09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1381 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

167. mál, Kreppulánasjóður

Pétur Ottesen:

Sú afstaða, sem hv. sósíalistar hafa tekið í þessu máli, er gott dæmi upp á það, hvað það er af miklum heilindum mælt hjá framsóknarmönnum, að þeim sé nauðsynlegt að hafa samband við sósíalista til þess að koma fram hagsmunamálum bænda. Nei, þeir halda þessu fram úti um sveitir landsins aðeins til þess að reyna að breiða yfir þá óhæfu, sem þeir framkvæma í mörgum tilfellum hér á þingi í sambandi við sósíalista, að því er framtíð og afkomumöguleika sveitanna snertir. Það er því gott að fá svona skýrt dæmi upp á þessa hræsni og yfirdrepsskap af vörum sósíalistanna sjálfra. Ég minnist þess, að þegar kreppulánalöggjöfin var hér á ferðinni í þinginu, þá var þessi flokkur mjög tregur til fylgis við þetta mál, þó að hann snerist ekki beint gegn því, enda hefði það ekki haft neina afgerandi þýðingu þá, þó að hann hefði viljað sýna málinu meiri mótþróa heldur en hann gerði. Það var þegar í upphafi þeim mönnum ljóst, sem að þessari löggjöf unnu, að sem afleiðing af þessari hjálp og því ástandi, sem þá var ríkjandi meðal bænda, mundi að því koma, að það yrði að gera frekari ráðstafanir heldur en kreppulánasjóðslöggjöfin fól í sér. Mönnum var það ljóst, að bændur voru féflettir í ábyrgðir hver fyrir annan, og afleiðingin af því að gera þannig upp efnahag bænda yrði sú, að ábyrgðir, sem á einstökum bændum hvíldu, sem ekki þyrftu að leita til kreppulánasjóðs út af sínum eigin fjárhag, mundu geta komið svo hart niður á þeim, að það yrði líka að gera einhverjar ráðstafanir gagnvart þeim. Það er þess vegna ekki nýtt fyrirbrigði í þessu máli, sem hér kemur fram, að það þurfi að gera slíkar ráðstafanir sem þessar. En nú verður ýmsum tíðrætt um það, að þessar ábyrgðir skelli á mönnum fyrir aðgerðir kreppulánasjóðs. Þetta er ákaflega mikið rangmæli, því með hverjum öðrum hætti mundu þeir hafa orðið margfalt verr úti. Ef t. d. bú þeirra hefðu verið gerð upp með venjulegri gjaldþrotameðferð, þá hefði niðurstaðan orðið margalt verri heldur en hún varð, ekki einasta fyrir þá sjálfa, heldur líka þá, sem áttu kröfur á hendur þeim og voru bundnir í ábyrgðum fyrir þá.

En það var líka annað, sem þeim mönnum var ljóst, sem að því stóðu að gera þessar nauðsynlegu ráðstafanir gagnvart bændastéttinni, og það var það, að ef ekki fengist grundvöllur undir búreksturinn í landinu, eftir að búið væri að létta svo skuldabyrðinni sem raun hefir verið á fyrir þessar framkvæmdir, þá gæti svo farið, að þessi löggjöf kæmi að litlu eða engu gagni. Þýðing þessarar löggjafar var þess vegna fólgin í því að létta svo mikið af þeim skuldaþunga, sem upp á bændur hafði hlaðizt af ýmsum ástæðum, að þeir gætu undir venjulegum kringumstæðum staðið undir sínum búrekstri og látið hann bera sig. En reynslan hefir sýnt, að þetta hefir ekki tekizt. Búreksturinn í landinu ber sig ekki, og þess vegna er það sýnilegt, að þessi hjálp ætlar engan veginn að koma að því liði, sem hún hefði sjálfsagt gert, ef búrekstur bænda hefði staðið á fastari grundvelli heldur en hann gerir nú. Og er ég þá kominn að því atriði, hversu áframhaldandi löggjöf á þingi hefir verið í miklu ósamræmi við tilgang kreppulaganna. Þó að ræturnar að því, hversu erfiðlega bændum hefir gengið að láta búrekstur sinn bera sig, standi nokkuð víða, þá er því ekki að leyna, að ýmsar ráðstafanir þess opinbera eiga líka verulegan þátt í því, hvað þeir standa höllum fæti, því jafnframt því að gera ráðstafanir til þess að koma betra skipulagi á afurðasölumálin, hefir verið hækkað allt kaupgjald við opinbera vinnu, sem hefir aftur leitt af sér, þá kaupgjaldshækkun hjá bændum, sem hefir numið meiru heldur en þeim hagnaði, sem þeir hafa borið út býtum fyrir þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í sambandi við afurðasölumálin. Það var kauphækkunin í byrjunartíð núv. stjórnar, sem gerði bændum mestu skráveifuna, og það hefir verið haldið áfram á þeirri braut og búrekstur bænda goldið hið mesta afhroð við. Er þá ekki sízt að minnast þeirra ráðstafana, sem nú er verið að gera hér á Alþ., sem áreiðanlega verða til þess að gera aðstöðu bænda til fólkshalds mikið erfiðari og e. t. v. verða örlagaríkari fyrir bændur þessa lands heldur en nokkuð annað, sem áður hefir verið gert, sem þeim mætti standa ótti af. — Ég vildi aðeins benda á þetta, að með þessum ráðstöfunum er alveg snúið við blaðinu frá því, sem fyrir þinginu vakti, þegar sú ákvörðun var tekin að stofna kreppulánasjóð til þess að gera upp hag bænda og reyna að koma búrekstrinum inn á betri grundvöll. En sem afleiðing af því, eins og ég tók fram áðan, er svo það, að slíka ráðstöfun sem þessa, sem hér er um að ræða, er óhjákvæmilegt að gera. Ef ekkert er gert í þessu efni, eins og hv. þm. Hafnf. virðist vilja, þá verður afleiðingin sú, að ýmsir bændur landsins missa þá fótfestu, sem þeir hafa nú, við það að verða að taka á sitt bak ábyrgðir, sem á þeim hvíla. — Það hefir verið tekið fram hér í umr., að það er alls ekki rétt hjá hv. þm. Hafnf., að ekkert tillit sé tekið til þess, hvernig þeir séu stæðir, sem ábyrgðirnar hvíla á. Við uppgjör þessara mála verður vitanlega farið eftir getu þessara manna til þess að standa undir þessum ábyrgðum, alveg eins og það á að miða greiðslugetu þeirra manna, sem tekið hafa lán úr kreppulánasjóði, við það, hvað þeir eru menn til að standa undir miklum skuldaþunga. Það er ekki lagður neinn fastur grundvöllur undir þetta, því það er ekki hægt að gera fyrr en efnahagsskýrslur þessara manna liggja fyrir, sem vitanlega verður að miða greiðslugetuna við.

