04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

1. mál, fjárlög 1936

Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það má gjarnan minnast þess við þetta tækifæri, að 1. desember er nýliðinn, — hinn þjóðhelgi fullveldisdagur, sem vera átti, og hefir hann nú í fyrsta skipti verið notaður af flokkum þeim, er standa nærri núv. stjórn, til svæsins áróðurs til hagsmuna niðurrifsstefnum kommúnista, eins og heyra mátti við hádegisútvarp stúdenta og víðar þann dag.

Var af æsingamanni þeim, er látinn var mæla af svölum alþingishússins, það talið eina sjálfsagða ráðið (ef nokkur meining hefir átt að vera í erindinu), að alþýðan réðist á peningastofnanir landsins, bankana, og gerði sér gott af fjármunum þeirra, þar sem þeir (bankarnir) væru nú höfuðfjandinn, sem yfirstíga bæri, áður en þeir kæmu fólkinu á kné.

Líklegt er nú að vísu, að þessi ræðumaður hafi ekki ætíð átt upp á pallborðið hjá þeim stofnunum — því af þannig verður að skilja þessa móðursjúku gusu —, en hverju væri almenningur nær, þótt hann fengi að moða úr bönkunum, bundnum og tómum þegar minnst vonum varir, nema þá hreinlega stæli fé þeirra, sem yrði skammgóður vermir?

Hvílík endileysa, sannarlega samboðin samfylkingu kommúnista og sósíalista. Eða hafa stjórnarblöðin mótmælt þessu? Öðru nær. —

En í þessari ræðu kom þó ein játning fram, og verður eftir atvikum að telja hana komna frá fyrstu hendi, sem sé sú, að hér væru í landinu erindrekar fyrir hagsmuni annara þjóða, sem ásælast vilja sjálfstæði vort, og mun þar m. a. átt við þá menn, sem smjaðra fyrir Dönum og vilja gera þeim allt til geðs, svo sem er og um suma forystumenn núv. stjórnarflokka enda fellur eplið ekki langt frá eikinni, því að sósíalistar og kommúnistar hafa orðið uppvísir að því að þiggja fé frá erlendum þjóðum til starfsemi sinnar hér á landi.

Það er einnig talið víst, að ráðherra Alþfl. hafi í umboði sinna samherja, og væntanlega með blessun formanns Framsfl., á laun fengið eða samþ. danskan mann, sem verið hefir skrælingjakönnuður í Grænlandi árum saman, Lauge Koch, til þess að bera einnig niður í þessu landi, — trúlegast af því að sósíalistar treysta eigi vísindamönnum íslenzkum til þess að rannsaka sitt eigið land, — enda hefir danska blaðið „Politiken“ þ. 2. júní s. l. þau orð um þetta: „Dr. Lauge Koch Hefir um lengri tíma verið sérstakur ráðunautur fyrir Ísland í jarðfræðiefnum“, og til þessa veit satt að segja enginn, fyrr en þessi stjórn kom til valda, eða hins, að vér værum svo djúpt sokknir.

Það kemur og heim, að þegar þessi maður er búinn að vera hér um stund í sumar, vitandi að fróðra manna dómi lítt um það, hvað hann skyldi hafast að, þá hefir sama blað eftir honum 21. sept. s. l. (orðrétt):

„Hann (L. K.) sagði frá þeim miklu verkefnum, sem íslenzka ríkisstjórnin hefði beðið hann um að leysa af hendi“ (og hrósar hann síðan stjórninni á hvert reipi).

En svo er það vitað, að engir náttúrufræðingar hér vilja lúta að samvinnu við hann. Þessi danski maður hefir verið ráðinn til þessa gegn vilja þeirra allra og að þeim forspurðum. En hann hefir nú og fengið sinn áfellisdóm þessa dagana hjá dönskum vísindamönnum.

Nú er mér spurn: Hvað er hér að gerast? Og á hvers kostnað?

Er byrjaður hér skipulagsbundinn erindrekstur fyrir Dani í þessu landi — ef til vill með 1943 fyrir augum — undir stjórn hinna vinnandi stétta?

