22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1445 í B-deild Alþingistíðinda. (2416)

150. mál, Brunabótafélag Íslands

Garðar Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að lengja mikið umr., en út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði síðast, að mínir flokksmenn myndu á sínum tíma telja verra að skipta við innlenda félagið, vegna hinna gagnkvæmu ábyrgða, þá verð ég að svara honum nokkrum orðum.

Ég vil spyrja hv. þm., hvernig hægt sé að komast hjá hinum gagnkvæmu ábyrgðum? Ef brtt. mínar eru felldar og frv. samþ. óbreytt, þá kemur Reykjavík undir 1. flokk, samkv. 6. gr. l., og í þeim flokki eru sömu gagnkvæmu ábyrgðirnar og í 3. flokki, sem ég vil, samkv. till. minni, að stofnaðar verði. Hv. þm. hefir misskilið þetta algerlega, ef hann heldur, að ég vilji koma á gagnkvæmum ábyrgðum, en frv. sneiði framhjá þeim. Þessi ákvæði um gagnkvæmar ábyrgðir eru til í l. og frá upphafi hugsað sem grundvallaröryggi fyrir því, að ábyrgðirnar verði sem minnstar og sé dreift sem mest yfir landið innan vissra takmarka. Það er ákvæði, sem er í l., og er það hugsað frá upphafi sem skorða við áhættu Brunabótafélagsins, þegar dreifingin er sem mest. Það eru menn innan þessa flokks, sem hafa myndað sjóði og eiga sjóði. Mér finnst ekki sanngjarnt, að sá flokkur myndi sjóðina, ef þeir eru svo notaðir til þess að greiða skaða, sem verður á húseignum við bruna í Rvík. Og þó að það megi segja, að þeir séu ekki eign, þar sem þeim verður skipt upp einn góðan veðurdag, þá geta eigendurnir komið og haldið því fram, að iðgjöldin á húsum í sveitum og kaupstöðum hljóti að hækka, vegna þess að Brunabótafél. safnar svona háum sjóðum. Ef milljónasjóðir eru teknir til þess að borga tjón af bruna í Rvík, þá verða þeir, sem eru utan Rvíkur, að borga hærra iðgjald en annars. Það er því ljóst, að sú eign, ef hún er látin halda sér, kemur eftirkomendunum að haldi, því iðgjöldin hljóta að lækka. Ég get ekki séð, að sanngirni sé í því að taka þessa háu sjóði og gera áhættuna með því meiri, og nota þá ef til vill til þess að borga tjón í Rvík, en hin gagnkvæma ábyrgð er eftir sem áður. Sjóvátryggingarfélag Íslands borgaði á einu ári á þriðja þús. kr. meira heldur en það fékk inn á árinu í iðgjöldum. Ef slíkt tap kemur á Brunabótafél, þá vil ég spyrja, hvar eigi að taka það, nema af sjóðum, sem hafa safnazt, eða iðgjöldum annara. Ég get ekki séð annað en hætta sé á, að þeir, sem eiga sjóðina, missi af lækkun iðgjaldanna, eða verði að greiða hærri iðgjöld en þeim ber.