04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

1. mál, fjárlög 1936

Ólafur Thors:

Áður en ég sný mér að málefnunum, ætla ég aðeins að víkja að ræðu hv. 9. landsk. (SE), mannsins, sem í útvarpsumræðunum í fyrra hlaut nafnið „vitlausi maðurinn í skutnum“. Hann tók sér fyrir hendur að snúa út úr ræðu þeirri, er ég flutti í gær, rangfæra orð mín og leggja síðan út af því. En auðvitað stendur ræðan óhögguð eftir sem áður. Ég mundi því hafa látið nægja að vísa til hennar og að öðru leyti hafa leitt glamur þessa þm. hjá mér, ef hann hefði ekki verið með persónulegar svívirðingar í minn garð. En af því að hann lét það eftir sér, ætla ég að láta hitt eftir honum, að svara þeirri einu fyrirspurn, sem hann beindi til mín.

Hv. þm. spurði, hvort ég teldi nokkrum manni það til framdráttar að svíkjast aftan að. Ég tel ekki, að svo sé þegar til lengdar lætur, en ráðlegg þessum þm. að snúa sér til manns, sem einu sinni var sjálfstæðismaður — sveik flokkinn og sveikst aftan að honum, varð framsóknarmaður og fékk kennarastöðu í leiðinni, sveik síðan Framsfl. og sveikst aftan að honum og varð sósíalisti og hlaut stöðu í útvarpinu og þingmennsku í kaupbætur.

Ég gat ekki hlustað á síðari hluta ræðu hv. fjmrh., og munu því aðrir svara henni.

Ég þarf ekki miklu að svara hv. forsrh., enda var málsvörn hans sannast sagna svo innviðarýr, að hún stendur varla undir sjálfri sér; Þannig var vörn ráðh. fyrir því gerræði hans sjálfs og mjólkursölunefndar að meina bændum að verða aðnjótandi 3 aura lækkunar á dreifingarkostnaði hvers mjólkurlítra, eða 150 þús. kr. á ári, sú, að gerilsneyðingargjaldið væri of hátt, — eða m. ö. o. af því að mjólkursölunefnd hefir gert óhagstæðan samning fyrir bændur um gerilsneyðingargjald, þá skuli hún líka skyldug til að gera a. m. k. ekki skárri samning um dreifinguna.

Þetta er svona álíka skynsamlegt eins og þau rök ráðh., að ekki megi fela bökurunum mjólkursöluna fyrir 2 aura lítrann, af því að einu sinni hafi þeir tekið af bændum 8 aura fyrir þetta sama, eða m. ö. o. af því að bakarar hafa einhverntíma verið of dýrseldir við bændur, þá megi þeir aldrei selja bændum við sannvirði.

Ráðh. taldi sig dauðadæma tilboð bakaranna með því að upplýsa, að í Englandi hefðu þeir, sem annazt hefðu mjólkursöluna, gert „stræku“, eins og hann sagði, og þá hefðu mjólkurframleiðendur orðið að taka söluna sér í hendur með samsölu. Ráðh. má ekki útmála verkfallsréttinn mjög hræðilega, vegna þess að sjálfur hefir hann og meiri hl. mjólkursölunefndar komið mjólkursölunni þannig fyrir, að enginn má koma nærri mjólkinni annar en sá, sem gerzt hefir meðlimur í Alþýðusambandinu og búinn er þar að læra allar listir verkfallsins. En þar næst er svo það að segja, að fordæmi Englendinga sannar nákvæmlega það þveröfuga við það, sem ráðh. ætlast til, því það sýnir einmitt, að okkur er alveg óhætt að fela bókurunum söluna í hendur, því ef þeir eftir á ætla að nota hana til að þrengja kost okkar, þá tökum við hana bara af þeim, eins og Englendingar af sínum bókurum.

Það var mjög athyglisvert, hvernig hv. atvmrh. talaði um atvinnumálin og atvinnuleysið.

Ég hirði nú ekki að deila við hann um, hvort atvinnuleysið hefir farið vaxandi eða minnkandi síðan stj. tók við völdum. En furðu djarfur þykir mér ráðh. vera, að hann skuli segja það í áheyrn alþjóðar, og þá auðvitað þar á meðal óteljandi manna, sem misst hafa atvinnuna síðan stj. tók við völdum og vegna aðbúnaðar stjórnarinnar í garð einkaframtaksins, að atvinnuleysið hafi sízt farið vaxandi, og læt ég þá atvinnulausu um að meta slíkar staðhæfingar og bæta þeim ofan á aðrar velgerðir stj. í þeirra garð.

