09.12.1935
Neðri deild: 94. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1383 í B-deild Alþingistíðinda. (2242)

167. mál, Kreppulánasjóður

Emil Jónsson:

Það er bezt að byrja á því að taka nokkur orð hv. síðasta ræðumanns til athugunar. Hann talaði eins og hans er vandi að tala, með allstórum orðum um hlutina og dró hvergi úr. Það væri kannske ástæða til þess að fara rækilegar út í ræðu hans heldur en ég mun gera hér, því að ég ætla mér aðeins að drepa á einstök atriði. Hann sagði, að sósíalistar væru að reyna að gera kröfur til annara. Til hverra er verið að gera þessar kröfur, og hver gerir þær? Það er hv. þm. Borgf., en ekki sósíalistar, sem gerir þær. Hv. þm. getur einn tekið að sér að nota þær aðferðir, sem hann annars eignar sósíalistum, að gera kröfur til annara. Annars fór þessi hv. þm. ekki rétt með, þar sem hann sagði að ég hefði líkt því saman, að með því að lána bændum þessi kreppulán væri verið að rétta þeim litlafingurinn, og ég vildi draga þá ályktun, að þeir myndu taka alla höndina. Ég sagði, að með því að gefa þeim þessar 750 þús. kr., væri verið að rétta bændum litlafingurinn, og gæti það orðið til þess, að öll höndin yrði tekin. Það var það, sem ég varaði við, en ekki stofnun kreppulöggjafar, eins og hún var upphaflega. Annars fór hv. þm. ýmsum, sennilega að hans dómi sanngjörnum orðum um hræsni mína og yfirdrepsskap, sem ég skal ekki segja um, hvort ofar liggur hjá honum eða mér. Um það eiga hlutlausir dómarar að dæma, en ekki við. En ég fyrir mitt leyti hefi fullkominn hug á að tala af heilum hug í málunum alveg eins og hann og mótmæli því, að hér sé um hræsni eða yfirdrepsskap að ræða. Hv. þm. sagði, að þetta væri ekki neitt, sem ekki mætti breyta, og að það væri augljóst, að gert hefði verið ráð fyrir, að á þessari kreppulöggjöf þyrfti að gera einhverjar breyt., og þá helzt þessar, að mér virtist hann gera ráð fyrir. En ég hefi aldrei heyrt gert ráð fyrir því, að ríkissjóður legði fram svona mikið fé í þessu skyni. Það er venjan, að hjálpin er veitt til að breyta lánunum (konvertera þeim), en ekki til að greiða þau. — Hv. 2. þm. N.-M. og hv. þm. A.- Húnv. greindi á um meininguna með frv. sjálfu. Ég er satt að segja mjög hissa á því, hvernig þeir geta viðhaft þau orð, sem þeir höfðu. Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að það væri meiningin að hjálpa þeim, sem þörf hefðu fyrir hjálp. Hvar stendur það? Hinn hv. þm. segir, að þetta skuli gert á þann hátt og með þeim einum takmörkunum, að jafnhá upphæð komi á hvern ábyrgðarmann, sem sé látin falla niður. Í grg. er gert ráð fyrir, eins og hv. þm. A.-Húnv. benti á, að ábyrgðarkröfunum sé skipt í þrjá jafna hluta: einn hlutann eigi maðurinn sjálfur að borga, annan eigi lánsstofnunin að borga og ríkissjóður hinn þriðja. Ef maður margfaldar þessar 750 þús. kr. með þremur, þá kemur út hliðstæð tala þeirri, sem ábyrgðirnar nema, eða milli 2 og 21/2 millj. kr. Ég fæ því ekki skilið, að það sé eins og hv. 2. þm. N.- M. sagði, aðeins meiningin að hjálpa þeim, sem þörf hafa fyrir, að þeim sé hjálpað. Það er ekki gert ráð fyrir í frv. neinum mun á því, hvort maðurinn er ríkur eða fátækur, ekki heldur hvort maðurinn stundi landbúnað eða ekki. Ég fæ a. m. k. ekki meiningu út úr því, og virtist hið sama koma fram hjá hv. þm. A.