09.11.1935
Efri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

167. mál, Kreppulánasjóður

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Eins og mönnum er kunnugt og tekið er fram í grg. þessa frv., er lánveitingum úr kreppulánasjóði ekki lokið ennþá og verður að sjálfsögðu ekki lokið fyrr en um áramót, og ef til vill ekki einu sinni þá. Þess vegna verður það náttúrlega ekki að fullu séð, hve mikil upphæð fellur á ábyrgðarmenn lántakenda úr sjóðnum. En eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi nýlega fengið frá kreppulánasjóði, verður þessi upphæð eitthvað yfir 2 millj. kr., hvað mikið, veit ég ekki nákvæmlega. Mér hefir þó verið tjáð af einum bankastjóra Búnaðarbankans, að ekki sé ástæða til að gera ráð fyrir, að upphæðin fari fram úr 21/2 millj. kr. Það má því ganga út frá því sem gefnu, að hún verði einhversstaðar á milli 2 og 21/2 millj. króna, sem verður þá sú upphæð, sem ábyrgðarmenn lántakenda úr kreppulánasjóði eiga samkv. kreppulögunum að greiða. Nú er það vitanlegt, að hagur þessara ábyrgðarmanna er ákaflega misjafn. Sumir þeirra eru sjálfsagt efnaðir menn, en aðrir eru fátækir, og án efa eru mjög margir af þessum ábyrgðarmönnum lítið eða ekkert betur settir en þeir, sem sjálfir hafa fengið lán úr kreppulánasjóði, og svo eru sjálfsagt allmargir ábyrgðarmenn, sem sjálfir hafa fengið lán úr kreppulánasjóði, þar sem er ef til vill verið að afskrifa þeirra eigin skuldir, en jafnframt er það tekið fram í skuldaskilasamningnum, að ábyrgðir þeirra skuli óbreyttar standa. Ég veit mörg dæmi þess. Það er alveg vitað, að hagur margra þessara ábyrgðarmanna er ekki betri en það, að ef að þeim væri gengið með þessar upphæðir, þá mundu þeir komast í greiðsluþrot, þótt það sé langt frá því, að svo sé með þá alla. En eitt er áreiðanlega sameiginlegt með öllum ábyrgðarmönnum lántakenda í kreppulánasjóði, og það er það, að það er ósanngjarnt og ranglátt að ganga að þeim með þessar ábyrgðir, a. m. k. mjög hastarlega. Það er að vísu svo, að þegar maður gengur í ábyrgð fyrir annan mann, þá má hann alltaf búast við að þurfa að greiða upphæðina, sem hann hefir ábyrgzt. En hann hefir þó undir venjulegum kringumstæðum rétt og oftast möguleika til þess að gera kröfur sínar gildandi gagnvart þeim, sem hann gengur í ábyrgð fyrir, en hér er ekki því til að dreifa. Framkvæmd kreppulánveitinga er þannig háttað, að hin svokallaða afskrift er notuð, þ. e. a. s., að lántakandi er ekki lögum samkv. skyldur til þess að greiða meira en skuldaskilasamningurinn leggur honum á herðar að greiða, en afgangnum er kastað á ábyrgðarmennina, að svo miklu leyti sem ábyrgðarmenn eru fyrir skuldunum. M. ö. o., það er löggjafarvaldið sjálft, sem hefir ákveðið að afskrifa skuldir hjá einum til þess að kasta þeim svo yfir á annan. Margir benda líka á það í þessu efni, að ábyrgðarmenn lántakenda í kreppulánasjóði séu beittir misrétti, með því að þeir hafa yfrleitt ekki verið kvaddir til skuldaskilasamninga, eftir því sem mér hefir verið sagt. Það er náttúrlega svo, að heiðarlegir menn vilja ekki láta ábyrgðarmenn sína greiða fyrir sig skuldir, og sem betur fer er ekki ástæða til að ætla annað en að flestir lántakenda í kreppulánasjóði, og sennilega allir, séu heiðarlegir menn, sem taka sér nærri, að ábyrgðarmennirnir greiði skuldirnar. Það er líka vitanlegt, að mjög margir lántakendur í kreppulánasjóði reyna sjálfir að standa undir þeim skuldum, sem að nafninu til hafa fallið á ábyrgðarmenn þeirra. En einmitt við þetta verða þessar svokölluðu eftirgjafir í kreppulánasjóði þýðingarlitlar, eða jafnvel þýðingarlausar. Það má því segja, að þrátt fyrir kreppulán og skuldaskilasamninga, sem fram hafa farið í kreppulánasjóði, er hin endanlega skuldauppgerð bænda ekki farin fram ennþá.