Ekki þótti ráðh. þó bjart umhorfs í atvinnulífinu, en það sagði hann að væri að kenna hinni óheillavænlegu og banvænu stefnu, sem væri að ryðja sér til rúms hjá nágrannaþjóðunum. Þetta er nú náttúrlega að því leyti alveg rétt, að það er óheillavænleg og banvæn stefna, sem ryður sér til rúms, og það er líka rétt, að hún skaðar okkur. Þó sennilega muni meira verða en orðið er. En ég get ekki neitað því, að mér þykir ánægjulegt að heyra þennan hv. ráðh. tala svona digurbarkalega um hina óheillavænlegu og banvænu stefnu, vegna þess að það er sama stefna, sem bandaflokkur hans, Framsfl. í mörg ár hefir barizt fyrir, og hans eiginn flokkur hefir fylgt, þ. e. a. s. hafta- og bannstefnan, — sama stefnan sem við sjálfstæðismenn höfum barizt á móti með oddi og egg, meðan Íslendingar voru einráðir gerða sinna, en við höfum nú neyðzt til að samþ. vegna samninga við aðrar þjóðir, og það er okkur því gleðiefni, að einn af voldugustu fylgismönnum þessarar stefnu skuli nú hafa iðrazt synda sinna og játað trú sína á okkar skoðun í þeim efnum. Í þessu sambandi gat ráðh. þess réttilega, að horfur um saltfisksöluna væru daprar, og sýndi hann fram á, að við nú þegar værum búnir að missa fram að helmingi saltfiskmarkaðsins. Mér hefði þótt viðeigandi endir á þeim hluta ræðunnar, að ráðh. hefði sagt frá því, að flokksbræður hans hefðu nú lagt fyrir Alþingi frumv., sem þeir telja helzta frumvarp þingsins og aðalbjargræðið í viðureigninni við atvinnuleysið, frumv. um að stofna til lántöku og byggja 10 nýja togara. Það er ekkert smávægilegt bjargræði við atvinnuleysinu að ætla sér að stofna til dýrra lána erlendis, kaupa þar útgerðarvörurnar og nota svo íslenzkan vinnukraft til saltfiskframleiðslu. Þegar við erum búnir að missa hálfan saltfiskmarkaðinn, og verra er í vændum, og því ríkir fyrirfram full vissa um það, að ekki er hægt að selja einn einasta ugga af þessari nýju framleiðslu út úr landinu.

Nei, lýsing ráðh. er rétt, og þá um leið réttur dómur um það, að slíkur málaflutningur á Alþingi sem togarafjölgunin er ekkert annað en kosningaundirbúningur.