Skal nú vikið að öðru efni. —

Það, sem alltaf og alstaðar hefir auðkennt sósíalistískar stjórnir (reyndar hvort sem eru ríkisstjórnir eða bæjarstjórnir), er annarsvegar gálauslegar og stundum glæfralegar tilraunir (experiment) í þjóðmálaframkvæmdum, sem talið er, að miða eigi heildinni til hags, en verður einatt allmiklum hluta borgaranna til niðurdreps, og hinsvegar óhófleg eyðsla og fjársukk, sem ekki aðeins að nokkru leyti leiðir af hinu fyrra, heldur er beinlínis ætlað til þess að þjóna flokkshagsmunum undir því yfirskyni, að verið sé að efla farsællegar stjórnmálastefnur o. s. frv., en kemur iðulega fram sem meira og minna óþarfar greiðslur og bitlingar til flokksmanna.

Ekki er þetta þó jafnáberandi hjá öllum slíkum stjórnum. T. d. hefir víða erlendis, þar sem sósíalistar hafa náð völdum, verið gætt nokkurrar hófsemi í þessum tiltektum, svo að hinir borgaralegu flokkar hafa ekki verið settir á kaldan klaka, og hefir áður verið á þetta minnzt, en þetta kemur til af því einfalda atriði, að þar hafa forystumennirnir séð að það var að steypa sér ofan í foraðið, bæði pólítískt og efnalega, að fara að koma á stórkostlegum umveltum á hinum örðugustu tímum, þegar allt var undir því komið að geta haldið sem mest og sem lengst í horfi, haldið atvinnuvegum í gangi með hagnaði, og á engan hátt auka öngþveitið með því að hrifsa framkvæmdirnar af einstaklingum og félagsskap þeirra nema í hreinar nauðir ræki.

En hér á landi hefir hin gætna aðferð ekki verið viðhöfð. hér hafa sósíalistar (sem fram að þessu hafa allir hagað sér eins og kommúnistar annara landa) notað aðstöðu sína til umráða eða meðráða á þjóðarbúinu ósleitilega og fyrir allra augum til þess að gera umrót í þjóðmálunum, hvað sem það kostaði, og jafnframt til þess að skara eld að sinni köku með gífurlegum fjáraustri.

Forystumenn þeirra hafa heldur aldrei hirt um og aldrei reynt að kenna öðrum að spara. heldur eingöngu gengið upp í því að heimta, — heimta fé og fríðindi og talið að allt ætti að taka af öðrum, án þess að skeyta því nokkru, að þegar búið er að rýja inn að skyrtunni, þá verður sjálfri þeirri flík hætt, svo að við blasir aðeins nektin, skorturinn, auðnin.

Og á allra vitorði er það, enda fyrir allra sjónum bert, að hinir svokölluðu „öreigaforingjar“ hér hjá oss, hinir hæstgalandi í hinum heimtandi hóp, — þeir eru mestu eyðslu- og óhófsmennirnir, nú margir tekjuhæstir allra landsmanna og í útsjón allri eftir því.

Þessir menn eru það og þeirra fylgis- og þjónustumenn, sem í raun réttri hafa farið með stjórn þessa lands undanfarin 8 ár, því að framsóknarstjórnin, er til valda kom 1927, studdist við sósíalista, bæði af fylgisnauðsyn og eins að sumu leyti af innræti, enda var og er alkunnugt, að ýmsir af þeim róttækari „framsóknarmönnum“ (er svo nefna sig) voru sízt minna „byltingasinnaðir“ en hinir, er báru nafnið „jafnaðarmenn“, sem þá orðið hafði ekki lengur sína upphaflegu ísl. merkingu, heldur varð að tákna þá, sem jafna vildu hina uppistandandi þjóðfélagsskipun við jörðu.

Öll þessi ár hafa beinlínis með fjármálastjórn landsins farið umboðsmenn Framsfl. með atbeina Alþfl., og yfirleitt með stjórnina í heild, þótt 1 fulltrúi frá Sjálfstfl. ætti sæti í henni 1932—'34, og varð þeim minni hluta eigi beitt til neinna höfuðbreytinga í stjórnarstefnunni, eins og gefur að skilja.

Það varð brátt kunnugt, að framsóknarmenn urðu, í hverju sem á reyndi, algerðar undirlægjur hjá sósíalistum, urðu að sitja og standa eins og þeim þóknaðist, og kraumuðu ýmsir þeirra sárlega undan því, en ekki var það látið tjóa, því að þá gilti hjá þeim hið viturlega heróp: Allt er betra en íhaldið!!

Úr flokknum kvarnaðist þó að lokum hægri armur hans, en eftir urðu hinir nánustu samvinnumenn sósíalista, sem nefndir voru þeir „bæjarradíkölu“ af hinum. Þessir framsóknarmenn og sósíalistarnir ráða nú lögum og lofum í landinu og hafa gert síðan í fyrra sumar (1934), er núv. stj. varð til.