-Húnv. Því er það ekki að ófyrirsynju, þótt menn geri ráð fyrir, að þetta sé látið ganga jafnt yfir alla, sem kröfurétt hafa. Hv. þm. A.-Húnv. þótti undarlegt að mega ekki styrkja menn í kaupstöðum með því að láta þá falla undir þetta. En það, sem ég fetti fingur út í, var það, að með löggjöfinni er upphaflega gert ráð fyrir, að þeir einir njóti þessara hlunninda, sem stunda landbúnað sem aðalatvinnuveg. — Þá sagði hv. 2. þm. N.- M., að sá meginmunur væri á þessum kröfum og öðrum, að þessir menn hefðu verið óvitandi og óráðandi um, hvað verið var að gera við þá menn, sem þeir voru í ábyrgðum fyrir. Þeir hefðu ekki verið kallaðir til skuldaskila og engan íhlutunarrétt haft um, hvað gert var við mennina. Það kann að vera, að það sé munur á þessu tvennu, ábyrgðarkröfum og skuldum, en það er áreiðanlega aðeins teoretískur munur. Ég hefi ekki verið við mörg skuldaskil í kreppulánasjóði, en þar hefir það gengið þannig, að ég sem umboðsmaður kröfuhafa hefi verði kallaður upp eftir og mér verið tilkynnt, að höfuðkreditorarnir hefðu komið sér saman um, að svona skyldi það vera. Á ég að skrifa undir eða ekki? Það má vel vera, að mér sé gefinn kostur á að neita undirskriftinni, en slíkt mun í fæstum tilfellum gert, sannleikurinn í málinu er því sá, að þeir, sem lánað hafa peninga, eru ekki kallaðir upp eftir til annars en að skrifa undir og til þess að fá að vita, hve mikið þeir gefi eftir. Flestum þeirra er ekki tryggður neinn íhlutunarréttur um þessi mál, svo að munurinn á ábyrgðarkröfu og skuldakröfu verður sáralítill. Mér finnst, að þarna sé komið út á hála braut, sem geti leitt til þess, að mönnum fari að finnast, að eins og þetta var borgað, þá megi borga fleira. Ég tel, að þegar svo er komið, að menn fá nokkurn hlutann greiddan úr ríkissjóði, þá muni menn e. t. v. vilja fá eitthvað meira. Og munurinn á þessum kröfum og öðrum er ekki það mikill, að það réttlæti að gera neinn mannamun. Ég held, að það hafi verið aðallega þessar tvær ástæður, sem komu fram í ræðum þessara tveggja hv. þm. Aftur á móti var ræða hv. þm. Borgf. allt öðruvísi. Það var engu líkara en að hún væri pólitísk agitation. Hann þandi sig mikið um ýms pólitísk atriði, sem ég skal ekki víkja að hér. Það liggur algerlega fyrir utan þetta mál, og ég vil ekki fara með málið inn á þann vettvang. Ég mun því tala hér eingöngu um málið sjálft. Ég held það hafi ekki verið annað, sem ég þurfti að minnast á í sambandi við ræðu hv. þm. A.- Húnv. Hv. þm. sagði, að ýmsir bændur væru að reyna, hvað þeir gætu til að borga sínum ábyrgðarmönnum, svo að þeir yrðu ekki fyrir skaða. Það má vel vera, að þetta sé rétt. En ég skil ekki, af hverju þeir ættu frekar að reyna að bjarga ábyrgðarmönnum heldur en þeim, sem beinlínis hafa lánað þeim fé. Er nokkur eðlilegur munur á þessu tvennu? Ég vil að lokum taka það fram, að verði þetta frv. ekki samþ., þá er þó til frá f. á. um 1/4 millj. til ráðstöfunar í þessu skyni. Og ef gengið verður inn á þessa braut, þá er hægt að gera það með því að láta þessa 1/4 millj. duga. Það er ósannað mál, að það séu a. m. k. ekki einhverjir, sem ekki þurfa hjálp og hafa tekið á sig ábyrgð fyrir bændur. Þessum mönnum vil ég ekki hjálpa. Það liggur ekkert fyrir um efnahag þeirra manna, sem í ábyrgðunum standa.