18.03.1935
Efri deild: 28. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (2387)

81. mál, Háskóli Íslands

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég vil aðeins bæta fáum orðum við það, sem hv. frsm. sagði. Í frv. þessu er eitt mikilsvert atriði, sem betur er samþ. á þessum þingparti en hinum síðari, en það er breytingin á skólaárinu. Kennarar skólans munu almennt á einu máli um það, að breyt. þessi yrði til bóta að því er snertir sumaratvinnu piltanna. Enda er hún nú komin á í menntaskólanum.

Í sambandi við tillöguna um, að rektor skuli kosinn til 3 ára í senn, vil ég geta þess, að síðan hún var samin hefir komið fram ný hugmynd, að kjósa sérstakan framkvæmdastjóra fyrir háskólann til 8—10 ára. Þetta er víða gert erlendis, og er maður þessi kallaður „kanslari“. Yrði horfið að því ráði að gera þessa breyt., þá yrði það sennilega einn af prófessorunum, sem valinn yrði til þessa starfs. Hann myndi þá búa í háskólanum og verða nokkurskonar yfir-Garðprófastur.

Ef þessi hugmynd kæmist í framkvæmd, þá væri engin ástæða til að lengja kjörtímabil háskólarektorsins. Það mætti þá vera eins og það hefir verið að undanförnu, að rektorsstaðan vari virðingarstaða fyrir prófessorana til skiptis. Till. í frv. um að lengja kjörtímabil rektorsins er sett til þess að gera stjórn háskólans fastari. Ég býst því við samkv. framansögðu, að réttara verði að koma með till. um rektorskosninguna, að hún skuli bundin því, sem háskólinn eða Alþingi kynni að kjósa í þessum efnum.