En hún myndaðist, eins og bent hefir verið á í þessum umr. og orðið er nógsamlega kunnugt, enda ómótmælanlegt, á grundvelli hinnar svokölluðu „4 ára áætlunar Alþfl.“, sem var ekkert annað en samandregin — og þó að nokkru sundurliðuð — stefnuskrá sósíalista.

Samkvæmt henni hafa stjórnarframkvæmdirnar verið, sbr. ræðu atvmrh. í gærkvöldi, enda löggjöf þessara þinga, 1934 og nú 1935, horfið algert í þann farveg, ef um nokkur stefnumál hefir verið að ræða.

Er nauðsynlegt, til almennrar vitneskju um ástandið, að gera sér þessar staðreyndir ljósar. Þetta sannast og af því, að þegar nú er farið að slettast nokkuð upp í vinskapinn hjá stjórnarflokkunum, sem er sjáanlegt öllum kunnugum, þá er aðallega haft í frammi því til skýringar og nokkurskonar rökstuðnings, að hinn aðilinn (í þessum tilfellum aðallega framsóknarmenn) hafi svikizt undan uppfyllingu hins eða þessa í stjórnarmyndunar — „málefnasamningnum“, eða m. ö. o. ekki viljað fylgja út í æsar auglýstum og fyrirskipuðum stefnuskráratriðum sósíalista.

Og dregur nú heldur sundur en saman með þessu fólki, eftir því sem hin örðuga sambúð stendur lengur, og þá ekki sízt vegna þess, að „ölið“ er farið að minnka á „könnunni“, tuggan orðin rýrari í stallinum, og fer þá oft að verða illa frítt með jötunautum, eins og menn kannast við.

Munu þá sósíalistar fara að bíta frá sér, og leita sér betri tilgjafar; og uggir það mig, að þá muni framsóknarmenn sitja eftir með nokkuð sárt ennið.

En enginn má sköpum renna. —

Á þessum dögum hafa þessir samvinnandi stjórnarflokkar haft í hótunum í blöðum sínum, hvorir við aðra um samvinnuslit — og þykist hvorugur muni „tapa“ við.

En þetta er vitanlega eins og selbiti í vasann. Og nú hafa þeir orðið, reyndar með nokkrum harmkvælum, að koma sér saman um að þykjast vera að halda þjóðarskútunni á floti, með því að stofna til nýrrar skattaálagningar, hærri og hærri tekjuskatt og enn nýtt innflutningsgjald af vörum (ofan á vörutoll og háan verðtoll).

Á að nota þetta, segja þeir, til nýrra þjóðmálatilrauna, ef fé þetta þá næst, því að inn í kviku er nú komið á skattþegnum landsins.

En athugum nú nokkur dæmi um, hvernig staðið er að því að spara ríkisútgjöld — við sjálfan ríkisreksturinn — hversu mikilla hagsbóta sé annars af honum að vænta.

Enda þótt ríkisstj. hafi algert haft tökin á því — og margfaldar áskoranir hafi um það fram komið utan þings og innan — að lækka til muna hin geysiháu laun við ríkisstofnanirnar, sem ávallt hafa farið stórum fram úr launum hinna lögskipuðu embættismanna ríkisins, er undirbúið höfðu sig til starfa á mörgum árum með ærnum kostnaði, þá hefir hún þó síður en svo hirt um það, svo að mark sé á takandi, heldur jafnvel aukið að sumu við, því að t. d. nefndir á launum eru skipaðar í hvað eina eða mönnum bætt við liðið, sem fyrir var.

Það er alkunnugt, og hefir verið öllum hugsandi mönnum hneykslunarhella á undanförnum árum, að forstjórar þessara ríkisstofnana: Tóbakseinkasölunnar, Áfengisverzl., Landssmiðjunnar, Útvarpsins, Viðtækjaverzl., Skipaútgerðarinnar, hafa haft miklu hærri laun en hæstlaunuðu fastir embættismenn — og enn hafa þeir hærra kaup en ákvarðað er dómurum í hæstarétti, svo að teknir séu menn, sem talið er að skipi einna virðulegustu stöðurnar í þjóðfélaginu.

Laun hæstaréttardómara eru 8000 kr. á ári, en sumir hinna nefndu forstjóra hafa langt fram yfir það.

