09.11.1935
Efri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (2212)

167. mál, Kreppulánasjóður

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Það verður að sjálfsögðu nægur tími fyrir okkur hv. 4. landsk. að ræða þetta mál í landbn., og síðan aftur við 2. umr., ef n. skyldi klofna um frv., en ég vildi þó minnast á tvö atriði í ræðu hans. Hið fyrra er það, að hann taldi ástæðu til að athuga, hvort ekki væri hægt að verja afgangi kreppulánasjóðs betur á annan hátt. (JBald: Til þess, sem væri enn þarfara). Já, til þess, er þarfara væri, og hv. þm. nefndi skuldir bæjarfélaga. Í fyrsta lagi fer ekki allur afgangur kreppulánasjóðs til þessa. Það verður víst um millj. eftir af kreppubréfum í kreppulánasjóði, — eða er það ekki? (PM: Það er á aðra milljón). Jæja, það verður þá allmikið eftir, en ég vil sérstaklega benda á það, að þegar kreppulánasjóður var stofnaður, þá var hann upphaflega aðeins ætlaður til þess að gera upp skuldir bænda. Það var að vísu ætlazt til, að fé hans væri lánað, en ekki gefið, en þá er á hitt að líta, sem ég benti á, hvernig ábyrgðarkröfur þessar eru tilkomnar, að þeim er hér slengt á óviðkomandi menn. Ef ég tek kreppulán og hv. 4. landsk. hefir verið ábyrgðarmaður minn, þá losna ég við að borga hluta af skuld minni, en ábyrgðarmaðurinn verður að greiða hana. Mér finnst það sanngirniskrafa, að löggjafarvaldið geri eitthvað til að jafna þennan órétt. (JBald: Þetta eru ekki óviðkomandi menn). Að vissu leyti ekki, en þó svo, að þessir ábyrgðarmenn hefðu kannske aldrei þurft að greiða neitt, ef gengið hefði verið að skuldunaut á þeim tíma, er hann komst undir vernd kreppulánasjóðslaganna, því eins og kunnugt er, voru kreppulánin ekki veitt út á allar eignir manna, heldur var útstrikað af skuldunum þangað til þær voru orðnar í hæsta lagi 10% af eignunum. Það var þetta, sem ég vildi undirstrika, að samkv. 15. gr. kreppulánasjóðslaganna er heimild til þess á þennan hátt að skattleggja óviðkomandi menn (þ. e. ábyrgðarmennina) með því að segja: Þú verður að greiða það, sem ég gef þessum manni eftir, enda þótt hann e. t. v. gæti greitt það sjálfur. — Þetta er það, sem á að leiðrétta með frv.