En annars var það náttúrlega sjálfstæðismönnum fullkomið gleðiefni, að helzti vonargeislinn, sem ráðh. sá framundan, var sá ávöxtur, sem hann bjóst við, að mundi verða af starfsemi hv. þm. Vestm. í samningum við Þýzkaland. og af nýfarinni sendiför þm. Snæf. til Suður-Ameríku. En að öðru leyti var flest, sem ráðh. sagði um atvinnubætur og atvinnuleysið, sagt út frá því sjónarmiði, að það væri ríkið, sem alla atvinnu ætti að annast. Það er náttúrlega auðleikinn leikur fyrir ríkið að útvega þess fleiri mönnum atvinnu, sem það ræðst inn á fleiri svið einkaframtaksins, en hitt er svo annað mál, hvort það með þeim hætti stendur betur undir atvinnuþörf fólksins en einkaframtakið, og það er þar, sem ráðh. og mig greinir á, eins og ég gerði ýtarlega grein fyrir í fyrri ræðu minni og hirði ekki um að endurtaka. En ég vil aðeins benda á það, að sá ráðh., sem heldur því fram, að það sé ríkið, sem fyrst og fremst eigi að leysa atvinnuþörfina, hann getur náttúrlega ekki ætlazt til, að ríkið út af fyrir sig fái hrós, jafnvel þó að það væri búið að taka hálfa þjóðina á framfæri, ef svo hinn helmingur þjóðarinnar sveltur, og þess vegna eru þessi dæmi, sem ráðh. nefnir, alveg máttlaus sönnunargögn. En hinsvegar tókst ráðh. að færa ágæt rök fram fyrir þeirri staðhæfingu minni, að ríkið væri búið að brjóta niður framfarahug einstaklingsins hér á landi. Hann skýrði nefnilega frá því í gær, að þá hefði verið veitt innflutningsleyfi á einum gömlum togara til landsins, og ætlaði ráðh. með þessu að afsanna mínar staðhæfingar. En ég veit nú eiginlega ekki, hvernig hægt er að færa fram sterkari rök fyrir því, að einkaframtakið sé eins og í álögum, en einmitt þau, að atvmrh. þjóðarinnar telur það slíkan viðburð í atvinnulífinu, að Íslendingar skuli ráðast í að kaupa einn gamlan togara, að hann telji ástæðu til að tilkynna þau gleðitíðindi allri þjóðinni gegnum útvarpið, þegar verið er að ræða höfuðviðfangsefni stjórnmálanna. Þetta sýnir einmitt átakanlega það, sem ég var að segja, að hér er það alveg hrein undantekning, et nokkur maður fæst til að hefjast handa. Að öðru leyti skal ég víkja nokkuð að stefnumun ráðh. og mín í sambandi við fjármálin. En áður en ég kem að þeim, þá vil ég aðeins spyrja ráðh. um það, hvort það hafi verið tilgangur hans að vera með hótanir um ofbeldi úr ráðherrastóli. Ráðh. sagði nefnilega frá því, að í minni stuttu ráðherratíð hefði ég komið hér á fót ríkislögreglu. Hún sagðist hafa lagt hana niður, og fullyrti, að ég mundi endurreisa hana strax og Sjálfstfl. kæmist að völdum. Ég minni nú ráðh. á það, að ríkislögreglan var sett á stofn í sambandi við viðburði dagsins 9. nóv. Ég minni á það, að meðan Sjálfstfl. er í stjórnarandstöðu, hefir ekki núv. ríkisstjórn talið neina þörf fyrir ríkislögreglu, og ég spyr um það, hvort hv. atvmrh. hafi með orðum sínum átt við það, að ef hann og hans flokkur lenti í stjórnarandstöðu, þá skyldi Sjálfstfl. vera neyddur til að hafa ríkislögreglu, m. a. til þess að vernda bæjarstj. og lögreglumenn bæjarins gegn stólfótum og öðrum bareflum. Hitt liggur í hlutarins eðli, að engir valdhafar fara að stofna til kostnaðar við ríkislögreglu að óþörfu.

Það er ekki nema eðlilegt, að stjórnarliðið hafi lagt aðal áherzluna á að reyna að verja síðustu og verstu gerðir sínar gagnvart þjóðinni, þ. e. a. s. hinar nýju og óbærilegu skattaálögur, enda hnigu ræður bæði fjmrh. og atvmrh. mjög að því. Og það er eftirtektarvert, hvernig vörninni er hagað. Sósíalistar kenna Framsókn um það, sem þeir telja verst í álögunum, en Framsókn kennir sósíalistum um það, sem þeir telja óbærilegast. Báðir skjóta sér inn undir það, að ef þeir hefðu sjálfir ráðið, mundi þetta hafa verið skárra, og báðir vinna þeir ekkert með þessu annað en það, að auglýsa sína sektarmeðvitund gagnvart þjóðinni. Enda er það sannast sagna furðuleg ofdirfska, að sósíalistar, sem gerðu skattamálin að miðdepli kosningaloforða sinna og lögðu höfuðáherzlu á að létta nauðsynjatollum af þjóðinni, skuli nú voga sér að leggja nýja 1200 þús. króna neyzlutolla á þjóðina, og hitt er varla þægileg aðstaða fyrir Framsfl. að ætla að hlaða þessum álögum á bændur, með þeim rökum, sem fyrir hendi eru.