Og einfalt skrifstofu- og aðstoðarfólk í þessum stofnunum, flest af því óbreytt starfsfólk með litlum eða því sem næst engum menntunarundirbúningi sérstaklega, er miklu betur launað eða eins og þeir menn, er skipa hin stærri lögskipuðu embætti landsins, eins og biskup, prófessorar við Háskóla Íslands, skrifstofustjórar í stjórnarráði, sýslumenn, læknar og að ég ekki tali um presta þjóðkirkjunnar, sem eru í launakjörum miklu lægra settir en afgreiðslumaður í Tóbakseinkasölunni eða aftappari í Áfengisverzluninni.

Það er ekki furða, að forráðamenn stjórnarflokkanna, sem hafa haft öll tök á þessum ríkisstofnunum og hafa frá upphafi ráðið launakjörum þar, babli um „sparnað á ríkisfé“, „niðurfærslu launa“ og fleira í þeim „dúr“, sem menn nú að öðru leyti hafa tekið lítt hátíðlega, þar sem hér eiga í hlut landsins mestu eyðsluseggir á opinbert fé, svo sem vitað er af stjórnarferli þeirra fram að þessu, og sitja sjálfir með há laun og bitlinga, er fæstir munu koma tölu á, og hefir í umr. oft verið bent á það áður.

T. d. mun óhætt að segja, að þeir höfðingjar, sem mest belgja sig upp sem svokallaðir „forystumenn“ alþýðunnar, hafa makað og maka svo vel krók sinn sumir hverjir, að árskaup þeirra skiptir tugum þúsunda króna.

Og þennan sinn hlut taka þeir á þurru landi og leggja ekki í neina áhættu.

Og hvað er svo um hið nýjasta einkasölubákn ríkisins að segja, Raftækjaeinkasöluna? Hefir verið reynt að gera starfsmannahaldið þar og allan tilkostnað að sínu leyti ódýrari en hinar, þar eð m. a. það gat ekki verið neinum áður gerðum samningum bundið, sem byrja átti? — Ónei. Auk alls annars (sem síðar skal vikið að) er þessi stofnun fordýr, og mun að vísu eigi hafa komið neinum á óvart, eins og nautarnir voru að henni. Starfsmannafjöldinn þar er sem sé þegar orðinn meiri en hann var í öllum starfandi heildsölum til samans í þessum varningi hér áður, eða 16 manns nú (hjá einkasölunni) í stað 11 (hjá öllum heildsölunum saman talið áður). Hafa aðalmennirnir (aðrir en sjálfur forstjórinn) þetta 500, 600 og allt upp í 900 kr. á mánuði í kaup, sem er sama sem 8000 til 10800 kr. árslaun. Og annað aðstoðarfólk, einfaldir afgreiðslumenn og skrifstofumenn, með þetta 350—400 kr. á mánuði, eða á milli 4000 og 5000 kr. á ári. M. ö. o.: aðeins hið fasta kaup starfsfólksins á þessari einkasöluskrifstofu, sem einungis hefir með höndum heildsölu á raftækjum, er þegar orðið ekki minna en 70 þús. kr. á ári. og mun þó vafalaust blæða betur, ef ekki verður tekið í taumana, því að gera má ráð fyrir enn auknu aðstreymi úr herbúðum stjórnarliða (og annara, reyndar úr þessari starfsgrein), sem hætt er við, að vilji skríða undir faldinn til þess að afla sér fríðinda og stöðu í hinni tryggu einokunarhöfn — meðan hafnarvirkin standa. Það er hið siðferðislega hlið og afleiðing slíkra aðgerða í atvinnulífi þjóða. Og alveg er nú ljóst orðið, og var að vísu frá öndverðu, að ekki er viðlit að láta slíka einkasölu bera sig fjárhagslega, og því um síður þykjast láta hana skila „ágóða“ til ríkissjóðs, nema með gríðar-álagningu, og er þá komið að því, hvernig þessi viðskipti eru rekin.

