04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

1. mál, fjárlög 1936

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég verð að fara fljótar yfir sögu en ég hefði kosið. Vil ég fyrst svara nokkru þeim orðum, sem hv. þm. V.-Sk. beindi til mín sérstaklega, einkum út af framkvæmd tveggja einkasalna. Hann gagnrýndi rekstur Raftækjaeinkasölunnar og fann fyrst að því, að starfsmannahald væri þar óvenjulega mikið, meira en hjá þeim þremur heildsölufirmum, sem áður voru starfandi í þessari grein. Það er rangt. Starfsmannahald einkasölunnar er sízt meira. Auk þess er þessi samanburður hans út í loftið, því að þó að fjöldinn væri meiri, þá sannar það ekkert, því að einkasalan hefir meira vörumagn en þessi firmu höfðu. Þá sagði hann, að starfsmenn þessa fyrirtækis væru valdir með það fyrir augum, að hlynna að stjórnarliðinu og að von væri þangað á fleirum úr herbúðum stj. Þetta fyrirtæki upplýsir nú einmitt vel, hvernig ríkisstj. velur starfsmenn sína, og því fer ég frekar út í þetta mál. Menn ættu að bera sannleikann í þessu efni saman við það, sem myndi hafa orðið hjá Sjálfstfl. hefði hann verið í stj. Við þessa einkasölu hefir verið fylgt þeirri reglu að láta þá sitja fyrir vinnu, sem áður voru starfandi í þessari grein, og hefir ekki á neinn hátt verið farið eftir stjórnmálaskoðunum. Ég held, að óhætt sé að segja, að þó nokkrir andstæðingar stj. starfi þar, og er ekkert við því að segja. Það er aðeins leitt, að stjórnarandstæðingar skuli vera að bera á stj. upplognar sakir í þessu efni.

Þá talaði hv. þm. um laun þessara manna. Þau eru nú svipuð þeim launum, sem þeir höfðu áður við þau fyrirtæki, þar sem þeir störfuðu. En þar sem þessum launum hefir verið breytt, hefir það alltaf verið í þá átt að lækka þau.

Þá eru ásakanir hans um það, að þessi einkasala hlynni sérstaklega að viðskiptum við A. E. G. í Þýzkalandi á óheiðarlegan hátt. Ætti hv. þm. að endurtaka þessi ummæli sín utan þinghelginnar, svo að hlutaðeigendum gæfist kostur á að bera af sér sakir. Eftir því, sem mér er tjáð, er enn sem áður aðallega skipt við tvo þýzk firmu, sem sé A. E. G. og Siemens, og þau hafa jafnrétti í viðskiptunum.

Þá hefir það verið látið í veðri vaka, að einkasala þessi hafi verið tekin upp eftir beiðni þess manns, sem nú er forstöðumaður hennar. Þetta er fjarri öllu lagi. Til þess að fá hann til að taka að sér forstöðu fyrirtækisins þurfti ég að leggja að honum, og síðan hefir hann oft beðið mig að leysa sig frá starfinu. Liggur það nú fyrir mér til athugunar, hvað ég geti gert til að verða við þeim óskum hans.

Þá er sagt, að einkasalan hafi hækkað vöruverðið og brotið l. að þessu leyti. Ég get upplýst, að þetta er tilhæfulaust. Verði á þessum vörutegundum hefir verið haldið svipuðu og áður var, hafi ekki orðið verðbreytingar á erlenda markaðinum eða því um líkt. En um þetta er auðvitað hægt að fá fullar upplýsingar. og hefði hv. þm. í þessu efni getað snúið sér til flokksbróður síns, hv. 3. þm. Reykv., sem á að hafa þarna eftirlit, þó að hlálegt verði að teljast að setja hann sem eftirlitsmann, með tilliti til fortíðar hans í því starfi. En þó hefir það verið gert. Hann ætti að snúa sér til þessa flokksmanns síns, sem átt hefir aðgang að öllum bókum og skýrslum einkasölunnur.