Hv. þm. Hafnf. sagði, að það mætti nokkuð á því marka, hvert hugir bænda stefndu, eftir þeim sendinefndum, sem hingað hefðu komið og borið upp vandkvæði og erfiðleika sína við landbn. þingsins. Og ég gat ekki skilið orð hv. þm. öðruvísi en svo, að hann hefði lesið það út úr hugum þessara bænda, að þeir ætluðu að nota sér það, að þeim hefði verið réttur litli fingurinn, eins og hann orðaði það, með kreppuhjálpinni, til þess að taka alla höndina og létta af sér allri skuldabyrðinni og láta ríkissjóð taka við öllu saman. Ég vil nú segja hv. þm. Hafnf. það, af því að þetta lýsir mjög mikilli vanþekkingu á íslenzkri bændastétt, að hún þráir ekkert meir en það að geta staðið á eigin fótum, og flestum bændum mun það ekki hafa verið sársaukalaust að þurfa að gera upp hag sinn á þann hátt, sem gert hefir verið í sambandi við kreppulöggjöfina, og þeim hefir ekki heldur verið sársaukalaust að þurfa láta falla niður greiðslur til ýmsra manna, sökum gersamlegs þrots við að standa undir sínum skuldbindingum. En þrátt fyrir alla smitun út frá kaupstöðunum, og þá einkum frá sósíalistum, um að menn eigi að byggja alla sína tilveru á því að gera kröfur til annara manna, þá er sú hugsun ennþá ríkjandi í sveitum landsins að reyna að bera sínar byrðar upp á eigin spýtur og standa við sínar skuldbindingar. Það er því algerlega rangt, að ennþá sé svo komið fyrir íslenzkri bændastétt eins og sumir vilja vera láta, að þeir lifi á því einu, sem að þeim er rétt og þeir hafa fengið til að létta af sér byrðunum. Það er því ekki annað en gersamlegt ráðþrot hjá bændum, sem kemur þeim til að bera upp þessi vandkvæði sín við Alþ. til að geta staðið við sínar skuldbindingar, af því að þeir hafa ekki getað látið búreksturinn standa undir þeim. Það er sprottið af því, að íslenzk bændastétt hefir fundið mjög berlega, af ýmsum ráðstöfunum, sem hið opinbera hefir nú á síðustu tímum látið gera, að þær hafa verið þannig, að þær hafa snúizt mjög á móti þeirra hagsmunum og afkomumöguleikum sveitanna. Það er ekkert gagn í því að rétta íslenzkri bændastétt stuðning á ýmsan hátt, eins og gert hefir verið, ef svo á að taka þann stuðning aftur með öðrum ráðstofunum, og máske meira til. Ég vænti þess nú, þrátt fyrir allt, og það þótt sósíalistar hafi snúizt á móti þessu máli, að þá sé hægt að sýna hér, að hægt sé að koma fram hagsmunamálum bænda án stuðnings jafnaðarmanna. Þetta mál verður órækur vottur um og sýnir þá fullkomlega í gegnum þá slitnu flík, sem verið er að reyna að breiða yfir samstarf sósíalista og Framsóknar á Alþ. — Það sýnir það, að Framsókn verður að kaupa það því verði, sem þetta samband hefir í for með sér til óþurftar fyrir bændur. Þeir sjást fullkomlega gegnum þá slitnu flík. Þetta er yfirdrepsskapur.