Varnirnar eru eftir málstaðnum. Hv. fjmrh. gekk svo langt að staðhæfa, að þessi nýi tollur íþyngdi á engan hátt framleiðslunni, heldur bætti hann beinlínis fyrir framleiðendum, og hv. atvmrh. tók undir með fjármálaspekingnum. Þessar tilraunir til að blekkja þjóðina eru að því leyti ánægjulegar, að þær sýna, að stj. er orðið ljóst, að lengur er ekki hægt að hlaða á atvinnurekendurna, en hitt stendur eftir sem áður óhaggað, að auðvitað lenda allir skattar að lokum á framleiðslunni, sem og það, að þessi nýi verðtollur lendir auðvitað að því leyti þegar í stað og beint á framleiðslunni, að mjög margir framleiðendur til lands og sjávar þurfa að brauðfæða fjölda fólks í þágu atvinnurekstrarins.

Fjmrh. varð í fyrra víðkunnur út af kenningum sínum um innilokun kaupgetunnar. Hann hefir nú fundið upp annað snjallræði, sem meðal fjármálaráðherra heimsins mun ekki gera minni lukku, þ. e. a. s. að leggja skatta á þjóðina án þess að íþyngja atvinnuvegunum, og þykir mér líklegt, að einhverjar stórþjóðirnar fari nú að girnast þessa gersemi.

Fjmrh. var mikið upp með sér af því, að ég hefði sagt, að ríkissjóður hefði handbært fé, og í barnalegri einfeldni taldi hann, að með því hefði ég verið að hrósa honum, en aðrir menn skilja auðvitað, að glansinn fer af því, þegar það fylgir með, sem ég lét fylgja, að það er ríkissjóður einn, sem hefir fé handa á milli. Og sá fjmrh., sem heldur, að honum nægi til lofsamlegra eftirmæla að hafa notað þingmeirihlutann til þess hlífðarlaust að kreista og pína út peninga, þótt hann með því skilji við atvinnuvegina í rústum, — sá ráðh. sem heldur, að þetta nægi til lofsamlegra eftirmæla, hann sér skakkt, því þetta verður ásamt mörgu öðru, sem um þann ráðh. verður sagt, ef á annað borð nokkurntíma verður á hann minnzt, talið sem sönnun þess, hve óhæfur hann var til að gegna stöðu sinni.

Ég geri ráð fyrir, að hv. hlustendur hafi í gær veitt því athygli, að fjmrh. hefir týnt einni millj. úr útreikningum sínum, og held ég nú, að ég verði að fara í eftirleit og vita, hvort þessi milljón finnst ekki. Hv. ráðh. gat um það, að bæði tekju- og útgjaldahlið fjárlagafrumv. væru að upphæð 14.3 millj. Hann skýrði frá því, að fjárveitinganefnd væri búin að skera útgjöldin niður um 1 millj., og þá eru þau orðin 13.3 millj. Hann skýrði frá því, að ríkisstj. ætlaði aftur að hækka útgjöldin til tryggingamála og fleira, um eina millj., og þá eru þau aftur orðin 14.3 millj. Viðvíkjandi tekjunum upplýstist, að Áfengisverzlunin muni gefa eina millj. umfram áætlun, og eru þá tekjurnar orðnar 15.3 millj. Hinsvegar segist ráðh. vera hræddur um, að vegna versnandi árferðis muni tekjustofnar hrynja um eina millj., og þá milljón ætlaði hann að bæta upp með nýjum sköttum, svo að tekjuhliðin yrði eftir sem áður 13.3 millj. Samkv. þessu eru tekjurnar 15.3 millj., en útgjöldin aðeins 14.3 millj., og þannig millj. króna tekjuafgangur, og skattarnir þannig algerlega ónauðsynlegir. En þessu er nú því miður ekki svo farið, heldur hefir ráðh., eins og ég sagði, týnt einni millj., og það er satt að segja sú millj., sem hann áætlaði sjálfur fjárlögin vitlaust um. Þessa milljón, sem hann týndi í upphafi, fann fjvn. fyrir hann, en ráðh. er búinn að týna henni aftur, og nú er ég búinn að finna hana fyrir hann, og afhendi honum hana hér með, í þeirri von, að hann týni henni ekki aftur.

Ég skal svo víkja að aðalefninu, því, sem á milli ber í fjármálum. Stjórnin bendir á vaxandi atvinnuleysi í landinu og segir: Til að fyrirbyggja þann voða, þá verðum við að koma ýmsum málum í framkvæmd. Að þessu sinni er boðið upp á annarsvegar tryggingarmálin, og þ. á. m. atvinnuleysistryggingar, og hinsvegar 200 þús. krónur til nýbýla, og svo segir stj., að þeir, sem ekki vilji leggja nýja skatta á þjóðina, þeir séu á móti þessum málum.

