29.11.1935
Neðri deild: 86. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (2353)

164. mál, skipun barnakennara

Eiríkur Einarsson [óyfirl.]:

Það þarf ekki að verða langt mál, sem ég ætla að segja. Hv. 2. þm. Árn., sem er frsm. menntmn., mælir með frv. og svaraði mér hér nokkrum orðum. Ræða hans var, eins og hans var von og vísa, hóglátleg. Það hefir, eins og búast mátti við, úr því að margir fóru að ræða þetta mál, komið fram, að mörgum hættir við að leiða mál eins og þetta út fyrir þann ramma, sem því hefir verið ákveðinn með því dagskrármáli, sem fyrir liggur. Menn hafa farið að tala um aðstöðu kennara yfirleitt, kost þeirra og galla — langt út fyrir takmörk frv. ég verð að segja, þegar minnzt er á kjör kennara og þær kröfur, sem þeir gera, þá get ég ítrekað það, sem ég sagði áðan, að kennarastéttin yfirleitt, miðað við dýrtíðina og þau erfiðu kjör, sem menn búa nú við yfirleitt, verði eftir atvikum að sætta sig við þau kjör. Það að vera farkennari með tiltölulega dýrri sérmenntun, er að vísu ekki álitlegt, en hitt er annað mál, að þegar verið er að tala um kröfur til betri afkomu, þá verður að greina á milli þess, hvaða kjör væru æskilegust og hvað hægt er að veita þeim, sem til starfans eru valdir. En tala kennaranna verður eftir því, hve mörg rúm eru á skipinu og eftir því, hvort þröngsýni eða víðsýni ráða því, hverjir megi bjóða sig til kennslustarfa. Ég held því fram, að menn eigi að vera það tiltölulega frjálslyndir og einskorða sig ekki um of við sérmenntun, með tilliti til þess, að sá dagur getur komið, að stéttirnar fari að verða dálítið upp með sér og fari að gera kröfur um að fá að njóta sín sérstaklega í þjóðfélaginu. Við það er það að athuga, að stéttirnar eru til fyrir heildina, en heildin ekki fyrir stéttirnar. Það er mergurinn málsins bæði fyrir kennarastéttina og aðra, og ef þær eiga á annað borð tilverurétt, þá er það vegna þarfar þjóðfélagsins fyrir þær. Ég segi ekki, að þetta eigi við kennarastéttina frekar en hverja aðra stétt þjóðfélagsins. Það kom fram í orðum hv. 2. þm. Árn., og hann játaði og sagði blátt áfram, að stéttabaráttan væri orðin mjög hörð. Þetta er ákaflega mikið íhugunarefni, að þetta skuli vera þannig, að þeir menn, sem eiga að kenna börnum, heyi einnig harða stéttabaráttu. Ég álít, að það sé taumhald á sjálfum sér, sem þeir þurfi að hafa, sem þá stétt skipa, og að þeir þurfi að gæta svo mikils jafnvægis, að þar geti ekki verið um neina stéttabaráttu að ræða. Það hugtak á að vera gert útlægt úr íslenzku þjóðlífi. Ég álít, að þar eigi réttlætiskenndin að vera svo mikil, eins og kannske hjá öðrum starfsmönnum þjóðarinnar, að þeir eigi ekki að heimta meiri starfslaun en að þeir geti séð sér og sínum farborða. Þá er það, þó að það lúti ekki beinlínis að þessu, þá er gott að hafa það til hliðsjónar, sem hv. 2. þm. Árn. nefndi, að nú á tímum eru það fjölmargir æskumenn, sem hafa freistað að afla sér sérfræðináms, enda nýlega búið að koma upp tveimur menntaskólum hér á landi. En hvað fá svo þessir menn að gera að náminu loknu? Það er auðvitað ekki hægt að neita því, að margir þeirra taka sér ýmislegt nytsamlegt fyrir hendur sem framhaldsnám, en eins mikill hluti þessara námsmanna virðist ekki stefna að neinu sérstöku marki. Mörgum hamlar fjárskortur frá framhaldsnámi, enda þótt þá langi til að leggja inn á einhverjar sérfræðibrautir. Það gæti því vel komið til mála, að það yrði hlutskipti þings og þjóðar að styrkja þessa menn eitthvað til slíks náms. Á hinn boginn gæti af því leitt, að af þessu spryttu upp of margir skólar, sem gætu ungað út of mörgum mönnum með sérmenntun. Það er vitanlegt bæði með stúdentsnám og eins með kennaranám, að það er ágæt menntun hvort um sig og yndislegt fyrir áhugasama námsmenn að afla sér slíkrar menntunar, en það er bara svo langt nám, að það má telja, að minna megi nægja fyrir fátæka foreldra. Fyrir börn, sem ætla að gegna almennum borgarastörfum í þjóðfélaginu, og eins fyrir efnalítil, námfús börn, höfum við alþýðuskólana, og er þar úr ýmsu að velja. Svo er nú fyrir þakkandi, að allflest börn eiga heimili, sem kenna þeim til að byrja með, og því betri sem heimilin eru, þess betra verður uppeldið og fullkomnari fræðslan, sem börnin fá. ég hefi þá skoðun, að heimilin eigi að vera kennarinn sem allra lengst, því að það verður bezti skólinn. En því miður hamlar það mörgum heimilum í þessu efni, að foreldrarnir, einkum þeir eldri, sem hafa fengið uppeldi sitt og menntun áður en fræðslul. gengu í gildi, eru þess ekki umkomin að veita börnum sínum nægilega fræðslu, og þá er svo fyrir þakkandi, að til er unglingafræðsla í landinu, sem tekur við þar sem heimilin þrjóta. Ég hjó eftir því áðan og mér líkaði ekki, að slíkt skyldi koma fram í umr., — ég held, að það hafi verið hv. 2. þm. Árn., sem sagði, að þeir kennarar hefðu verið notaðir til barnafræðslu, sem jafnvel voru sveitarómagar. Þetta er víst alveg rétt, að sveitarómagar voru notaðir til barnakennslu, en það segir okkur bara það, að á sveitina komst margt af öldruðu fólki, sem átti við bág kjör að búa, en voru nýtilegir menn og lögðu sig alla fram til að kenna börnum og fræða þau; og svo var álit manna oft og tíðum mikið á þessu fólki, að það var leitað til þess með börn, sem voru tornæm og óstýrilát, svo að þetta, að það hafi verið fólk, sem átti við óhagstæða aðstöðu í mannfélaginu að búa, segir ekkert um það, að fræðslan hafi ekki getað verið góð í þeirra höndum, heldur að þetta hafi verið menn, sem ekki nutu þess tilstyrks, sem þeir áttu skilið í mannfélaginu. Það er einmitt þetta, að mér finnst hér ekki vera gætt hæfilegs frjálslyndis, að ætla endilega að útiloka alla einkaskóla og smábarnaskóla og að heimilin megi ekki vera með í ráðum um kennsluna og einskorða kennarana við lærða skólamenn. Ég segi alveg eins og mér þykir og eins og hér hefir komið fram við umr., að stéttin sé farin að gera kröfur.