Innflutningur rafmagnstækja og efnis til raflagninga hefir verið nokkuð misjafn á síðasta áratug, en þó aukizt svo, að telja mun mega, að hann hafi allra síðustu árin verið upp á 750—800 þús. kr. Óhætt er að áætla, sbr. það, sem fyrr var tekið fram, að skrifstofu- og afgreiðslukostnaður þessarar einkasölu verði brátt ekki minni en kr. 100000,00 á ári, og þýðir það út af fyrir sig feikna-álagningu á þær vörur fram yfir það, sem verið hefir, því að það mun nú á kunnugra vitorði, eða svo virðist a. m. k., að við innkaup sé einkasalan ekki skoðuð sem „umboð“, heldur aðeins sem stórnotandi, og sætir því ekki sömu kjörum og heildsölu-umboðsmenn, sem gæti komið m. a. til af því, að heildsölu-umboðin haldist, sem voru, með sömu þóknun (og um önnur eða ný viðskiptafirmu í þessari grein er vart að tala), svo að einkasölukostnaðurinn kemur fram sem aukinn milliliðakostnaður.

Sérfróðir menn í þessum greinum hafa orðið þess varir, að ákveðin viðleitni lýsir sér í tiltektum Raftækjaeinkasölunnar til þess að hlaða undir eitt erlent firma, hið þýzka raftækjasölufirma A. E. G. (Allgemeine elektrische Gesellsehaft), og hafa pantanir á vörum frá öðrum firmum verið látnar fara um hendur þess, einkum útibús A. E. G. í Kaupmannahöfn, — og svo ákveðin hefir þessi stefna verið í framkvæmdinni, að hin önnur firmu sum hafa jafnvel haldið, að það sé A. E. G., sem hafi einkasölu á Íslandi, en ekki, að hér sé einkasala rekið af ríkinu.

En A. E. G. er einmitt það firma, sem aðalforstjóri Raftækjaeinkasölunnar hafði umboð fyrir áður, þ. e. „Raftækjaverzlun Íslands“, sem hann kallaði þá verzlun sína, og mun vera til ennþá a. m. k. að nafni til, — alveg á sama hátt og „Tóbaksverzlun Íslands“ (stórt skal það vera) var til á vegum sama manns, þegar tóbakseinkasalan komst á, og er maðurinn eins og kunnugt er einnig forstjóri þar; er látið heita svo, að hann taki föst laun aðeins hjá annari einkasölunni — tóbakseinkasölunni 11 til 12 þús. kr. á ári.

Hvort þriðja fyrirtækið hans, h/f Sogsvirkjun, er ennþá við lýði, veit ég ekki. — En þessi höfðingsmaður, sem mér er að öðru leyti alveg ókunnugur, er nú orðinn svo mjög í frammi hafður í þjóðmálatilþrifum, af sjálfs sín dáðum og annara, og ríkisstj. svo við hann bendluð, að eigi er kleift að komast hjá því að geta hans á þingi (þótt eigi sé hann beinlínis orðinn meðlimur þeirrar samkundu).

Þetta er sami maðurinn, sem einhver sagði í útvarpinu í haust, að hefði sýnt „þegnskap“ sinn í að gefa landinu 8000 kr. til kaupa á Geysi í Haukadal, — að mínum dómi skollaleikur, eða ef menn vilja heldur kalla það sölu„húmbug“. Þar sem maður, sem óneitanlega er ekki í sama áliti hjá öllum, er látinn vera að gefa landinu svolitla peningaupphæð til þess að kaupa „landsgersemi“, sem kallað er, og hann sjálfur telur sig hafa rétt á vegna útlendinga, og á þessu er sýnilega ætlazt til, að þessi herra „slái sér eitthvað upp“, því að óspart er honum hrósað fyrir í hóp stjórnarsinna.

Ég er í sjálfu sér ekki að átelja manninn fyrir þetta, hvað sem hann annars meinar með slíku, en að stj. sé að láta hann gefa milljónaskuldugu landi nokkrar krónur (mann, sem fengið hefir af landinu í kaup o. s. frv. margfalda þessa upphæð — og á væntanlega að halda áfram að fá kaup fyrir athafnir sínar í málum þjóðarinnar), það er meira en broslegt, það stappar nærri ósvífni, — og sú ríkisstj., sem tekið hefir við þessu, undir þessum kringumstæðum, er að mínum dómi fyrir það ámælisverð, því að velsæmi í opinberum málum mótmælir því. —

En undir þessum aðalforstjóra raftækjaeinkasölunnar starfar við hana annar maður, útlendur og áður útsendur frá téðu firma, A. E. G., sem fulltrúi þess í „Raftækjaverzlun Íslands“ — en einkasalan tók að sér allar hennar vörubirgðir m. m.

Frá upphafi höfðu væntanlegir viðskiptamenn ýmugust á þessu fyrirkomulagi, og telja þeir, að því miður hafi uggur þeirra rætzt. Er þetta ekki nein „pólitík“, heldur ber mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum saman um þetta.