Þetta er nú auðvitað með öllu rangt, því sérhver þjóð verður náttúrlega að hegða sér að því leyti eins og einstaklingurinn, að hún verður að neita sér um ýmislegt, sem þarflegt kann að vera, af því að hún hefir ekki efni á að leyfa sér það.

En hinsvegar er ég alveg óhræddur við að leita stuðnings, bæði til sjávar og sveita, þeim málstað okkar sjálfstæðismanna, að standa á móti þessum nýju skattaálögum, enda þótt af því leiði, að tryggingamálin komist ekki í framkvæmd, og ekki heldur nýbýlin, því sannast sagna er a. m. k. mjög blönduð ánægja meðal verkalýðsins út af tryggingalöggjöfinni, að ég ekki nefni nýbýlin. Almenningur er sem sé alls ekkert þakklátur fyrir þær tryggingar, sem hann þarf að standast allan kostnað af, ýmist með beinum framlögum eða á þann hátt, að sá hluti framlagsins, sem talinn er greiddur úr ríkissjóði, er samtímis tekinn úr vösum almennings með háum tollum af nauðsynjunum. Og þetta eru foringjar sósíalista búnir að fá að vita. Það er ein ástæðan fyrir því, hve niðurlútir þeir eru. Og bændur þori ég óhikað að spyrja að því, hvort þeir vilji vinna til að leggja á sig verðhækkun frá 2 og upp í 25% á ýmsar notaþarfir sínar, til þess að þessi tryggingarlöggjöf, og þar á meðal atvinnuleysistryggingarnar, komist í framkvæmd. Og þá þori ég einnig að spyrja um það, hvort þeir vilji taka á sig þessar álögur í því skyni að nýbýlin verði stofnsett, því meðan þeir geta ekki búið á jörðum sínum, vegna hins lága afurðaverðs, þá telja þeir varla þjóðarnauðsyn, að stofnað sé til samkeppni um framleiðsluvöruna og verðfalls á jörðum þeirra með nýjum býlum, sem komið er upp á ríkisins kostnað, þó auðvitað megi margt þeirri framkvæmd til gildis, telja.

Nei, við þetta erum við sjálfstæðismenn alveg óhræddir, og þjóðin verður að setja sig inn í þann höfuðstefnumun, sem hér er á ferðinni. Annarsvegar er viðhorfið þetta:

Atvinnuleysið segir til sín, valdhafarnir finna hjá sér þörf til að bæta úr því, og án þess að gera sér nokkra grein fyrir orsökunum bjóðast þeir til að taka fólkið upp á arma ríkissjóðs. En til þessa þarf fé, og þá kemur það í ljós, að fé er ekki fyrir hendi, og síður en svo, því tekjustofnarnir eru einmitt að bresta. Fyrir orsökum þess er ekki heldur reynt að gera sér grein, heldur er reynt að bæta úr því með því að leggja á nýja skatta, í fyrsta lagi til að bæta upp rénunina á þeim gömlu, og í öðru lagi til að standast kostnaðinn við að taka atvinnuleysingjana upp á arma ríkissjóðs. Við sjálfstæðismenn höfum allt annað sjónarmið. við segjum „Á skal að ósi stemma“. Atvinnuleysið stafar af því, að atvinnureksturinn hefir færzt saman. En meginorsök þess er skattþunginn, sem á honum hvílir. Viðbótar-skattþungi leiðir til meiri samfærslu og þ. a. l. meira atvinnuleysis. Okkar ráð er því það, að þyngja ekki skattana, heldur reyna að létta þeim af, til þess þannig að draga úr atvinnuleysinu, og við kveðum hiklaust upp þann dóm, að með nýjum sköttum sé stjórnarliðið að auka þann voða, sem það heldur, að það sé að fyrirbyggja, og sá dómur er réttur.

