04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

1. mál, fjárlög 1936

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég hafði gaman af því að hlusta á ýmislegt í ræðu hv. þm. v.-Húnv. Ég mun þó ekki fara að eyða að því orðum, þótt sá hv. þm. blási sig nokkuð út að vanda og telji sig eiga bændur landsins með húð og hári, og finnist, að við hinir, sem vinnum að umbótamálum bænda, séum að stela þeim umbótamálum frá honum. Einu atriði í ræðu hv. þm. vil ég þó ekki láta ómótmælt. Hann sagði, að bændur hefðu verið misrétti beittir í veitingu útflutningsleyfa til Þýzkalands, vegna þess að stj. beindi þangað innkaupum, sem varan væri ódýrust með hag neytenda einna fyrir augum. Það virðist nú að vísu eðlilegast, að varan sé keypt þar, sem hún er ódýrust, en þó hefir stj. neyðzt til að beina einnig viðskiptum til hinna dýrari landa, og þá einkum Þýzkalands, vegna viðskipta- og gjaldeyrisörðugleika þeirra sem nú eru í heiminum. Til 1. okt. hafa verið keyptar vörur frá Þýzkalandi fyrir rúmar 5 millj. króna, að mestu eftir fyrirmælum stjórnarinnar og gjaldeyrisnefndar, vegna þess að skilyrði fyrir afurðasölu okkar þangað er það, að við kaupum fyrir jafnháa upphæð. Bændur hafa selt allmiklu meira af gærum og ull til Þýzkalands nú en 1933 og 1934. En fleira hefir þurft að selja til Þýzkalands en landbúnaðarafurðir, svo sem þann hluta ísfiskjarins, sem enginn markaður er fyrir annarsstaðar. En vegna þess að síldveiði varð minni að þessu sinni en ráð hafði verið gert fyrir, var hægt að selja miklu meira af landbúnaðarafurðum, svo sem gærum, ull o. fl., heldur en undanfarið. Stj. hefir því með aðgerðum sínum skapað sölumöguleika í Þýzkalandi á þessu ári, sem annars hefðu ekki orðið til.

Hv. þm. V.-Sk. sagði í dag, að stj. hefðu orðið þau ódæmi á, að hún hefði fengið danskan mann, Lauge Koch, sem fengizt hefði áður við Skrælingjarannsóknir, til þess að framkvæma ýmsar vísindarannsóknir hér á landi, og myndi þetta tiltaki verða stórhættulegt fyrir sjálfstæði landsins 1943! Ég vil nú skýra dálítið þetta stórhættulega mál.

Það hefir orðið samkomulag á milli dr. Lauge Kochs og skipulagsnefndar atvinnumála. að hann tæki að sér forustu rannsókna hér á landi, rannsókna, sem þó væru fremur hagnýtar en hreinvísindalegar, með það fyrir augum að leita hér verðmæta í jörðu og á, sem þjóðin gæti annaðhvort hagnýtt sér sjálf eða gert að útflutningsvöru. Leiðangur þessi á að vinna eftir starfsreglum, sem 3 manna nefnd setur, en í þeirri nefnd eiga sæti Árni Friðríksson fiskifr., Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri og Emil Jónsson bæjarstjóri. Hinar ýmsu greinir rannsóknanna annast þrír menn, sinn af hverri þjóð, Svíi, Svisslendingur og Hollendingur. Auk þess er tilskilið, að íslenzkir námsmenn verði með í leiðangrinum. Það virðist því engin Danahætta geta stafað af þessari ráðstöfun. (GSv: Hvaðan kom tilboðið?). Það kom frá Lauge Koch. Hv. þm. sagði, að Lauge Koch væri mótmælt erlendis sem „húmbúgista“. Ég veit, að mótmæli hafa komið fram gegn honum fyrir skömmu, en þau hafa enn hvorki verið sönnuð né afsönnuð, og víst er um það, að Lauge Koch er viðurkenndur dugnaðarmaður, sem þegar hefir fjölda nafnbóta og heiðursmerkja fyrir vísindamennsku sína. Annars er það engin nýlunda, að danskir menn starfi hér að náttúrurannsóknum. Má þar nefna dr. Niels Nielsen, sem starfað hefir að eldfjalla- og jöklarannsóknum hér og mun halda þeim áfram.

Þá kem ég að hv. þm. G.-K. Hann byrjaði ræðu sína í nokkrum viðeigandi ummælum, að því er honum hefir víst sjálfum fundizt, í garð hv. 9. landsk. Ég mun ekki fara út í þau ummæli hans, þau hafa sinn dóm með sér, og sönnuðu það eitt, hve mjög honum hefir sviðið réttmæt gagnrýni hv. 9. landsk.

Hv. þm. G.-K. hefir að vissu leyti þýðingarmikla aðstöðu hér á þingi. Hann er formaður stærsta þingflokksins, og því er ekki ófróðlegt fyrir þingheim og áheyrendur að gera sér ljóst, hvaða afstöðu þessi flokksforingi tekur gagnvart vandræðum yfirstandandi tíma. Ég hefi margspurt hann um þessa afstöðu hans og oftast fengið engin svör, eða þá þau svör ein, að hann og flokkur hans vildi spara.

