19.11.1935
Efri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

167. mál, Kreppulánasjóður

Pétur Magnússon:

Hv. frsm. lagði aðaláherzluna á að sýna fram á það, hversu óskynsamlegt það væri, ef farið væri í stórum stíl að ganga að ábyrgðarmönnum fyrir þá menn, sem tekið hefðu lán úr kreppulánasjóði, því afleiðingin yrði sú, að þeir, sem hefðu haft betri aðstöðu á undanförnum árum, yrðu dregnir niður og gerðir e. f. v. gjaldþrota. Ég get náttúrlega tekið undir það, sem hv. þm. segir um þetta atriði, en það, sem ég vildi vekja athygli á, er það, eins og raunar hv. þm. drap stuttlega á, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, skiptir ekki einvörðungu ábyrgðarmennina, heldur og e. t. v. engu síður þá menn, sem kreppulán hafa fengið. Hv. frsm. benti réttilega á það, að allur þorri manna er — sem betur fer — þannig hugsandi, að þeir vilja í lengstu lög standa undir skuldbindingum sínum og forðast að láta ganga að ábyrgðarmönnum sínum. Það hefir þegar komið í ljós í allstórum stíl, að menn, sem fengið hafa kreppulán og afföll að meira eða minna leyti við skuldaskil — en á þeim hafa hvílt skuldir, sem tryggðar hafa verið með ábyrgð — hafa, eftir að búið var að ganga frá kreppulánum þeirra, tekið á sig hinar niðurfelldu skuldir að nýju, að meira eða minna leyti. Það lætur líklega nærri, að helmingur af þeim skuldum, sem niður hafa verið felldar, séu ábyrgðarskuldir. Ef það yrði nú hin almenna regla, að þessir menn, sem fengið hefðu niðurfelldar skuldir, tækju þær á sig að nýju, þá má af því sjá, að þessi niðurfelling skulda yrði að talsvert miklu leyti aðeins pappírsgagn. Það heitir svo, að skuldir séu felldar niður, en þær falla ekki niður nema í nokkra daga, því skuldunautarnir taka þær að sér aftur. Og þá liggur það vitanlega í augum uppi, að þessir hinir sömu menn eru litlu betur færir til þess að standa undir skuldbindingum sínum eftir að þeir hafa fengið kreppulán heldur en þeir voru áður. Einasta hjálpin liggur í því, að þeir eru búnir að fá einhvern hluta af skuldum sínum undir hagstæð og góð lánskjör. Nú held ég, að það hafi verið samróma álit manna, þegar stofnað var til þessarar kreppuhjálpar, að það bæri að keppa að því að koma sem flestum bændum, sem nota vildu þessa aðstoð, á fjárhagslega réttan kjöl. Og vitanlega er það, að ef þessi kreppuhjálp á að koma að nokkru gagni, þá verður þessu skilyrði að vera fullnægt. Það er a. m. k. víst, að eins og aðstaða landbúnaðarins er nú í landinu, þá mun bændum veitast fullerfitt að standa skil á skuldbindingum sínum, þó skuldir þeirra fari ekki fram úr eignum. Og ef svo ógiftusamlega tækist til, að landbúnaðurinn hlæði á sig aftur meiri skuldbindingum heldur en hann er fær um að standa undir, þá er allt komið í sama farið, og kreppuhjálpin yrði þá aðeins baggi á ríkissjóði, en ekki þeim atvinnuvegi, sem hún var ætluð til styrktar, að neinu verulegu gagni. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, — eins og reyndar kom fram í afstöðu minni til þessa máls á síðasta þingi, þegar ég bar fram frv. um að velta 250 þús. kr. í þessu sama skyni, sem um ræðir í þessu frv. —, að þetta sé fullkomið nauðsynjamál, ef hin upprunalega kreppulöggjöf á að geta náð því marki, sem til var ætlazt. Það verður náttúrlega að játast, að þegar verið var að ræða þetta mál á þinginu í fyrra, þá var gengið út frá því, að ábyrgðarskuldirnar yrðu ekki nærri eins miklar eins og raun varð á, og stafar það bæði af hinu lauslega yfirliti, sem þá var gert, og svo ekki síður af hinu, að nú á þessu ári hefir bætzt við mikið af nýjum lánbeiðnum, þar sem meiri hluti skuldanna eru ábyrgðarskuldir. Það er þess vegna sýnilegt, að sú fjárveiting, sem veitt var á síðasta þingi, var ófullnægjandi til þess að hægt væri að ná viðunandi samningum um þessar ábyrgðarskuldir, og ég tel þess vegna, að nauðsynlegt sé að veita heimildina til þeirrar viðbótar, sem hér er farið fram á.

Ég skal ekki neita því hjá hv. 4. landsk., að ástæða sé til að hlaupa undir bagga með bæjarfélögunum og reyna að aðstoða þau með að koma skuldum sínum betur fyrir heldur en raun er á. En þar er fyrst og fremst þess að gæta, að þó þessar 500 þús. kr. í skuldabréfum, sem hér er farið fram á í þessu frv., yrðu veittar til hinnar almennu kreppuhjálpar, þá mun þó nokkur fúlga verða eftir samt sem áður, sem ég ætla, að gæti orðið að þó nokkru gagni fyrir bæjarfélögin, ef henni væri ráðstafað á þann hátt, sem hv. 4. landsk. var að ráðgera. Og svo er vitanlega hitt líka, að ef eftir vandlega íhugun yrði talið nauðsynlegt að leggja út á þá braut að hjálpa bæjarfélögunum á svipaðan hátt og landbúnaðinum, þá er ekki loku fyrir það skotið, að það mætti hækka eitthvað þá fjárhæð, sem heimilt væri að gefa út í kreppubréfum. Það má náttúrlega með réttu segja, að þetta sé orðin mikil fúlga, og enginn efast um, að þetta verði tilfinnanlegur baggi fyrir ríkissjóð á næstu árum, því það er öllum ljóst, að mikið af þessum lánum hlýtur að tapast, því tryggingarnar eru þannig, að ekki getur hjá því farið, svo framarlega sem ekki verða því meiri breytingar á möguleikunum til þess að reka landbúnaðinn með hagnaði, og af þeirri ástæðu er kannske varhugavert að hækka heimildina til þess að gefa út kreppubréf. En e. t. v. má líta svo á, að þau lán, sem veitt eru bæjarfélögum, væru í minni hættu heldur en hin almennu kreppulán, því gera má ráð fyrir því, að þau verði að setja hinar beztu tryggingar, sem þau hafa að bjóða, og þó að sum þeirra séu þannig stæð, að þau hafi ekki neinar sæmilegar tryggingar, þá má ætla, að meiri hlutinn af þeim lánum kæmi inn aftur. En eins og hv. frsm. gat um, þá. er í raun og veru ekkert samband milli þessarar umtöluðu hjálpar til bæjarfélaganna og hinnar upprunalegu kreppuhjálpar. Sú fjárveiting, sem um er að ræða í þessu frv., er fram komin í beinu áframhaldi af hinni upprunalegu kreppulöggjöf, til þess að hún geti komið að fullu gagni. Hitt er í raun og veru nýtt og óskylt mál, hvort á að veita bæjarfélögum samskonar fríðindi.

Að þessu öllu athuguðu fyndist mér, að d. ætti ekki að vera í mjög miklum vafa um það, hvort afgr. skuli þetta frv. eða ekki, jafnvel þó menn líti svo á, að nauðsyn beri til þess að veita bæjarfélögunum svipaða aðstoð eins og landbúnaðinum hefir verið veitt með kreppulöggjöfinni.