Eða heldur stj., að ríkissjóður muni reynast þess megnugur að taka við fólkinu í atvinnu, jafnóðum og atvinnurekendurnir gefast upp undan skattþunganum? Heldur stj. e. t. v., að fólkinu sé betra að hafa atvinnuleysisstyrk heldur en atvinnu? Er stj. og lið hennar hér á þingi svo blindað, að það eitt allra fái ekki skilið, að fyrir atvinnuleysingjann er ekkert betra hægt að gera en að endurreisa framfarahug einkaframtaksins, til þess á þann hátt að skapa fólkinu nýja atvinnumöguleika. Þessar staðreyndir skilur nú orðið þorri alls landslýðsins, og þess vegna dæmir fólkið, og dæmir hart, framferði þeirrar stj., sem nú á ný hleður nýjum sköttum á þjóðina.

Ég kem þá að sjálfu höfuðdeiluefninu, greiðslujöfnuðinum. Í fyrri ræðu minni vitnaði ég til ummæla fjmrh. í fjárlagaræðu hans haustið 1934, og sannaði með þeim ummælum, að ráðh. gaf þjóðinni skýlaus fyrirheit um það, að koma á greiðslujöfnuði. Þessum ummælum hefir ráðh. ekki beinlínis þorað að mótmæla, af því að hann vissi, að þau voru komin á prent í Alþingistíðindunum.

En jafnframt gat ég þess, að snemma á þessu ári, þegar greiðsluhalli ársins 1934 var kominn í ljós, hefði ráðh. kveðið enn sterkara á um það, að nú væri sá kostur einn nauðugur að rétta við greiðsluhallann, hvað sem það kostaði, enda væri það „fyrsta hlutverk núverandi stjórnar“ að stöðva skuldasöfnun þjóðarinnar við útlönd. Sagði ég, að ráðh. hefði heitið að gera þetta, enda þótt færa þyrfti innflutninginn niður í 32 millj., og sýndi svo fram á, að innflutningurinn yrði ekki 32 millj., heldur 49 millj., og af því dró ég þá ályktun, að sá ráðh., sem þannig hefði gersamlega orðið að leiksoppi í höndum þeirra örðugleika, sem hann tók að sér að sigra, hann yrði að fara frá völdum. Af andsvörum ráðh. er það nú augljóst, að ef ég hefi farið rétt með, þá treystir hann sér ekki að neita, að honum bæri að fara frá völdum.

En ráðh. var svo sem ekki í vanda með varnirnar. Í fyrsta lagi skýrði hann frá því, að 11 millj. greiðsluhallinn 1934 væri Sjálfstfl. að kenna, en að því loknu kom hann svo að sjálfu aðalatriðinu, þ. e. a. s. því, hvort hann hefði lofað að skapa greiðslujöfnuð, eða hvort mín ummæli um það væru staðlausir stafir.

Taldi ráðh., að því færi svo fjarri, að hann hefði lofað að skapa greiðslujöfnuð, „að engum vitibornum manni hefði svo mikið sem til hugar komið, að slíkt væri hægt á 10 mánuðum“, svo ég noti ráðh. eigin orð.

En það vill nú svo slysalega til fyrir hv. ráðh., að mér er mjög auðvelt að sanna orð mín, og ég skal viðurkenna, að vegna þess að ég er orðinn kunnugur málaflutningi ráðh., leiddi ég hann vitandi vits í þessa gildru, sem hann nú er genginn í, með því að láta það ekki koma beinlínis fram í minni fyrri ræðu, hvaðan ég hefði heimildir mínar, en heimildir mínar fyrir fyrri staðhæfingum er allar að finna í þeirri fjárlagaræðu, sem ráðh. flutti á öndverðu þessu þingi, og þó hún sé ekki enn komin út í Alþingistíðindunum, er hún samt til á prenti, nfl. í Tímanum 5. marz síðastl., og skal ég nú lesa upp úr henni nokkurn kafla, með leyfi hv. forseta, sem staðfestir orði til orðs allt, sem ég hefi sagt.

Fyrst afsakar ráðh. á alla lund afkomu ársins 1934. Mennirnir, sem skammta áttu innflutninginn, hafi verið of bjartsýnir, útflutningurinn reynzt minni en búizt var við, og þá hafi skort fullnægjandi gjaldeyrislög.

Margar fleiri afsakanir tínir ráðh. fram, og læt ég alla um að dæma sjálfa, hvort sennilegt sé, að hann myndi hafa lagt svo mikla rækt við allar þessar afsakanir fyrir 11 millj. greiðsluhallanum, ef sökin lægi hjá Sjálfstfl.