Annað atriði er það, sem ég læt hér óumsagt, hve réttmætar þessar kröfur eru, en maður hefir heyrt, að hér væru pólitískar skoðanir að verki í stéttarfélögunum. Ég þekki ekkert til þessa, en sé það rétt, þá er það út af fyrir sig nóg ástæða til þess, að fólk fari varlega og haldi opnum útgöngudyrum, svo að það frelsi, sem hingað til hefir ríkt í þessu efni, megi haldast. — Ég hefi forðazt að nefna einstök atriði, en vildi aðeins tala um þetta mál almennt. Þó vildi ég geta um eitt atriði í þessu sambandi, sem lýtur beint að afkomu þjóðarinnar. Með fræðslul. 1907 var raunverulega það spor stigið, sem gerði tvær stéttir þjóðfélagsins úr einni, og þar með tvöföld launakjör. Stéttin veit og allir, hvað ég á þar við, því að yfirumsjón barnafræðslunnar höfðu prestarnir. Ég skal ekki dæma um það, hvort hentugt hafi verið að láta þá hafa þetta áfram. Ég veit, að með fræðslul. var stigið stórt spor í áttina til aukinnar fræðslu, og það gildir sérstaklega um umkomulítil börn, sem lítils eiga úrkostar. En hinsvegar er það spursmál, sérstaklega í strjálbyggðum sveitum, hvort annarihvorri af þessum tveim stéttum sé ekki ofaukið. Ég vil bara með þessu vekja athygli á því, hvort ekki sé kominn tími til að endurskoða fræðslul. yfirleitt. Það getur náttúrlega verið spursmál, hvort prestarnir með sínum kreddukenningum henti til þess að vera leiðtogar barnanna, en maður hlýtur að svara því þannig, að ef það eigi að halda þeim uppi á launum til að hafa kirknagæzlu á hendi, þá hljóti þeir að vera færir til að kenna börnum. En ef niðurstaðan yrði nú sú, að slík fræðsla eigi ekki rétt á sér, og ef prestunum er ofaukið, því þá að vera að setja kirkjuna á vetur? Ég veit, að þetta er ekki til umr. hér í dag, en ég veit, að sá tími kemur, og það heldur fyrr en síðar, að alþm. verði yfirleitt að gera upp við sjálfa sig, hvora leiðina þeir ætli að ganga.

Ég get nú látið máli mínu lokið, en mér þykir vænt um, að þetta mál hefir verið vakið til umr. hér á Alþ., því að þó að frv. sé sanngirnisatriði stéttarinnar, miðað við þá aðstöðu, sem stéttin á við að búa, þá eru það mörg atriði og m. a. þessi ófrjálslyndiskrafa, sem mæla á móti frv.