þegar í upphafi varð það bert, af lýsingum í blöðum sjálfstæðismanna, að rafvirkjar og aðrir hlutaðeigendur sameinuðust í andstöðuákúrum og kröfum út af tilætlaðri framkvæmd einkasölulaganna síðastl. vetur.

Og loks kom að því, Alþýðublaðið, stjórnarblað sósíalista, tók hörkulega í sama streng og hafði í mestu hótunum til sinnar eigin stjórnar (!), nema öllum þeim ráðagerðum með forstjórann og fulltrúann í fararbroddi yrði riftað (meðal krefjenda, rafvirkjanna, voru sem sé ekki fáir, sem telja sig til þessa flokks og heimtuðu íhlutun blaðsins).

En með þessum gauragangi þóttist blað og flokkur hafa aðhafzt nóg, eins og oftar hefir verið í líkum ærslatilfellum gagnvart hinum stjórnarflokknum eða framarlega standandi mönnum hans.

Því að ekkert hefir verið gert, hvorki til riftunar né leiðréttingar, í þessum einkasöluframkvæmdum.

„Forstjórinn“ og „fulltrúinn“ hafa haldið einokuninni gangandi, flestum viðskiptamönnum í óþökk, eins og mörg dæmi sanna og ríkisstj. mun hafa orðið alvarlega áskynja um, af rökstuddum og áframhaldandi kröfum frá þeim, sem undir þessu hafa mátt búa, þótt skammt sé um liðið — og er þessi einkasala sérlega valið dæmi um þesskonar fyrirtæki rekin af ríki og stjórn!

Pantanir og afgreiðsla (og í heildsölu á það að vera færum mönnum mjög einfaldur hlutur) hafa gengið vægast talað með silahætti, móts við það, sem var hjá heildsölunum áður, og alls ekki staðið heima það, sem oft var lofað, — verzlun þessi fær yfirleitt það orð, að hafa ósjaldan verið óáreiðanleg, og er vitanlega forráðamönnum hennar um að kenna. Allan tímann hefir það endurtekið sig, að efni hefir vantað (og er barið ýmsu við, sem lítt hefir staðizt), og hefir það vitaskuld orðið til stórbaga fyrir alla, sem hafa þær framkvæmdir með höndum, og eigi lítils kostnaðarauka.

Eins og vita má, höfðu heildsölur í þessum greinum áður fyrirliggjandi vörubirgðir, svo að fullnægja mátti venjulegri eftirspurn, eða ef eitthvað vantaði, gekk pöntun á því fljótt og greiðlega.

En nú virðist einkasalan hafa ætlað sér að „liggja“ ekki með efnisbirgðir — sem er háskaleg villa —, en fróðir menn halda, að á þessu hljóti að standa svo, að aðalforstjórinn hafi í öndverðu talið fjármálaráðherra, sem var illa heima í þessum sökum, trú um, að eigi þyrfti hér að staðaldri vörubirgðir, heldur væri hægur nær að fá slumpa frá A. E. G.

En fullnægjandi birgðir mundu ekki kosta minna bundið ríkisfé en 1/2 milljón, miðað við þörf landsins alls.

Og kæmi þessi þungi baggi ofan á allt annað við þessa einokun, ólagið og hið stórlega hækkandi vöruverð, þá er sýnt, að fjárhagslega verður eigi undir staðið, nema með afarkostum, að því ógleymdu, að eins og verra efni en áður og einhæfara hefir eigi sjaldan verið haft á boðstólum, þannig myndu og fleiri óþægindi af því stafa inn á við og út á við, að binda sig einkanlega við eitt einasta firma, sem enginn telur, að standi framar öðrum, sem áður höfðu hér viðskipti.

Hið hækkandi verðlag hjá raftækjaeinkasölunni hefir verið svo áberandi, að finna má dæmi þess, að jafnvel efni, sem var fengið hjá heildsölum hér og þeir voru búnir að leggja fullt á, hefir einkasalan selt út með 70% álagningu þar ofan á.

Já, óskammfeilnin er mikil, en að öðrum kosti getur báknið ekki borið sig, má ætla, eins og allt er í pottinn búið, og ætti þá ekki að þurfa frekari vitna við.

Reglugerð um einkasölu á rafvélum, rafáhöldum o. fl. var gefin út 13. marz þ. á., byggð á lögunum um sama efni frá þinginu 1934 (þau eru nr. 30 9. jan. 1935); var með henni ákveðið, að einkasalan byrjaði 1. júní s. l. og (í 4. gr.) að einkasalan mætti leggja á í heildsölu 5—75%, mismunandi eftir ástæðum, en smásalar þar á ofan 10—50%.