Þá minntist hv. þm. á bifreiðaeinkasöluna. Sagði hann, að gúmmí hefði hækkað óeðlilega í verði hjá henni og að hún hefði okrað á því. Ég hefi nú fengið upplýsingar um þetta frá forstöðumanni einkasölunnar. Hann segir í bréfi til mín, dags. 25. nóv. 1935:

„Áður en einkasalan tók til starfa, voru seldar hér á landi mjög margar tegundir af hjólbörðum, en enginn kaupmaður gaf út verðlista, né hélt föstu verði á þeim og seldi einum það á allt öðru verði en öðrum, án tillits til þess, hvort um mann, sem átti margar bifreiðar, var að ræða eða ekki. Auk þess hafa firmun, sem áttu gamlar birgðir, viljað losna við þær sem fljótlegast og því sett niður verðið á undanförnum mánuðum, enda hjá mörgum ef til vill um gamla vöru að ræða, en hjólbarðar þurfa að geymast mjög vandlega, ef um lengri tíma er að ræða, því annars er hætta á, að þeir skemmist.“

Ennfremur segir hann, að aðallega hafi verið skipt við ítalskt firma, Pirelli, sem áður var búið að fá sambönd hér. Hafði verið samið við þetta firma um verð, og hefir það verð að mestu haldizt, að öðru leyti en því, sem verð hefir breytzt á heimsmarkaðinum. Um þetta segir forstöðumaðurinn:

„Verksmiðjan veitti oss sömu skilmála og fyrri umboðsmönnum sínum, og óskaði fastlega eftir, að vér héldum sama útsöluverði og hún hafði ákveðið gagnvart þeim, og það höfum vér gert. Þetta er sá eini beini samanburður, sem vér getum sýnt á verði nú og áður en vér höfum sölu, og sýnir hann, að vér höfum ekki hækkað verðið með álagningu, heldur stafar verðhækkunin af nýrri verðhækkun á markaðinum.“

Af þessum ástæðum hefir orðið nokkur verðhækkun hjá einkasölunni.

Hvað því viðvíkur, að verð hafi hækkað á bifreiðum, þá eru það ósannindi, samkv. upplýsingum forstjórans. Ég skora á hv. þm. að sanna, að bifreiðar hafi hækkað í verði um 3—400 kr. Hv. þm. hleypur hér með fleipur, sem óhlutvandir hafa sagt honum, og bætir sjálfur við.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að hv. þm. V.-Húnv. Hann notaði tækifærið til að reyna að læða því inn hjá hlustendum, að stj. hefði bolað mönnum frá því að nota til hlítar þýzka markaðinn fyrir landbúnaðarafurðirnar. Hann sagði, að stj. héldi því fram, að ekki væri hægt að selja íslenzkar landbúnaðarafurðir til Þýzkalands, af því að verðið á þýzkum vörum væri of hátt til þess, að hægt væri að kaupa þær, hér er öllu snúið við. Sannleikurinn er, að stj. hefir einmitt bundið innflutningsleyfin að miklu leyti við kaup í Þýzkalandi, jafnvel þó að verð væri þar allt að 25% hærra en annarsstaðar, og þetta hefir hún gert til þess að skapa möguleika fyrir sölu á landbúnaðarafurðum til Þýzkalands. Stj. hefir jafnvel lagt kvaðir á neytendur til þess að þetta mætti takast.

Þá talaði hv. þm. um bitlinga þá, er stj. veitti og nefndi hann 2 dæmi. En hann var óheppinn í vali sínu. Hann sagði, að Guðbrandi Magnússyni forstjóra áfengisverzlunarinnar hafi verið greiddar 6000 kr. fyrir vinnu vegna máls, sem höfðað var á verzlunina. Þessar greiðslur voru í samræmi við samning, sem fyrrv. ríkisstj. hafði gert við Guðbrand Magnússon. Hv. þm. gleymdi að geta þess, að fyrir meðferð þessa máls fékk hv. 2. þm. Rang., Pétur Magnússon, 30000 kr. greiddar úr ríkissjóði, samkv. ákvörðun þáv. ríkisstj. og þáv. dómsmrh., Magnúsar Guðmundssonar. Þá sagði hann, að stofnað hefði verið nýtt embætti við áfengisútsöluna í Reykjavík, og var það annað dæmið. Það stendur til, að skipt verði um mann við áfengisverzlunina, því að sá er orðinn sjötugur, sem frá fer. En af því að hann óskaði eftir að fá að halda starfinu til áramóta, var það samþ., með því skilyrði, að hann veitti öðrum manni atvinnu við ákveðið fyrirtæki þangað til. Þetta kemur ríkissjóði ekkert við, og þessi greiðsla fer ekki fram úr ríkisins vasa, heldur af fé því, sem þessi maður fær fyrir sín störf. Stj. kemur það ekki við, þó að annar maður taki part af hans launum. Sá, sem á að taka við stöðunni síðar, situr nú við lakari kjör en hann hefði getað haft.