Í síðustu ræðu sinni var hv. þm. G.-K. berorðari um það en áður, hvað hann vildi ekki, að væri gert. Hitt var í jafnmikilli þoku og áður, og geta legið til þess þær eðlilegu orsakir, að hv. þm. og flokkur hans vilji ekki láta gera neitt.

Hv. þm. G.-K. sagði, að ekki mætti byggin ný skip, vegna þess að engan ugga væri hægt að selja. Ekkert vit væri í því að reisa nýbýli, því að bændur væru alltaf að tapa. Hann sagði, að vitlaust væri að taka upp atvinnuleysistryggingar, en berst þó fyrir því, að fé til atvinnubóta lækki. Hann heldur því sem sagt fram, að alveg eigi að leggja hendur í skaut. Framleiðsluna og þar með atvinnuna má ekki auka, hvorki í landbúnaði né sjávarútvegi, og því síður gera neinar ráðstafanir til þess að hjálpa þeim, sem atvinnulausir eru. Greinilegri uppgjöf gagnvart örðugleikunum hefi ég aldrei orðið var við, og ef þetta er afstaða Sjálfstfl., skil ég ekki í hvernig hann getur haldið áfram að starfa.

Þá vil ég víkja lítið eitt að því, sem hann sagði um togarafrv. Alþfl.

Meðalaldur togara hér á landi er nú um 15 ár. Til þess eins að endurnýja togaraflotann þyrfti því að byggja 3,7 skip á ári. Hv. þm. G.-K. telur frv. okkar fjarstæðu, þótt það fari aðeins fram á, að byggðir séu 2–3 togarar í 5 ár. Ef alveg væri vonlaust að gera framar út til fiskveiða, væri slík endurnýjun þýðingarlaus. En öll framtíð vor byggist á því gagnstæða, og þegar sölukreppunni léttir, sem vona verður að verði einhverntíma, verðum við að vera við því búnir. Ýmsar afurðir fiskjar eru að hækka í verði, og augljóst er, að ná má betri árangri af fiskveiðunum en nú er með bættum skipum og aukinni tækni, t. d. með mjölvinnslutækjum á skipunum, þótt hv. þm. G.-K. og hans nánustu líti á þetta öðrum augum. Benda má líka á karfaveiðina, sem rekin hefir verið þetta ár í fyrsta skipti með góðum árangri, án þess að það hafi verið á nokkurn hátt á kostnað saltfisksmarkaðarins.

Nú eru þekktir útgerðar- og aflamenn að kaupa hingað nýjan, stóran togara (skipið mun að vísu vera 10 ára gamalt) með það fyrir augum að vinna um borð úr fiskinum allt, sem söluhæft er, en ekki hirða aðeins bolinn einan, eins og tíðkazt hefir. Þeir menn, sem að þessum togarakaupum standa, eru m. a. Guðmundur Jónsson, fyrrum aflakóngur á Skallagrími, Jón Oddsson útgerðarmaður í Englandi og Geir Sigurðsson. Mun mega treysta því, að þessir menn viti, hvað þeir eru að gera, og kaupi ekki neitt aflóga hró.

Hv. þm. G.-K. hefir lýst togaraflotanum þannig, að í honum væru tómir rykláfar og hættulegar duggur. Því miður er þetta satt, og frv. okkar Alþfl.manna er einmitt ætlað að ráða bót á þessu hörmungarástandi.

Alveg sama er að segja um samvinnubyggðirnar. Miklir markaðsmöguleikar eru fyrir sölu á grænmeti, mjólk o. fl.

Yfirleitt er það svo, þegar örðugleikar verða um sölu einhverra vörutegunda, þá dugir ekki að gefast upp, heldur verður að skapa nýja markaði eða reyna að efla þá markaði, sem fyrir eru. Það dugir ekki að berja sér á bak og brjóst og gefast upp. Ef veiðin borgar sig ekki, verður að reyna að afla betri markaða, finna betri verkunaraðferðir, fá betri skip og ódýrari í rekstri. Það verður að nota alla möguleika. Það er hér eins og í atvinnuleysismálunum, að viðhorf okkar hv. þm. eru gerólík. Hann telur, að réttast sé að gefast upp; við teljum, að þjóðin eigi að lifa, verði að nota hina ýtrustu möguleika til þess að bjarga atvinnuvegunum til sjós og lands. Hv. þm. taldi, að atvinnuleysið hefði mjög vaxið í tíð núv. stjórnar. Ég skal ekki um það deila, en það er víst, ef stj. hefði verið aðgerðalaus í þeim efnum, ef ekki hefðu verið auknar verklegar framkvæmdir um 3/4 millj. kr. á síðasta þingi, ef ekki hefðu verið felldar till. Sjálfstfl. um að fella niður verklegar framkvæmdir, þá hefði hér verið miklu meira atvinnuleysi en er.