Nei, þetta er ein af mörgum skýlausum sönnunum um, að stjórnarflokkarnir eigi bróðurpartinn af þeirri ábyrgð. En sleppum því. Þetta er aukaatriði. Aðalatriðið er hitt, hvort ráðh. hafi lofað að skapa greiðslujöfnuð á þessu ári, því það er um það, sem deilan stendur, það er það, sem ég staðhæfi, en ráðh. þverneitar og segir, að engum viti bornum manni hafi til hugar komið.

Ég gef nú ráðh. sjálfum orðið. Í nefndri fjárlagaræðu farast honum þannig orð:

„Nú er það öllum ljóst, að við svo búið má ekki standa, og að á ári því, sem í hönd fer, verður að draga stórkostlega úr innflutningi frá því, sem var í fyrra. En eftir öllum horfum, og einkum þó hinum síðustu tíðindum frá Ítalíu, er ómögulegt að áætla með fullum líkum, hverju útflutningur íslenzkra afurða muni nema á næsta ári, en hann getur farið að verðmæti niður fyrir 40 millj. króna. Fari svo, þyrfti innflutningur að komast niður í ca. 32 millj. til þess að öruggt sé, að aðstaða þjóðarinnar út á við versni ekki á árinu. Þurfi að færa innflutninginn niður í 32 millj., mundi hann lækka um 20 millj. frá því, sem hann væntanlega reynist 1934, eða um tæp 40%. Slíkum niðurskurði mundi óumflýjanlega fylgja gerbreyting í landinu. Vonandi verður afurðasala landsmanna ekki svo óhagstæð, að til þessa dragi, en eftir útlitinu, sem nú er, getur svo farið, og verða menn að vera við slíku búnir.

Til þess að fyrirbyggja allan misskilning, skal ég taka það fram, að ríkisstj. hefir ekki hugsað sér, að hægt sé að minnka innflutninginn svo mikið, að innflutningur véla til Sogsvirkjunarinnar geti orðið innifalin í þeirri tölu, sem ég áðan nefndi.“

Þetta eru nú orð ráðh., og ekki slitin úr samhengi, og ég bið menn, svona sér til gamans, að veita því athygli, að ekki vantar nákvæmnina hjá ráðh. Honum þykir varlegra að taka það fram, að í þessum 32 millj. sé ekki innifalinn innflutningur til Sogsins, en hann hefir þetta ár verið 800 þús., þannig að ráðh. hefir ætlað að hafa vaðið fyrir neðan sig, með því að mega fara upp í 32 millj. og 800 þús. en hefir nú orðið svo slysinn að lenda í 49 millj., og nú ætla ég að gefa ráðh. orðið á ný og vitna áfram í þessa sömu ræðu hans. Hann segir:

„Á þessu ári getum við hinsvegar búizt við, að útflutningur okkar fari niður í 40 millj., en því fremur verður að stöðva skuldasöfnunina, því það er fyrsta hlutverk núverandi stjórnar að stöðva skuldasöfnun við útlönd.“

Í sjálfu sér væri fróðlegt að lesa upp heila kafla úr þessari ræðu ráðh. Til þess vinnst ekki tími. En öll er ræðan eldmóði þrungin heitstrenging um það, að skapa greiðslujöfnuð, og engu líkara en að ráðh. hafi í öndverðu ætlað að loka öllum útgöngudyrum fyrir sérhverjum þeim, sem þeim ásetningi vildi bregðast, því nær hver setning er eins og hengingaról um háls þess, er slíks dirfist að freista.

Ég veit nú eiginlega ekki, hvernig hægt er að kveða skýrara á í þessu efni heldur en ráðh. gerir með þeim ummælum, sem ég vitnaði í. Ráðh. talar um, að það þurfi jafnvel að fara innflutninginn niður um 20 millj., en í það dugi ekki að horfa; menn verði að vera við slíku búnir, og svo segir hann beinlínis, að ef útflutningurinn fari niður í 40 millj., þá verðum við bara „því fremur“, eins og hann orðar það, að stöðva skuldasöfnunina. Innflutningurinn verði þá að færast niður í 32 millj., hvað sem það kosti, með góðu eða illu, því það sé „fyrsta hlutverk núv. stjórnar“ að skapa greiðslujöfnuð. Hér er því allt eins skýlaust og fyrirvaralaust eins og frekast verður á kosið. Undan þessari fortíð sinni getur ráðh. ekki runnið, hversu feginn sem hann vildi.

