09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1379 í B-deild Alþingistíðinda. (2240)

167. mál, Kreppulánasjóður

Frsm. (Jón Pálmason):

Hv. þm. Hafnf. vek að því aftur nú, að verið væri að gera upp á milli manna, annarsvegar þeirra, sem kröfur ættu á kreppulántakanda og hinsvegar þeirra, sem væru ábyrgðarmenn. Hv. síðasti ræðumaður hefir nú sýnt fram á, hve mikill eðlismunur er milli þessara tveggja aðila. Aðrir hafa átt þess fullkominn kost, a. m. k. í flestum tilfellum, að segja um það, hvort þeir vildu fella niður af kröfum sínum eða ekki, en ábyrgðarmennirnir hafa ekki haft neitt vald á því, heldur hafa bankarnir og sparisjóðir þar ráðið öllu um.

Þá var hv. þm. Hafnf. að tala um það sem annmarka á þessu frv., að ekki væri gerður neinn greinarmunur á því, hvort hér ættu bændur eða aðrir í hlut. Þar til er því að svara, að í langflestum tilfellum eru þessir ábyrgðarmenn bændur. Til hins eru að sjálfsögðu nokkur dæmi, að þarna eigi hlut að máli menn búsettir í kauptúnum, en ég verð að telja það á kaflega undarlegt, ef það á að vera annmarki á þessu frv., að þá menn megi einnig styrkja.

Hv. þm. Hafnf. sagði ennfremur, að það mætti án efa finna marga fleiri og jafnvel stærri annmarka á þessari löggjöf og framkvæmd hennar. Ég skal ekkert fara út í það, en aðeins taka það fram, að ég efast ekki um, að margir annmarkar séu á þessari löggjöf, og um framkvæmd hennar skal ég ekkert segja hér, en ég tel, að með þessu frv. sé þó áreiðanlega létt af að nokkru leyti þeim annmörkum, sem einna tilfinnanlegastir og óeðlilegastir eru og flestum mun í upphafi hafa verið ljóst, að hlytu að koma fram.

Þá var hv. þm. Hafnf. að drepa á þessa sendinefnd bænda, sem kom um daginn til landbn. Alþ. Og það er vissulega ekki að ófyrirsynju, að það er sett í samband við þetta frv., sem hér liggur fyrir, því hljóðið í þeim mönnum var ekki þannig, að neitt til þrautar væri leyst úr vandræðum bænda með þessari kreppulánalöggjöf. því það er auðsær hlutur, að þó látin væri fara fram þessi uppgjör, þá var þess ekki þar með að vænta, að heildarlausn væri komin á þau vandamál, sem nú eru alvarlegust í okkar þjóðfélagi, sem sé að framleiðslan ber sig ekki, vegna þess m. a., hvað háar kröfur eru gerðar til hennar með öll útgjöld. Og meðan svo er, að framleiðslan ber sig ekki, þá duga í raun og veru ekki til fulls neinar ráðstafanir, sem ganga í þá átt, sem hér er um að ræða, a. m. k. ekki þannig, að nein fullnægjandi lausn fáist, þó þær geti verið til mikils léttis. Annars mætti hv. þm. Hafnf. muna það, að ein höfuðkrafa þessara manna úr sendinefndinni var einmitt sú, að þetta ábyrgðarspursmál yrði leyst, og það á nokkuð líkan veg og þetta frv. fer fram á.

Í þessu sambandi má einnig víkja að því, sem er eitt af höfuðspursmálunum, og það er það, að hjá a. m. k. þeim, sem eru drenglundaðir í viðskiptum sínum, verða afföll í raun og sannleika ekki nema á pappírnum. Menn stritast við að borga þessar kröfur, jafnvel frekar en aðrar, af því að þeir vilja ekki undir neinum kringumstæðum láta þær skella á mönnum, sem þeim hafa treyst, og af þeim sökum getur aftur þannig farið, að þeir láti heldur afborganir og vexti til kreppulánasjóðs sjálfs sitja á hakanum. —Það er þetta og annað slíkt, sem þessu frv. er ætlað að koma í veg fyrir að meira eða minna leyti.

Þá vildi ég víkja örlítið að því, sem hv. þm. Hafnf. sagði seint í ræðu sinni, sem sé það, að sér dytti í hug, að með þessu væri óbeinlínis verið að gefa undir fótinn með það, að ríkið tæki nú á sig allar þessar skuldir, sem stofnað hefði verið til í kreppulánasjóði. Þetta er nú getsök ein, sem ég hlýt að svara á þá leið, sem beinast liggur við, að það er svo fjarri því, að verið sé að gefa undir fótinn með þetta, að samþykkt þessa frv. miðar einmitt að því að koma í veg fyrir það, að þessar skuldir falli á ríkið á komandi tímum. Hér snýr því hv. þm., að mínum dómi, alveg við réttum rökum, því með því að gera upp ábyrgðir, eru meiri líkur til þess, að menn geti staðið í skilum með afborganir og vexti í kreppulánasjóð.