Þá vék hv. þm. í sambandi við atvinnuleysið að því, sem ég sagði í sambandi við ríkislögregluna í síðustu ræðu minni, og spurði, hvort ég væri að hóta ofbeldi, ef ég kæmist í stjórnarandstöðu, svo stjórnin þyrfti þá að hafa ríkislögreglu. En af því hv. þm. var heldur loðmæltur um ríkislögregluna, þá langar mig til að lesa hér kafla úr ræðu hins látna foringja Sjálfstfl., er hann hélt á þingi 22. nóv. 1933, þegar fyrir lá till. frá Alþfl. um að leggja ríkislögregluna niður. Ég ætla að sýna, hvernig sá hv. þm. leit á ástandið þá (með leyfi hæstv. forseta). Hv. þm. segir: „við vitum, að þessi flokkur hér á landi, (það eru kommúnistar), bíður eftir tækifæri til þess að framkvæma samskonar byltingu hér eins og flokksbræður þeirra gerðu í Rússlandi á sínum tíma. Hvernig væri nú Reykjavíkurbær við því búinn að verjast árásum frá þessum óaldarflokki, með allar þær alþjóðarstofnanir, sem hér eru starfandi, og hafandi ekki annað en 60 m anna lögregluflokki á að skipa? Ég vil leiða athygli að því, að ef hér væri um skipulagsbundna árás að ræða, þá má búast við, að hún stæði sólarhringum saman, þannig að nokkur hluti af lögregluliðinu, að líkindum 1/3 þess, yrði þó að njóta reglubundinnar hvíldar, og yrði þá aðeins 40 menn á verði samtímis til varnar árásunum. Ég vil biðja hv. þm. að athuga, hvað það eru margar stofnanir í bænum, sem nauðsynlega þurfa verndar við, ef stjórn þessa bæjar og þjóðfélagsins á ekki að verða í voða stödd. Ég vil aðeins nefna stjórnarráðshúsið, bankana, útvarpið, símastöðina, vatnsveituna og ljósastöð bæjarins. Hvað má nú eiginlega missast af þessu í hendur uppreisnarmanna, ef fólkinu á að vera hér væri og starfsemi bæjarins og þjóðfélagsins í heild á að haldast við?“ Hann talar um, að með einni eldspýtu, sem kastað sé að benzíngeymunum á Klöpp, megi kveikja það bál, sem erfitt yrði að ráða við. Svo heldur hann áfram: „Ég vona, að ef hv. þm. vildu athuga þetta með hugarró, þá sannfærist þeir um, að það er engin von til þess, að 60 manna lögregluflokkur geti varið bæinn þegar svona árásir frá byltingarflokki bæru að höndum. Ég get líka bætt því við, að þó skipshöfnum varðskipanna væri bætt við lögregluna hér í bænum, þá er fjarri því, að það veiti þjóðfélaginu nægilega vernd“. Og enn segir hann: „Ég hefi nú reynt að gera ofurlitla grein fyrir því, að það er jafnvel óhugsandi að halda uppi nokkru öryggi í bænum með 60 manna lögreglu“. Hann segir, að það væri sama, þó fenginn væri vatnsbíll, því einhver hafði bent á það ráð. Vatnsbíll dugir ekkert, segir þessi ræðumaður, og jafnvel skotvopn mundu ekki duga, segir hann. Ég vil svo að síðustu benda á þá niðurstöðu, sem þessi látni foringi Sjálfstfl. kemst að, og sem er þungamiðja í ræðu hans. Hann segir: „Nei, leiðin til þess að halda uppi friði er sú, að hafa jafnan til taks lið, sem er svo sterkt, að uppreisnarmenn treysti sér ekki til atlögu. Þannig hefir ástandið verið hér síðastliðið ár, að það hefir verið svo sterkt lögreglulið, að þessir yfirlýstu árásarmenn á þjóðfélagið hafa haldið sér í skefjum, af því að þeir hafa ekki haft neina von um að sigra, ef þeir hefðu gert áhlaup.“ Í stuttu máli, formaðurinn leit svo á ástandið, að eina leiðin til þess að tryggja friðinn í landinu væri sú, að koma á nægilega sterkri lögreglu til þess að berja niður allan mótþróa gegn stj. Ég get ekki hugsað mér dapurlegri dóm yfir einni stj. en þann, að hún sjái það eitt ráð gegn innanlands-óánægju, að hafa nægilega sterkt lið til þess að berja niður alla óánægju, og vita þó, að slíkt er ekki hægt, ef óánægjan er alvarleg. Ég lít þveröfugt á þetta mál; ég álít, að ómögulegt sé að berja óánægjuna niður með valdi, ef hún yrði alvarleg; ég álít, að eina leiðin sé sú, að stjórna landinu þannig, að meiri hluti þjóðarinnar geti sætt sig við hlutina, að gera allt það, sem hægt er, þjóðinni til hjálpar, og eitt er víst, að síðan stj. tók við, hefir ekki þurft sterkt lögreglulið, sem hefir haft vaktaskipti um stjórnarráðið og bankana. Ég skal ekki fullyrða, að slíkir tímar geti ekki komið, en ég vil vona, að þeir komi ekki. Hæstv. forseti segir, að þeir séu liðnir.