, sem hann verður fyrir vegna þess, að þessi hluti hreppsins er tekinn og lagður undir annan hrepp. Um það eru allir sammála, að Engihlíðarhreppur eigi að fá skaðabætur. Og ef ekki á að byggja skaðabæturnar á því, hverjar tekjur hreppurinn hefir haft af þessum hreppshluta síðustu 5 árin, þá veit ég ekki, á hverju á að byggja. Ég held, að mat, sem byggist á því, hverjar tekjur Engihlíðarhrepps verði eftir 10 eða 12 ár, geti ekki orðið réttlátt. Það getur verið, að einhver sé svo góður spámaður, að hann geti spáð því og það reynist rétt. En ég hefi aldrei nokkurntíma þekkt, að skaðabótakröfur væru byggðar á öðru en því, sem fyrir liggur. Ég held því, að ekki sé hægt með neinum rökum að mæla á móti því, að sá grundvöllur, sem þessi brtt. leggur um skaðabætur, er réttur. En hitt er annað mál, eins og hv. 1. þm. N.-M. kom inn á, að það getur alltaf verið álitamál, hvort tímalengdin, sem miðað er við, er sú rétta. En sé byggt á því, sem liðið er, er verið að byggja á staðreyndum, en ef á — eins og hér er komið fram — að byggja á því, sem mönnum dettur í hug, að kunni að eiga sér stað í framtíðinni, þá held ég, að málið fari að verða varhugavert. Menn verða að gæta að því, hvað það er, sem hér liggur fyrir. Það er ekkert annað en að þessi hreppur á að fá skaðabætur, og þær hljóta að miðast við það, hvers hann missir í. Ég held meira að segja, að það sé ekki viðeigandi og jafnvel varhugavert fyrir hæstv. Alþingi, ef það á annað borð ætlar að fyrirskipa þessi hreppsskipti, að fella till. okkar, því að hún er byggð á þeim eina grundvelli, sem skaðabæturnar geta byggzt á. Með því að fella þessa brtt. er þingið þar með búið að gefa væntanlegum matsmönnum, sem þá yrðu skipaðir, undir fótinn um, að ekki eigi að byggja á þessum grundvelli, heldur því, hvað þeir séu klókir að spá fram í framtíðina. En hitt er annað mál, að það mætti kannske bæta þessa till. okkar, því að hún er sjálfsagt ekki alfullkomin frekar en önnur mannanna verk. Finnst mér það þá vera verk þeirra manna, sem sjá ófullkomleika till., að bæta úr henni. Það er réttara heldur en að þeir krefjist þess, að við bætum okkar verk, sem við ekki könnumst við, að sé neitt sérlega ábótavant.

Annars sé ég ekki ástæðu til þess að vera að fjölyrða um þetta. Ég kunni betur við að láta sjá, að ég fylgi ekki till. aðeins til málamynda. Mér er það full alvara, að þar sé gengið svo frá þessu máli, að hreppurinn, sem með þessu er verið að breyta, sé ekki beittur neinu ofríki. Þegar tekinn er nokkur hluti af þessum hreppi, að honum nauðugum, og lagður undir annan hrepp, finnst mér sú skylda hvíla á hæstv. Alþingi að tryggja, að hann verði ekki fyrir neinu fjárhagslegu tjóni. Hinsvegar verð ég að segja það, að verði brtt. okkar felld, kemur ein ástæðan enn til þess að greiða atkv. á móti frv. Hún er sú, sem ég sagði áðan, að þá er Alþingi búið að sýna sinn vilja í því, að það vill ekki byggja á því, hverjar tekjur Engihlíðarhreppur hefir haft af þessum hreppshluta síðastl. 5 ár, heldur aðeins því, sem matsmennirnir telja rétt.