Út af öllu skrafinu um afstöðu stj. til sparnaðarmálanna vil ég nefna nokkur dæmi. Stj. fékk gott tækifæri til að sýna sinn góða vilja, þegar skipt var um bankastjóra við Búnaðarbankann. Fyrrv. bankastj. hafði 19000 kr. fyrir bankastjórnina og 7200 kr. fyrir stjórn kreppulánasjóðs, eða alls 26200 kr. Þegar núv. stj. ráðstafaði þessu embætti, lækkaði hún þessi laun niður í 12000 kr. Þá hefir stj. sett á stofn aðra einkasölu án þess að stofna nokkurt nýtt forstjóraembætti. Hefir það verið lagt undir forstjóra annars fyrirtækis. Þá fékk stj. því framgengt á Alþingi, að dýrtíðaruppbót opinberra starfsmanna var lækkuð um 70 þús. kr. Var það barið fram gegn vilja Sjálfstfl. Nú stendur til að framkvæma frekari sparnað eftir till. fjvn., þannig að allur sparnaðurinn mun nema nálægt 200 þús. kr.

Þá tók hv. 3. þm. Reykv. að sér að ræða um hinar miklu álögur stj. og skattpíningar. Efnið í ræðu hans var þetta, að „gráðugir vargakjaftar seilist eftir auknum sköttum og tollum fyrir ríkissjóð.“ Það hefði vafalaust verið betra fyrir Sjálfstfl. að velja annan mann til þess að standa fyrir máli hans hér. En ég vil taka það fram, að með sköttum þessum og tollum, sem stj. hefir lagt á, er ekki stefnt að hækkuðum álögum á þjóðina í heild. hér er ekki verið að hækka heildartekjur ríkissjóðs, heldur aðeins leitazt við að halda í horfinu. Tollarnir koma ekki af því, að búið sé að skattpína einstaka menn, þannig, að þeir hafi bilað, heldur af hinu, að innflutningur hefir minnkað, og því varð að hækka tollana. En í sambandi við allt skraf sjálfstæðismannanna væri fróðlegt að athuga, hvernig þeir myndu fara að, et þeir hefðu þessi mál í höndum. Hvernig var það um afgreiðslu fjármálanna seinast þegar sjálfstæðismenn voru í samstarfi um stjórnarmyndun? Ég veit ekki betur en þessi hetja lyppaðist þá algerlega niður og greiddi atkv. með hverjum einasta útgjaldalið og aflaði tekna í ríkissjóð með því að hækka skatta á þrautpíndum atvinnuvegunum. En útgjöldin urðu þá svo há, að þrátt fyrir allar skattaaukningar var ríkissjóður rekinn með halla og skuldir hans auknar. Hvar voru þá öll stóryrðin? Og hvar var þá mál málanna? Því var öllu fórnað fyrir það að fá að láta einn mann lafa í ríkisstjórn í tvö ár.

Þá kem ég að því, hvers vegna hv. 3. þm. Reykv. hefði ekki átt að fara með það hlutverk að tala um þessi mál. Það er af því, að hann er form. í þeim hluta Sjálfstfl., sem á sæti í bæjarstj. Rvíkur. Það er nú fróðlegt að athuga þar afstöðu þessa manns, sem leyfir sér að kalla það skattpíningu að halda við tekjum ríkissjóðs, og leyfir sér að líkja þeim mönnum við rándýr, sem vilji tryggja ríkissjóði sömu tekjur og áður. Hann hlýtur að hafa mjög sterka aðstöðu, þar sem hann er höfuð þessa flokkshluta — þótt hann fengi ekki að verða borgarstjóri, af vissum ástæðum. — Hann hlýtur að hafa gætt þess vel, að þar væri ekki farið fram á hækkun á sköttum. — Ef nú er litið á staðreyndirnar, þá verður dálítið annað uppi á teningnum, og þá fer að verða lítið úr öllum stóryrðunum um vargaklær og annað þess háttar. Ef litið er á bæjarreikningana fyrir árið 1929, og það miðað við það, sem Sjálfstfl. nú undir forystu þessa hv. þm. fer fram á að fá í heildartekjur handa bæjarsjóði, þá kemur það í ljós, að útsvörin hafa hækkað um 91% frá því sem þau voru á árinu 1928, og í raun og veru er hækkunin miklu meiri en þessu nemur, vegna þess hve tekjustofnar hafa rýrnað og útsvörin eru lögð á minni tekjur. Ég hugsa, að útsvörin hafi hækkað raunverulega tvöfalt meira heldur en virðist samkv. heildarupphæð útsvaranna.

