14.12.1935
Efri deild: 95. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1434 í B-deild Alþingistíðinda. (2377)

164. mál, skipun barnakennara

Guðrún Lárusdóttir:

Það er eingöngu vegna þess, að ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, að ég ætla að segja nokkur orð. Þessi fyrirvari þýðir ekki það, að ég sé á móti frv. því, sem hér liggur fyrir. Ég skil það vel, að kennarastéttin í heild vilji varðveita réttindi sín og ganga svo frá þessum málum, að girt sé fyrir það, að þeir fáist við barnakennslu, sem ekki eru til þess hæfir.

En það, sem gerði það að verkum, að ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, var það, að mér virtist í fljótu bragði, að dálítið væri þjappað að því fólki, sem hefir með höndum smábarnakennslu. Eins og allir vita, þá eru það ýmsir, einkum einstæðingskvenfólk, sem hafa unnið fyrir sér á þann hátt, að hafa smábarnaskóla. Margt af þessu fólki hefir ekki þá menntan, sem áskilin er samkv. frv. því, er hér ræðir um, til þess að kenna börnum, en hefir þó rækt þetta starf vel, enda finnst mér, að ekki þurfi beinlínis að ganga í kennaraskólann til þess að kenna krakka að stafa eða draga til stafs. En það er ekki annað en þetta, sem smábarnaskólarnir hafa með höndum. Mér hefir virzt dálítið takmarkað leyfi þessa fólks. En ég sé nú, að í 2. gr. frv. er fræðslumálastjórninni heimilt að veita undanþágu fólki, sem fullnægir skilyrðum þeim, sem þar eru sett, svo að þetta er ef til vill ástæðulaus ótti.

Ennfremur verð ég að segja, að mér finnst það dálítið einkennilegt að setja þeim mönnum, sem tekið hafa stúdentspróf, það skilyrði, að þeir gangi á kennaraskólana einn vetur, ef þeir ætla að hafa ofan af fyrir sér með barnakennslu um tíma. Ég hygg þó, að þeir, sem tekið hafa stúdentspróf, hafi sambærilega menntun við þá, sem setið hafa 3 vetur í kennaraskólanum. En ég þykist sjá, að tilgangur kennaranna með þessu sé sá, að herða á rétti sínum og girða fyrir það, að fleiri fari inn á þetta svið en þeir sjálfir vilja vera láta.

Ég tel mig þá hafa gert nægilega grein fyrir fyrirvara mínum, og læt því útrætt um þetta mál.