Ráðh. sagði, að „enginn vitiborinn maður“ hefði látið sér detta í hug, að hægt væri strax að skapa greiðslujöfnuð. Ég hefi ekkert um það sagt. Ég hefi alveg látið liggja milli hluta, hvort nokkur viti borinn maður hafi talið þetta kleift. Ég hefi aðeins staðhæft, að ráðh. hafi talið það fært og heitstrengt að gera það, að viðlögðum ráðherradómi sínum. Og þetta hefi ég nú sannað með hans eigin orðum.

Ráðh. vék að því, að við sjálfstæðismenn hefðum áður verið andvígir innflutningshöftunum, og á þetta lagði hann alveg sérstaka áherzlu, rétt eins og hans eigin hrösun í þessum málum af þeim ástæðum mundi verða eitthvað mildari. En það er nú í fyrsta lagi eins og ég hefi gert grein fyrir, að trú okkar á bölvun innflutningshaftanna út af fyrir sig er alveg óbreytt, og samþykkt okkar á gjaldeyris- og innflutningseinokun stafar eingöngu af samningum Íslendinga um ákveðin vörukaup frá hinum einstöku viðskiptalöndum okkar, en þeim samningum er erfitt eða ókleift að fullnægja án lagafyrirmæla, ef samtímis á að tryggja greiðslujöfnuðinn. En í öðru lagi sé ég ekki, hvað trú okkar sjálfstæðismanna eða vantrú á höftunum koma við kjarna þessa máls, þeim, að fjármálaráðherra lofaði að skapa greiðslujöfnuð, enda þótt færa þyrfti innflutninginn niður í 32 millj., lagði ráðherradóm sinn að veði, og skilar nú árangrinum af afrekum sínum í 49 millj. króna innflutningi og 11 millj. króna skuldaaukningu.

Það var ráðh., en ekki við, sem í öndverðu gaf yfirlýsingu um, að hver sú þjóð væri dauðadæmd, sem ekki gætti þess að forðast erlenda skuldasöfnun. Það var hann, sem krafðist og fékk nýja 2 millj. skatta og nýtt alræðisvald til þess að bjarga þjóðinni frá þessum voða. Það var hann, sem strengdi þess heit, að með þessum vopnum skyldi hann skapa greiðslujöfnuð, hvað sem það kostaði. Og það var hann, sem lagði ráðherradóm sinn að veði fyrir því, að þetta skyldi takast, og það er þess vegna hann, en ekki við, sem nú er fyrir rétti og á að svara til saka, og það er þess vegna hann, en ekki við, sem þjóðin dæmir í þessu máli. Og hann verður að láta sér skiljast, að fyrir þann dómstól þýðir ekki að koma hnarreistur. Eftir allar fullyrðingarnar um „fyrsta hlutverk stjórnarinnar“, og öll hreystiyrðin um, að greiðslujöfnuð skyldi hann skapa, og því fremur sem útflutningurinn yrði lægri, klæðir auðmýktin hann bezt — hann verður að láta sér skiljast, að vaðall, blekkingar og rembingur verða ekki tekin gild rök, og hann verður að gera sér ljóst, að yfirleitt, er orðið of seint að reyna nokkra málsvörn, því að dómurinn er þegar skráður í raunasögu síðustu ára, og sá dómur er dauðadómur yfir þeim ráðh., sem sveik öll sín heit og sökkti þjóðinni á 2 árum 22 millj. dýpra í hið erlenda skuldafen.

Ráðh. getur náttúrlega reynt að hanga við völd í nokkra mánuði ennþá, en á því vinnur hann ekkert annað en það, að að svo miklu leyti sem einhver man eftir honum stundinni lengur, þá bætist við endurminningin um ungan mann, sem allt mistókst, sem hann tók sér fyrir hendur, minningin um það, að þennan unga mann skorti ekki aðeins lífsreynslu og skilning á þörfum sinnar þjóðar, heldur og allt velsæmi, — allt annað en ofmetnað unglingsins.