26.11.1935
Neðri deild: 83. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (2300)

189. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég hefi eftir áskorun bæjarstj. Vestmannaeyja leyft mér að koma fram með þetta frv., og eins og grg. ber með sér, er það til þess að flýta fyrir innheimtu útsvara. Í núgildandi tekjuskattslögum er framtalsfresturinn í Reykjavík stuttur; mönnum er ætlað að skila framtalsskýrslu mánuði fyrr þar en í öðrum kaupstöðum landsins, sem gildir hið sama um í þessu efni og sveitirnar. En það virðist mega hafa framtalsfrestinn þann sama í kaupstöðunum úti um land eins og í Reykjavík. Aftur á móti er framtalið umsvifameira í sveitum og því eðlilegt, að það þurfi lengri tíma þar. Frv. fer fram á að stytta framtalsfrestinn í kaupstöðunum úti um land um einn mánuð, svo hann verði hinn sami og í Reykjavík. Tilgangurinn er, að niðurjöfnun útsvara geti farið fyrr fram og innheimta þeirra geti þar af leiðandi orðið auðveldari.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar, en vil mælast til, að málinu verði að lokinni umr. vísað til hv. fjhn., og ætla ég þá að hnýta við þeim tilmælum til n., að hún sæi sér fært að afgr. þetta litla mál heldur tímanlega.