29.11.1935
Neðri deild: 86. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1408 í B-deild Alþingistíðinda. (2347)

164. mál, skipun barnakennara

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég hefi ekki getað fylgzt með þessari umr. málsins.

Í þessu frv. er lagt til að fella niður þá heimild, sem nú er í l., að setja megi menn í kennarastöður, þó að þeir hafi ekki próf frá kennaraskólanum, og verði menn því að hafa kennarapróf til að geta fengið stöðu við opinbera skóla, einkaskóla eða smábarnaskóla.

Nú er mér ekki vel kunnugt um það, hvort menntmn., sem hefir fengið þetta mál til meðferðar, hefir kynnt sér til hlítar, hvernig er ástatt í þessu efni, og þá í fyrsta lagi það, hvert hlutfallið er milli tölu þeirra kennara, sem hafa prófréttindi, og hinna, sem ekki hefðu kennsluréttindi samkv. þessum ákvæðum. Ég tel sjálfsagt að kynna sér þetta, áður en frv. er afgr. Það mun láta nærri, að tala þeirra manna, sem hafa prófréttindi, samsvari þeim fjölda, sem er af kennarastöðum í landinu, en margir af þessum mönnum munu hafa bundið sig við önnur störf og munu því alls ekki hugsa til að taka að sér kennslustörf, enda hefir ekki verið unnt í mörgum farskólahéruðum að fá kennara með prófréttindum, og hafa því verið settir þar til bráðabirgða menn, sem eru próflausir eða ólærðir. Ég vil skjóta því til n., ef hún hefir ekki fengið upplýsingar um þetta, hvort hún sjái ekki ástæðu til að taka til athugunar, hversu margir af þeim, sem ekki hafa rétt til að gegna kennslustörfum samkv. þessum ákvæðum, kenna nú við skóla til bráðabirgða. Ég geri ráð fyrir, að eitthvað sé til af þeim, og má búast við, ef þeir hafa reynzt vel, að þeir fengju skipun bráðlega. Í þessu sambandi væri þá líka rétt að athuga, hvort ekki væri rétt að fresta gildistöku l., t. d. til 1. okt. næstk., því að þá yrði væntanlega búið að fá upplýsingar um þetta atriði.

Ég veit ekki, hvort n. vill fallast á, að þessari umr. sé frestað, og geri ég það ekki að kappsmáli, því að segja má, að menntmn. Ed. gæti á sama hátt gert þetta. En verði frv. afgr. frá þessari d. eins og það liggur nú fyrir, mundi ég reyna að fá því breytt í Ed., eftir því sem nauðsynlegt teldist. Vil ég svo heyra álit hv. frsm. um þetta.