09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (2239)

167. mál, Kreppulánasjóður

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Mér finnst kenna misskilnings í tveim atriðum hjá hv. þm. Hafnf., sem ég vildi gjarnan leiðrétta, án þess þó að blanda mér að öðru leyti í þessar umr.

Það er í fyrsta lagi það, að hv. þm. gáir ekki að því, að ábyrgðarmenn fyrir þá menn, sem fengið hafa lán úr kreppulánasjóði, hafa verið alveg óvitandi og engu ráðandi um það, hvað gert yrði við þessa menn. En þeirra atkv. hefir komið til, sem gefið hafa mönnum eftir af skuldum. Það er gert með þeirra samþykki, en aftur er ábyrgðin færð á hina án þeirra vitundar. Þetta er sá stóri eðlismunur, sem mér virðist hv. þm. ekki hafa gert sér ljósan.

Annað atriði er það, að það er ekki meiningin með frv., að það eigi að kaupa ábyrgðir af öllum mönnum. Það stendur beint í frv.: „til greiðslu hluta af þeim kröfum“ o. s. frv. Vitanlega er það ekki meiningin að kaupa ábyrgðir af þeim mönnum, sem eru ágætlega borgunarfærir, heldur er það meiningin að kaupa ábyrgðir af þeim, sem sjáanlega verða ósjálfbjarga menn, ef þeir „borga“ ábyrgðirnar. (EmJ:, Hver segir það?). Því er yfir lýst af hv. 2. þm. Rang., sem flutti frv. í hv. Ed. um 250 þús. kr., sem þetta er aftur brtt. við. Hann lýsti því mjög greinilega, hvernig þetta yrði framkvæmt, og hugsaði hann sér ábyrgðarmennina flokkaða eftir því, hvað mikla getu þeir hefðu til þess að standa undir ábyrgðunum. Sumir yrðu að standa alveg undir sínum skuldbindingum, aðrir að einhverju leyti, en svo mundu sumir alveg sleppa, allt verða greitt fyrir þá.

Það er þetta tvennt, sem mér finnst hv. þm. Hafnf. byggja á misskilningi, annarsvegar það, að það er ekki meiningin að kaupa ábyrgðir af öllum mönnum, heldur aðeins þeim, sem þurfa þess, og hinsvegar það, að ábyrgðarmennirnir sjálfir hafa engu ráðið um það, hvort ábyrgðirnar lentu á þeim, en þeir, sem hafa gefið eftir af skuldum, hafa ráðið því sjálfir, hvað mikið þeir gæfu eftir. — Að öðru leyti ætla ég ekki að blanda mér inn í þetta mál.