16.12.1935
Efri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (2437)

150. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Ég skal ekki lengja umr. mikið. — Ég vil fyrst benda á það, sem lá á bak við þá fullyrðingu mína áðan, að málinu væri stefnt í hættu með því að gera á því breyt. nú. Eins og allir hv. þdm. vita, þá lágu samskonar brtt. og þessar, sem hér er um að ræða, fyrir hv. Nd. og voru felldar þar. Ef við nú hér í Ed. samþ. þessar brtt., þá leiðir af því annaðhvort, að hv. Nd. verður að ganga frá sinni skoðun — og það ætla ég henni ekki — eða að hún tekur þetta út aftur. Og hvað leiðir af því? Það, að málið verður að fara á milli d. Það er því ekki sagt út í loftið, að málinu sé stefnt í hættu með því að vísa því til ríkisstj. (PM: Það er nógur tími til þess að láta það fara milli d.). Það liggja nú svo mikil störf fyrir þinginu og nógu erfitt er að koma þeim frá, þó ekki sé verið að gera leik að því að setja d. andspænis hvor annari.

Hvað viðvíkur þeirri brtt. hv. 2. þm. Rang., sem hann segir, að ég hafi talað um, að ætti fullan rétt á sér, þá er það rétt en eins og málið horfir nú við, þá tel ég, að hún sé óþörf, því ef til þess kæmi, að Brunabótafél. tæki að sér tryggingar í Rvík, þá yrði að gera það með sérstökum samningi, svo það er óþarft að hafa þennan varnagla í frv. Það er hreint og beint vantraust á forstöðumanni Brunabótafél., á ríkisstj. og á því endurtryggingarfélagi, sem Brunabótafél. kemur til með að tryggja í, að halda því fram, að lífsnauðsyn sé að hafa þetta í l. Hitt er annað mál, að þessi ráðstöfun er réttmæt, og það kannast allir við, að tryggingin í Rvík á að mynda sérstakan flokk. En það sjá allir, að það er óþarft að setja ákvæði um það í l., að svo skuli vera.

Hv. 2. þm. Rang. taldi það óvarlegt, að auka nú rétt Brunabótafél. til þess að taka þátt í tryggingu lausafjár, annars heldur en vörubirgða. Ég verð að segja, að ég tel þetta, af þeirri reynslu, sem fengin er, óþarfa varasemi. Brunabótafél. Ísl. hefir fengið að tryggja lausafé fyrir þá húseigendur, sem tryggt hafa hús sín í félaginu, og árangurinn er sá, að það getur nú boðið betri kjör heldur en önnur félög, sem keppa um þetta. Og þessar tryggingar hafa svarað hagnaði, þannig að það hefir myndazt talsverður sjóður. Að vísu er starfstíminn stuttur, en mér finnst allt benda til þess, að það sé óréttmætt að banna félaginu að taka þátt í þessari vátryggingarstarfsemi, því þetta er félag vátryggjenda yfirleitt í landinu, sem hefir unnið sig upp með varfærni, og árangurinn hnígur allur í þá átt, að fyrir starfsemi þess hafi bætzt stórkostlega kjör vátryggjenda í landinu. Og ég vil benda á það, að áður en l. um Brunabótafél. Ísl. voru endurskoðuð og þeim breytt 1932, þá var það svo, að í sveitunum voru önnur félög, sem tóku að sér brunatryggingar, og ég hygg, að þess hafi fundizt dæmi, að þessi félög hafi tekið allt að 100% hærri iðgjöld heldur en Brunabótafél. Ísl. Bendir þetta nú til þess, að það sé réttmæt ráðstöfun af Alþ. að banna þessu félagi að taka þátt í opinberri starfsemi með lausafé? Ég segi nei. Það er að misbjóða félaginu og því trausti, sem það hefir áunnið sér, og vanþakka þann árangur, sem af starfsemi þess hefir leitt til hagsbóta fyrir vátryggjendur. Ég vænti því fastlega, að allar þessar brtt. verði felldar, af því að ég lít svo á, að hér sé gott mál á ferðinni, sem ekki sé rétt að setja í hættu núna síðustu dagana.