En það er orðið vitað mál, að hækkanir heildsöluverðs ýmsra raftækja og efna, síðan einkasalan tók til starfa — frá því, sem verzlunum tókst að gera sín innkaup fyrir áður — nema miklu meira en lögin tiltaka, svo að á mörgum tegundum eða hlutum þessara vara er 100 til 200% og á sumum jafnvel yfir 200% og allt upp yfir 300 %. Sem sé með algerlega óheyrðum hætti, hvort sem er okurálagning eða því er að nokkru um að kenna, að einkasalan gerir sín innkaup með þeim mun verri kjörum en verzlanir hér gerðu áður; en það eru þeir, sem kaupa, er að lokum verða að blæða.

Og þótt bifreiðaeinkasalan, sem smellt var á með heimild sömu laga og raftækjaeinkasölunni, sé ekki undir sömu forstjórn, heldur hafi aðallega verið falin annari starfandi ríkisstofnun, hefir þó verðhækkun þar orðið tilfinnanleg a. m. k. á sumum tegundum, þar sem t. d. bifreiðar hafa, að því er virðist vegna einkasölunnar, hækkað í verði um 400—500 kr. stk., og jafnvel í sumum tilfellum miklu meira, hjólbarðar (dekk) um 50% ljósakúlur (í bíla) um 100% eða meir (seldar hjá raftækjaeinkasölunni).

Er furða, þótt menn kraumi — spyrji, hvar slíkt verzlunarlag endar, sem byrjar með löggjafarofbeldi og er framkvæmt sem hrein áþján?

En þetta var svo sem ekki mót grun og jafnvel vissu, ekki aðeins stjórnarandstæðinga, er spyrntu gegn lagasetningunni, heldur einnig, eins og fyrr var getið, sjálfra stjórnarflokkanna og ráðherranna, eftir skrifum þeim að dæma, sem Alþýðublaðið flutti þ. 2. apríl þ. á., þar sem blaðið þá þegar stimplar framkvæmd raftækjaeinkasölunnar sem fullkomið hneyksli (þess eigin orð), — þetta taldi blaðið þá sannað með einróma dómi rafvirkjanna, er kröfðust endurskoðunar á reglugerðinni undir eins, og heimtuðu ennfremur, að forstjórinn (S. J.) hyrfi þegar úr stöðu sinni (ráðningu hans kenndi blaðið fjármálaráðherra).

Hvað er þá ekki nú sannað, þegar reynslan er fengin enn verri en nokkurn óraði fyrir?

En þeir flokkar, sem nú ráða, þykjast geta reynt enn á þolinmæði landslýðsins. En hve lengi?

Nú, en þótt ég hafi nú tekið hér til meðferðar aðallega þessa ríkiseinokun (á raftækjum og bifreiðum), sem kúguð var í lögum gegnum þingið, af stjórn, sem er í minni hluta meðal þjóðarinnar, og með 1 atkv. meiri hl. í Nd., aðfengins atkvæðis — þótt ég hafi nú lýst henni þannig, sem sannanlega er rétt, þ. e.: sem tilvöldu dæmi um verzlunar-ríkisrekstur, þá er svo sem margt annað, sem hin mesta þörf væri að gagnrýna og gera heyrinkunnugt í atferli núv. ríkisstj., en hinn afmarkaði tími vinnst ekki til þess, enda ýmislegt af því, sem mjög er mikilsvert, rætt og rakið af öðrum samflokksmönnum mínum og stjórnarandstæðingum.

Má þar ekki hvað sízt nefna, auk fjármálaástandsins, hina afskaplegu útkomu á meðferð framleiðsluafurða vora innanlands, sem er lífsbjörg fólksins. Það er kjötið og mjólkin.

Í framkvæmd kjötsölulaganna er þrennt sérstaklega athyglisvert:

1. Þegar á heildina er litið, hefir markaðurinn fyrir kjötið innanlands hvorki aukizt né verð hækkað, — en hvoru tveggja var lofað af núv. stjórnarflokkum.

