26.11.1935
Neðri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

84. mál, vörutollur

Frsm. (Emil Jónsson):

Það er sama um brtt. við þetta frv. að segja eins og brtt. við frv. um verðtoll, að þær eru komnar frá tollstjóra og fjmrh., og miða þær að því að gera einstök atriði í frv. ótvíræðari. Það er lagt til, að fyrir orðin „jarðlitum til málningar“ í 1. gr. komi „jarðlitum, þurrum, til málningar“, svo ekki sé hægt að draga þar annað undir. Einnig að í stað orðanna í 3. gr. „heimilismunir manna, er flytja vistferlum til landsins“, komi „notaðir heimilismunir manna, er flytja vistferlum til landsins og hafa verið minnst eitt ár búsettir erlendis“. Það er lagt til í frv., að þessir heimilismunir séu undanþegnir tolli, og miðar brtt. að því að gera skýrara, hverjir megi hafa þá með sér til landsins. Það hefir komið í ljós, að menn, sem fara aðeins skyndiferðir til útlanda, koma með svo og svo mikið af húsgögnum með sér, sem þeir telja, að séu notuð. Til þess að koma í veg fyrir slíkt er gert að skilyrði, að menn hafi dvalið a. m. k. eitt ár erlendis, því þá eru fengnar líkur fyrir, að undanþágan sé ekki notuð á annan hátt en ætlazt er til. — Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessar brtt., sem komnar eru fram í samráði við tollstjóra og fjmrh.