22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (2415)

150. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. (Héðinn Valdimarsson) [óyfirl.]:

Ég hefi flutt hér brtt. á þskj. 574, um það, að dráttarvextir, er nemi 1/2%, komi á þau iðgjöld, sem eigi eru greidd áður en tveir mánuðir eru liðnir frá gjalddaga. Þetta er sama og gert er við útsvör og skatta, og er ekki óeðlilegt, þó að líka komi dráttarvextir á brunabótagjöld, enda munar það litlu, nema um hærri tryggingar sé að ræða, en það hefir einmitt komið fyrir um þær, að menn vilja draga að greiða brunabótagjaldið til að spara sér prósentur.

Þá vil ég segja nokkur orð um brtt. hv. 8. landsk., Ég sé ekki þær ástæður, er réttlæti þessa brtt. Mér finnst það einkennilegt, að í stað þess, að Brunabótafél. hefir nú rétt til að tryggja lausafé í kaupstöðum og sveitum, þá skuli það nú aðeins fá heimild til að tryggja lausafé í sveitum. Mér skilst, að hv. þm. muni bera fyrir brjósti hag Sjóvátryggingarfélags Íslands, sem að vísu er innlent, en starfar á frjálsum grundvelli. En ég skil ekki, hvaða ástæður eru til að leyfa ekki Brunabótafél. líka að starfa á frjálsum grundvelli eins og Sjóvátryggingarfélaginu. Hvorugt myndi sennilega ná til sín tryggingum á öllu lausafé. A. m. k. er það óskynsamlegt eins og nú er, að Brunabótafél. hafi leyfi til að vátryggja lausafé húseigenda, en ekki leigjenda. Afleiðingin gæti orðið sú, að Dansk Tarifforening, þessi félagsskapur danskra vátryggingarfélaga, sem Sjóvátryggingarfél Íslands mun líka hafa staðið í sambandi við, yrði hættulegur keppinautur við Brunabótafél., og það gætu orðið tvennskonar iðgjöld, eftir því, hvort um húseigendur eða leigjendur væri að ræða. Nú eru iðgjöldin hjá Tarifforening í steinhúsum 3‰, 71/2‰ og 101/2‰ en hjá Brunabótafélaginu: 21/4‰, 6‰ og 8‰. — M. ö. o., iðgjöldin eru lægri hjá Brunabótafélagi Íslands heldur en Dansk Tarifforening.

Mér skilst ekki, hvers vegna Brunabótafél. má ekki fá að reyna frjálsar tryggingar, ef það getur náð meiri tryggingum með því að starfa á víðtækara sviði, og það sýnir sig, eftir þessum samanburði, að það er hagkvæmara fyrir tryggjendurna. Ég vil því mælast til, að frv. verði látið óbreytt.

Þá kom hv. 8. landsk. með till. um, að ef Brunabótafél. yrðu leyfðar tryggingar í Reykjavík, þá yrði stofnaður sérstakur varasjóður fyrir Reykjavík með gagnkvæmum ábyrgðum innan þess flokks. — Hvað snertir það fyrra, þá er vafasamt, hvort það er heppilegra fyrirkomulag en við höfum hugsað okkur og gert er ráð fyrir í frv., að kaupstaðirnir séu í flokki út af fyrir sig og sveitirnar út af fyrir sig, en Reykjavík yrði þá með kaupstöðunum. Þá væri þegar fyrir hendi nokkur varasjóður, sem Reykjavík kæmi inn í. En auðvitað er hægt að fara þá leið, að byrja ekki með neinum varasjóði fyrir Reykjavík, en láta ríkistryggingu standa á bak við, en ég álít það ekki betra.

Viðvíkjandi 3. brtt. hv. 8. landsk., þá læt ég hana liggja milli hluta. En ég vil taka eitt fram; Það er gert ráð fyrir, að ef Reykjavík er tekin inn, þá komi gagnkvæmar ábyrgðir á tryggjendurna. Ég skal ekki hafa beint á móti þessu, en mig skal ekki undra, ef jöfn tilboð kæmu frá íslenzka og erlenda félaginu, að það kæmu raddir upp um það í Reykjavík, að verra væri að eiga við íslenzka félagið. Ég er ekki að leggja neitt upp úr þessu, en vel gæti ég hugsað mér, að sá flokkur, sem hv. 8. landsk. fyllir. myndi fljótt koma fram með, að verra væri að skipta við íslenzka félagið, og notaði það sem skálkaskjól.