19.11.1935
Efri deild: 73. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (2220)

167. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Það er rétt hjá hv. 4. landsk., að rök geta verið jafngóð, þó að þau hafi heyrzt áður. Enda þegar ég nefndi það áðan sem komið hefði fram hjá hv. þm. við 1. umr., þá sagði ég það ekki í þeim tilgangi að gera lítið úr því, sem hann sagði, heldur af því ég svaraði því við 1. umr. og ætlaði því ekki að fara mikið út í að svara því aftur.

það er annars undarlegt, þegar hv. þm. bendir á, að taka ætti hlut af kreppulánasjóði til að koma lagi á bæjarfélögin, að hann skyldi þá ekki nefna sveitarfélögin líka, sem eru einnig illa stödd, a. m. k. mörg þeirra, og þegar talað er um ástandið til sjávarins, þá má benda á það, að smá kauptún eru engu síður illa stödd en bæjarfélögin.

Það stendur enn óhaggað, sem ég hefi sagt um það, hver sé tilgangur kreppulánasjóðs, það er sá, að hægt væri að gera skuldir bænda upp á sæmilegan hátt. því er það undarleg kenning, að rétt væri að taka mikinn hluta af sjóðnum og nota hann í öðrum tilgangi, meðan upprunalega tilganginum er ekki náð. En bæði ég og aðrir þm. hafa sýnt hér fram á, að tilganginum er ekki náð, þó að kreppulánin sjálf séu greidd, ef engu skipulagi er komið á þær kröfur, sem falla á ábyrgðarmennina.

Hv. 4. landsk. sagði, að miklar fjárhæðir hefðu verið látnar falla niður af skuldum bænda. En þetta er meira að nafninu til en raunverulega. Nokkrar verzlunarskuldir hafa fallið niður, en allar skuldir, sem ábyrgð er fyrir, hafa ekki verið látnar falla niður nema að nafninu. Það er fallið frá kröfunum á lántakanda, en þær koma yfir á ábyrgðarmanninn.

Þar sem hv. þm. bar saman kreppulánasjóð og skuldaskilasjóð útgerðarmanna, þá er þar um tvenns konar fyrirkomulag að ræða. Ég veit ekki nema hægt hefði verið að koma skuldamálum bænda eins vel fyrir með 11/2 milljón, ef sú upphæð hefði verið notuð eingöngu til afskrifta, eins og gert er í skuldaskilasjóði.

Þá hélt hv. 4. landsk. því fram, að hér væri tekin upp ný stefna með frv. Áður hefði verið talað um að hjálpa bændum með lánum, hér væri farið fram á að gefa. En eins og hv. 1. þm. Skagf. benti á, þá er þessi stefna ekki hafin með þessu frv., heldur með frv. í fyrra, sem ég hygg, að hv. 4. landsk. hafi sjálfur greitt atkv. með. Og út af þessu vil ég endurtaka, sem ég hefi nefnt áður: Hverjum á hér að gefa? Ábyrgðarmönnunum, ef um gjöf er að ræða. Ábyrgðarmönnunum, sem löggjöfin sjálf hefir tekið af peningana og séð svo um, að þeir eigi ekki kost á að innheimta þá aftur. Það má því eins segja, að þjóðfélagið geri með þessu ráðstafanir til að skila aftur nokkrum hluta af ráni. Ég skoða þetta því ekkert annað en afleiðingar af þeim ráðstöfunum, sem búið er þegar að gera.

Svo held ég það sé ekki öllu fleira, sem ég hefi ástæðu til að taka fram, en ég vil bara minnast á það, sem kom síðast fram í ræðu hv. 4. landsk., að hann var hræddur við ákvæði 3. gr., að þau næði jafnt til krafna, sem orðnar eru til fyrir gildistöku laganna, og þeirra, sem síðar verða til. Hann skildi ákvæði greinarinnar svo, að það ætti að ná til allra krafna, sem einhverntíma í framtíðinni yrðu til á þessa menn. Hv. 1. þm. Skagf. hefir svarað þessu og sýnt fram á, að 1. gr. tekur af öll tvímæli í þessu efni. Það er aðeins átt við ábyrgðarmenn lántakanda úr kreppulánasjóði, og samkv. lögum kreppulánasjóðs á lánum að vera lokið um næstu áramót, og getur því ekki komið til neitt síðar. Það kynni að vera, þar eð svo stutt er til áramóta, að þá megi nema þetta ákvæði burt, en það var að yfirlögðu ráði, að við flm. höfðum það í frv., því að við bjuggumst við, að það yrði ef til vill nauðsynlegt að framlengja frestinn eitthvað fram á næsta ár. Ef þessi löggjöf er sett, þá verður hún að ná jafnt til allra ábyrgðarmanna lántakenda úr kreppulánasjóði, eins þeirra, sem aðeins eiga eftir að fá lánin, og hinna, sem búnir eru. Þeir eru jafnréttlausir. Þeir verða ekki kallaðir á skuldaskilafundi fremur en ábyrgðarmenn þeirra, sem búnir eru að taka lánin, fá ekkert að segja um það, hvernig skuldum þeirra er ráðstafað.

Ég held því, að það sé hættulaust að láta ákvæðið standa í frv. Hinsvegar getur verið, að það geri ekkert til, þó að ákvæðinu sé breytt, að sett sé tímatakmark um það. Og sé það meiningin, að kreppulánum sé lokið um næstu áramót, þá mætti í staðinn setja inn í greinina, að ákvæði laganna næði til þeirra krafa, sem til eru orðnar 1. jan. 1936, ef það þætti öruggara. Ef kreppulánunum yrði lokið þá, væri þessi breyting skaðlaus, en hún er gagnslaus, en til samkomulags mætti ganga inn á hana.