Það þarf ekki að minna á, að haustþingið í fyrra viðurkenndi fyllilega, að hér væri þörf á lagfæringu. Á því þingi voru samþ. lög um að veita 1/4 millj. kr. af reiðufé kreppulánasjóðs til þess að greiða hluta af þessum ábyrgðakröfum, gegn því, að ábyrgðarkröfurnar urðu látnar niður falla, eftir því sem um semdist. Lögin eru að vísu viðurkenning þess, að löggjafarvaldið geti ekki gengið svo frá þessum málum eins og til stóð samkv. kreppulánasjóðslögunum. En við þetta er það að athuga, að þessi lög síðan í fyrra gera ráð fyrir svo lítilli upphæð, að hætta er á því, að hún komi ekki að neinu verulegu gagni. Ég man eftir því, að það var viðurkennt af aðalflm. þessa frv. í fyrra, að upphæðin væri lág, og hann viðurkenndi, að það yrði að skoða þessa upphæð frekar sem viðurkenningu á því, að gera yrði tilraun til þess að veita einhvern stuðning, í þeirri von, að eftirgjafir fengjust frá kröfuhöfum aftur á móti. Það bæri frekar að skoða þessa upphæð þannig heldur en að það muni svo mikið um upphæðina í sjálfu sér, Enda sýnist upphæðin ekki muni verða nema um 10% af ábyrgðarkröfunum. En nú er á það að líta, að lánsstofnanir og aðrir kröfuhafar hafa ekki neina skyldu til þess að gefa eftir á móti þessu, og þar sem svo lítið munar um framlagið, þá teljum við flm. þessa frv. mjög mikla hættu á því, að lánsstofnanir og aðrir kröfuhafar fáist ekki til þess að gefa eftir af kröfunum gegn svo litlu framlagi, að um það muni nokkuð verulega. Í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er því lagt til, að þrefölduð sé upphæð sú, sem ætlazt er til, að varið verði í þessu skyni. En nú vitum við allir, hvernig fjárhagshorfurnar eru, og þess vegna sáum við okkur ekki fært að leggja til, að þessi viðbót, sem við viljum fá í þessu augnamiði, yrði lögð fram úr ríkissjóði í peningum. Heldur leggjum við til, að hún verði veitt í kreppubréfum, 1/2 millj. kr. að upphæð, sem fyrirsjáanlegt er, að verður afgangs, þegar lánveitingum verður lokið. Okkur er það vel ljóst, að samningar um endanlega uppgerð á skuldunum munu ekki ganga eins greiðlega með þessu móti eins og ef um peningagreiðslu væri að ræða, en þó er mesti munur á því að fá upphæðina þrefaldaða, þótt 2/3 hlutar af henni séu í kreppulánasjóðsbréfum. Það má t. d. gera ráð fyrir, að kröfuhafi verði fúsari til samninga, sem fær 300 kr., enda þótt 200 kr. af þeim séu í kreppusjóðsbréfum, heldur en ef hann fengi aðeins 100 kr. Okkur var það vitanlega ljóst, að það kemur einhverntíma að því, að ríkissjóður þurfi að innleysa þessi verðbréf, en það er nú einu sinni svo, að manni sýnist það alltaf léttara, sem skjóta má á frest og dreifa yfir á mörg ár. Það má skoða þessa 1/2 millj. kr., sem ríkið leggur fram til viðbótar, sem lánsfé með mjög hagkvæmum kjörum. Upphæðina verður ríkið að greiða á næstu 40 árum, og svo vitanlega vexti af verðbréfunum.

