14.12.1935
Neðri deild: 99. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1439 í B-deild Alþingistíðinda. (2400)

81. mál, Háskóli Íslands

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Það varð ágreiningur í n. um það, hvort mælt skyldi með því, að ekki væru hafðir aðkomuprófdómendur við embættispróf í háskólanum.

Eins og við vitum hafa hingað til verið tveir prófdómendur við embættispróf í háskólanum. Annar þeirra hefir verið kennari í skólanum, en hinn utanskólamaður. Þetta gefur prófunum vitanlega meira öryggi. Hvað kostnaðarhlið þessa fyrirkomulags snertir, þá skal ég benda á það, að þetta hefir ekki haft meira en 1000 kr. kostnað í för með sér á hverju ári fyrir ríkissjóð. Ég held, að við nánari athugun muni menn sjá, að ekki sé bráðnauðsynlegt að spara þetta litla fé, þegar vissa er fengin fyrir því, að með þessu fyrirkomulagi séu prófin öruggari og komi að meira haldi en ella.

Það gleður mig að heyra, að þeir hv. nm., sem skrifuðu undir nál. með fyrirvara, hafa fallið frá honum, og vænti ég þess, að frv. gangi fram eins og það liggur hér fyrir.