19.03.1935
Efri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (2278)

91. mál, fávitahæli

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Þetta mál er ekki nýr gestur hér. Það er búið að tala um það oft áður, og því óþarft að flytja um það langt mál nú.

Mér er það fullljóst, að eins og sakir standa með efnahag ríkissjóðs, þá er ekki heillavænlegt að bera fram frv., sem kosta ríkissjóð útgjöld. Það er að vísu svo, að frv. gerir ráð fyrir fjárframlögum á sínum tíma, en ákvæði eru í 2. gr., sem stemmir stigu fyrir því að leggja í slíkan kostnað strax. Hinsvegar eru í frv. önnur ákvæði, sem ég tel mjög mikils virði að verði að l. nú þegar, og munu þau koma fávitum til góða þegar í stað á því hæli, sem er til í landinu. Og með það fyrir augum legg ég mikla áherzlu á, að frv. verði samþ.

Að öðru leyti þarf ég ekki að ræða um nauðsyn þessa máls, því hún er sízt minni en áður, og ég tel ekki hægt fyrir Alþ. að skjóta sér undan þeirri nauðsyn. Það berast daglega raddir um nauðsyn þessa, raddir aðþrengdra foreldra og vandamanna eða aðþrengdra heimila, sem eru í standandi vandræðum með veslinga þá, er venjulega eru kallaðir fábjánar. Það hafa ekki ósjaldan borizt Alþ. beiðnir um að kosta fávita á hæli erlendis. Nú eigum við hæli, sem er álitið gott, og ef frv. verður að l., þá verður skipuð þriggja manna eftirlitsnefnd með heimilum eða hælum fávita.

Ég vonast til þess, að við umr. þær og skýringar, sem fram hafa komið í málinu, hafi menn sannfærzt um það, að það er meir en mál komið til þess að sinna málefnum fávita.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið við þessa umr. Frv. var í allshn. á síðasta þingi, og legg ég til, að það fari sömu leiðina nú, um leið og ég læt þá ósk í ljós, að hv. n. greiði fyrir því eftir beztu getu.