2. Gagngert misrétti hefir verið innleitt hér sunnanlands. að því er virðist vísvitandi undir forystu S. Í. S. — þar sem félögum Sf. Sl. hefir verið bolað sem mest burtu af sínu eigin sölusvæði, Reykjavíkurmarkaðinum, og sumir þeirra eru algert útilokaðir, eins og Skaftfellingar, sem ekki fá að vera með á verðlagssvæði Rvíkur, en í staðinn er dembt inn á þennan markað kjöti af allt öðrum verðlagssvæðum, svo gífurlega, að ekki linnti kjötflutningum hingað í haust, nætur og daga norðan úr landi.

Hefir komið fram í umr. á þingi frá fulltrúa ríkisstj. í þessum málum, að helzt ætti að koma sölu sunnlenzku samvinnufélaganna, Sf. Sl. og Kf. Borgf., fyrir kattarnef. enda þótt það séu þau, en ekki S. Í. S., sem unnið hafa upp bezta markaðinn í landinu. — því að það er ekki farið dult með það, að S. Í. S. eigi einnig í þessu efni að vinda viðjar sínar um sveitabændur, og má þá af fenginni reynslu geta sér til um, hversu mjúkum höndum verði farið um þessa framleiðendur.

3. Hið arðvænlegasta sölutímabil á kjötinu hér um Suðurland allt, sumarið, hefir verið á þessu ári svo skemmt og rýrt, að framleiðendur hlutu af óbætanlegt tjón, þar sem eigi var leyfð slátrun sauðfjár fyrr en mánuði seinna en undanfarið, enda hlýtur slíkt athæfi, ef því verður fram haldið, að hafa það tvennt í för með sér — annarsvegar að afnema hér sumarmarkað nýja kjötsins og hinsvegar að fyrirmuna bændum að hagnast á dilkum sínum á bezta tímanum.

Bændum, eigi síður en öðrum, má nú fara að verða það augljóst, að meðan svo fávísir stjórnendur fara með mál þeirra sem nú á sér stað, geta þeir ekki átt viðreisnar von.

Og eigi hefir þetta síður en við kjötið komið fram við framkvæmd hinna afurðasölulaganna — mjólkursölulaganna, sem þegar í fyrravetur var orðin fræg að endemum, og hefir lítt úr því rætzt. Á stjórn og meðferð þeirra mála hefir enn engin leiðrétting fengizt, þótt heita ætti að loforð væri, reyndar bæði samkv. ákvæðum sjálfra laganna og eins með orðum ráðherra við umr. í þingi.

Sjálfir framleiðendur og félagsskapur þeirra hafa ekki getað fengið að hafa þar tögl og hagldir. Hinir opinberu andstæðingar „arðránsins“, sem svo nefna sig, sósíalistarnir hér í Reykjavík, hafa ekki getað staðizt þá freistingu að hafa nokkurn „arð“ af þessum afurðum bænda, í skjóli samstjórnar við Framsfl., og nú kviknar eldur og brennur bál, ef talað er um að hrófla nokkuð við slíku.

Í viðbót við það, að þegar í byrjun þ. á. var farið svo með ráðin, sem alkunnugt varð, að líka bezti mjólkurmarkaður landsins, höfuðstaðurinn, stórskemmdist og verður ekki um yfirsjáanlegan tíma bættur svo sem ella hefði mátt, og þar af leiddi, að þessar afurðir bændanna urðu að miklum hluta verðlausar, og hefir síðan fram að þessum tíma verið sent heim meira og minna af þeim sem ómeti til sjálfra framleiðenda, til borgunar upp í mjólk þeirra (nýmjólkina), er til mjólkurbúanna fer, — þá hafa nú þau ódæmi komið til, sem kunn munu orðin öllum landsmönnum, að forráðamennirnir, þjónar núv. stj., hafa (að því er virðist af flokkslegri ósvífni) hafnað tilboði um stórkostlega lækkun á útsölukostnaði mjólkurinnar hér í bænum, en sú lækkun hefði þýtt mikla hækkun á verði til bænda, framleiðendanna, sem allir þykjast þó vera að hrópa á!

Af því, sem nú hefir verið fram talið, sumpart í stórum dráttum og sumpart í einstökum atriðum — og er þó aðeins gripið niður þar, sem verulega er hnotið um í framkvæmdum og ráðslagi í atvinnumálum þjóðarinnar, — getur jafnt þeim öllum, sem byggja í bæ og í sveit, á grasinu og á mölinni, orðið það við sjálfs sýn óyggjandi, að þeir flokkar, sem nú fara með völd í landinu, eru í hverju einu, sem afkomu þjóðarinnar varðar, óalandi og óferjandi.