Þá er nýmæli í þessu frv. um það, að skilyrði fyrir framlagi úr kreppulánasjóði sé það, að kröfuhafi gefi a. m. k. jafnháa upphæð eftir eins og framlagið nemur. Þetta teljum við nauðsynlegt ákvæði til þess að hvetja kröfuhafa til eftirgjafa og líka til þess að benda á leið til þess að haga skiptingunni eftir yfirleitt. Ég veit um marga kröfuhafa, sem hafa að vísu hugsað sér að gera sitt til að framlög fengjust upp í kröfur þeirra, en hafa jafnframt hugsað sér að gefa annaðhvort ekkert eftir sjálfir eða sem allra minnst. Ef þetta frv. verður að lögum, þá yrði sú upphæð, sem varið verður í þessu skyni, 750 þús. kr., eða sem næst, eftir því sem ætla má, 1/3 af þeim kröfum, sem hvíla á ábyrgðarmönnunum. Ég hugsa að heppilegt yrði, þegar hin endanlega uppgerð fer fram, að það yrði aðalreglan að skipta ábyrgðarkröfunum í þrjár jafnar upphæðir, þar sem ein greiddist með framlagi því, sem frv. gerir ráð fyrir, önnur yrði eftirgefin af lánsstofnunum eða kröfuhöfum, og hin þriðja greidd af ábyrgðarmönnunum. Náttúrlega yrði að víkja frá þessari reglu til beggja handa, eftir efnahag þeirra, sem ábyrgðirnar hvíldu á, og öðrum ástæðum. Þannig yrðu þessi þriðjungsskipti aðeins aðalregla, og ég er viss um, eftir því sem ég þekki hugi landsmanna í þessu efni, að þetta þykir sanngjörn skipting, að ábyrgðarkröfurnar komi nokkurnveginn jafnt á alla þessa aðilja.

Menn gerðu sér í upphafi miklar vonir um árangur af kreppulánasjóðslöggjöfinni, og skal ég ekki hafa á móti því, að lánveitingar kreppulánasjóðs hafi gert gagn, en hitt er samt víst, að sá tilgangur, sem gert var ráð fyrir, næst ekki nema þetta frv. verði samþ. Því tilgangurinn með stofnun kreppulánasjóðs var sá, að koma öllum lausum skuldum þeirra bænda, er kreppulán fengju, í sæmilegt horf, en eins og ég vék að áðan, þá líta menn á það almennt sem drengskaparskyldu að láta ábyrgðarmennina ekki þurfa að borga ábyrgðirnar, og þurfa bændur þá eftir sem áður að borga þær svokölluðu eftirgefnu skuldir. Hefir þá ekki annað unnizt með kreppulánunum en að koma nokkrum hluta skuldanna í föst lán með góðum kjörum, hinn hlutinn situr í sama öngþveitinu.

Við flm. álítum, að með þessu frv. sé bent á einu leiðina, sem fær er til þess að fá sæmilegan árangur af kreppulánasjóðslögunum. Það kann að vera, að sumum þyki hér farið fram á nokkuð mikið, þar sem við hér viljum bæta við hálfri millj. kr., sem ekki verði afturkræf, jafnvel þó í kreppubréfum sé, en ég vil benda á það, að þegar allt kemur til alls, þá er ekki víst, að þetta verði meiri skaði fyrir ríkissjóð heldur en að láta þetta vandamál vera óleyst. Ríkissjóður ber ábyrgð á fjárreiðum kreppulánasjóðs, og ef ekkert verður að gert frekar en orðið er, þá er það áreiðanlegt, að mjög margir lántakendur í kreppulánasjóði reyna til hins ýtrasta að greiða það, sem á ábyrgðarmennina hefir fallið, en við það minnkar geta þeirra til þess að greiða í kreppulánasjóð vexti og afborganir. Þá gæti farið svo, að sjóðnum töpuðust greiðslur, sem ekki hefði orðið, ef svo yrði séð um, að bændur losnuðu við ábyrgðarkröfurnar á tiltölulega auðveldan hátt, eins og upphaflega var í raun og veru ætlazt til, að yrði með kreppulánunum. En þá verður kreppulánasjóður tryggari en hann er, þegar fram í sækir.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. að þessu sinni. Óska ég, að frv. verði vísað til landbn. að lokinni þessari umr.