Nú hlýtur það að vera svo, að þessar drápsklyfjar, sem lagðar eru á borgarana, séu eingöngu vegna afarnauðsynlegra mála. Þar kemur auðvitað ekki til mála, að nokkru liði sé haldið uppi eða nokkrum eyri sé eytt nema með sérstakri ráðdeild. Þar hlýtur t. d. að vera gætt ýtrasta sparnaðar í launagreiðslum, þar sem það er sameiginlegt áhugamál allra skattþegna, að farið sé sparlega með fé. Þetta hlýtur að standist, að þar, sem sjálfstæðismenn hafa farið með völdin í 3 ár, hafi ekki verið haldið upp bitlingum eða haldið uppi óhóflegum launagreiðslum, þvert á móti þeirra stefnu í fjármálum. Ef ég fer nú að rifja þetta upp nokkru nánar, þá stenzt þetta þannig, að því er enn greidd sama dýrtíðaruppbót eins og hún var hæst, en á sama tíma hefir eyðsluhítin í ríksstj. fellt niður dýrtíðaruppbót af þeim launum, sem eru yfir 4500 krónur. Ef ég svo tek dæmi um nokkrar launagreiðslur, þá kemur í ljós, að borgarstjóri hefir 17 þús. króna árstekjur, en ráðherra hefir 10 þús. krónur. Rafmagnsstjóri hefir 22—26 þús., en landssímastjóri, sem hefir miklu umfangsmeira embætti, verður að láta sér nægja að vera hálfdrættingur við hann, og því er till. frá fjvn. nú á Alþ. um að lækka á honum um 2 þús., en Guðbrandur Magnússon hefir ekki nema 8700, og stjórnar þó fyrirtæki, sem veltir millj. Hafnargjaldkeri hefir 7200 kr., en gjaldkeri ríkisins verður að láta sér nægja 4950 kr., og svona mætti halda áfram að telja alveg endalaust. En þetta er ekki nóg. Á sama tíma og ríkisstj. hefir fækkað starfsmönnum og lækkað laun, hefir hér í Rvík verið haugað upp nýjum stöðum. Auðvitað hafa allar þessar nýju stöður verið auglýstar til umsóknar, og ekki hefir verið farið eftir pólitískum skoðunum við veitingu þeirra eða svo mætti ætla. — En sannleikurinn er nú sá, að engar af þessum stöðum hafa verið auglýstar, og því síður veittar öðrum en kosningasmölum íhaldsins.

Ég gæti sagt margt af svipuðu tægi, en ég skal að lokum aðeins benda hv. þdm. á það eitt, hvernig komið væri málum á Alþ., ef þar væri rekin samskonar ránspólitík eins og hv. 3. þm. Reykv. hlýtur að álíta, að rekin sé af bæjarstj. Rvíkur — ef nú væri farið fram á það, að skattþegnar landsins greiddu 91% hærri gjöld í ríkissjóð heldur en þeir gerðu árið 1929. Ég veit ekki, hvort menn hafa gert sér grein fyrir því, hverjar kröfurnar yrðu, ef ríkisbúið væri rekið eftir sömu grundvallarreglu eins og hv. 3. þm. Reykv. og flokksmenn hans hafa í bæjarstj. Rvíkur. Útkoman yrði sú, að í stað þess, að nú eru tekjur ríkisins áætlaðar 15 millj. á fjárlagafrv. fyrir næsta ár, þá ætti að heimta 31 millj. kr. af skattþegnum landsins, ef ríkisstj. ætti að standa jafnfætis þeim, sem nú fara með fjármálastjórn Reykjavíkurbæjar.