09.11.1935
Efri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

167. mál, Kreppulánasjóður

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Þetta frv. fer sjálfsagt til landbn. að lokinni þessari umr. Gæti ég því kannske sparað mér langar umr. um það að þessu sinni. — Hér er stungið upp á viðbót við það framlag, sem samþ. var 1934 í þessu skyni, að styrkja þá ábyrgðarmenn, sem illa hafa orðið úti vegna skuldaskila við kreppulánasjóð. Í fyrra var samþ. að leggja fram úr ríkissjóði 1/4 millj. kr. í þessu augnamiði, og nú á að bæta við 500 þús. kr., og verður þetta þá samtals 3/4 millj. kr. Ég ætla aðeins að benda á það í þessu sambandi, að margar stéttir manna eru nú aðþrengdar á landi hér, og t. d. er nú verið að byrja á skuldaskilum fyrir sjávarútveginn. Ég ímynda mér, að skuldir í þeim atvinnurekstri séu öllu stórfengilegri en hjá bændum vegna þess að sjávarútvegurinn er öllu stórfelldari rekstur. Það má því búast við, ef farið verður að veita fé til þess að borga ábyrgðarkröfur af skuldum bænda, að samskonar kröfur komi frá sjávarútveginum, og ég sé sannast að segja ekki, hvernig slíkum kröfum yrði neitað eftir að búið væri að fullnægja samskonar kröfum einnar stéttar. Þá er annað, sem talað hefir verið um af mörgum, bæði þm. og öðrum, á hvern hátt hægt væri að styrkja ýms bæjar- og sveitarfélög, sem sokkin eru í skuldir, og það hefir verið talað um að verja til þess afgangi af fé kreppulánasjóðs.

En svo er þessi lína í frv., sem er alveg ný og ekki var til í kreppulánasjóðslögunum, að hér er ætlazt til, að ríkissjóður gefi þetta fé. Ríkissjóður hefir að vísu áður lagt fram fé til vaxtagreiðslu af landbúnaðarlánum, en hér er beinlínís gefið fé úr ríkissjóði til þess að innleysa þessa 1/2 millj. kr, í kreppubréfum. Kreppulánasjóðslögin gera ráð fyrir því, að kreppulánin verði greidd aftur, þó búast megi við, að það verði ekki að öllu leyti, en það er þó formið. Í frv. er ekki gert ráð fyrir endurgreiðslu, enda segir í grg. frv. „Það mundi að sjálfsögðu koma á ríkissjóð á sínum tíma að innleysa þá 1/2 millj. kr., sem frv. gerir ráð fyrir, að lögð verði fram í kreppubréfum, en þar sem útgjöld af því dreifðust niður á 40 ár, virðist það ekki mjög tilfinnanleg byrði fyrir ríkissjóð“.

Það er aðallega þrennt, sem ég tel athugavert í sambandi við þetta frv. Í fyrsta lagi það, að hér er gert ráð fyrir styrk, en ekki láni, eins og reglan er í kreppulánasjóði. Í öðru lagi mun þetta frv. draga dilk á eftir sér, ef samþ. verður og í þriðja lagi er sú spurning, hvort ekki væri hægt að verja fé þessu, afgangi kreppulánasjóðs, til meira gagns á annan hátt, þ. e. a. s. með því að styrkja bæjar- og sveitarfélög til þess að koma skuldum sínum á fastari grundvöll. Þetta fannst mér sjálfsagt að taka til athugunar um leið og frv. er vísað til n.