16.12.1935
Efri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1456 í B-deild Alþingistíðinda. (2438)

150. mál, Brunabótafélag Íslands

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ég hefi satt að segja enga skoðun látið í ljós um það, hvort það ætti að heimila Brunabótafél. Ísl. að taka frekari tryggingar á lausafé heldur en þegar er orðið. Ég hefi bara sagt það, að eins og þetta liggur fyrir nú er ómögulegt að vefengja það með rökum, að félagið bætir á sig áhættu fram yfir það, sem nú er. Það getur vel verið, að réttmætt sé að leyfa því að færa út kvíarnar og auka sína starfsemi, en þá verður að gera grein fyrir því, á hvern hátt það eigi að vera. En það, sem ég hefi haldið fram, er það, að ekki sé réttmætt að láta þá nýju áhættu, sem óvefengjanlega er samfara þessari starfsemi, lenda á þeim sjóðum, sem þegar eru myndaðir og eru í raun og veru eign ákveðinna aðilja, þeirra, sem vátryggja í félaginu húseignir í kaupstöðum utan Rvíkur. Hv. 2. þm. S.-M. virðist vera þeirrar skoðunar, að það liggi í frv. eins og það er nú, að tryggingar á húseignum í Rvík, eigi að mynda sérstakan flokk. En það gerir það ekki eftir frv. eins og það nú liggur fyrir. Og hv. þm. heyrðu þau orð hæstv. atvmrh. um daginn, að hann teldi í alla staði eðlilegt, að sjóðir, sem þegar væru myndaðir, stæðu einnig til tryggingar fyrir þessari nýju áhættu. Ég skildi a. m. k. orð hæstv. ráðh. þannig, og ég held að ég hafi skilið þau rétt. En ef Brunabótafél. á að færa út kvíarnar með lausafjártryggingar fram yfir það að tryggja lausafé fyrir menn, sem skyldutryggingu hafa á húsum í félaginu, þá álít ég, að það sé sjálfsagt, að þær tryggingar séu látnar mynda nýjan flokk í félaginu, flokk, sem ríkisábyrgðin, 800 þús. kr., mundi að sjálfsögðu standa til tryggingar fyrir, en ætti svo að safna sínum eigin sjóð og verða með tímanum megnugur þess að standa undir sinni eigin áhættu. Ég get ekki séð neina ástæðu til þess að blanda þessari tryggingu saman við þá skyldutryggingu, sem félagið hefir rekið fram að þessu. Og ég efast um, að þeir, sem þessa sjóði hafa myndað, þar á meðal margir kjósendur hv. 2. um. S.-M., séu honum nokkuð þakklátir fyrir það að stuðla að því að leggja á þessa sjóði áhættu, sem af þessari nýju starfsemi leiddi. Ef félagið á á annað borð að fá rétt til þess að reka lausafjártryggingar í stærri stíl heldur en það hefir gert og á annan veg, þá eiga þær tryggingar að geta staðið undir sér sjálfar. Það verður að taka það hátt iðgjald, að sjóðurinn geti af þeim myndað tryggingu eingöngu fyrir sig, þannig að þessi deild félagsins geti með tímanum átt sinn eigin sjóð, sem stendur fyrir þeim tryggingum, sem teknar eru í þessu skyni, alveg eins og hinar deildirnar. Mér er þess vegna óskiljanlegt, að hv. þm., þó að hann að öðru leyti vilji halda fast við málið skuli ekki geta fallizt á brtt. mínar á þskj. 831. Mér finnst það veigalítil rök hjá honum, að samskonar brtt. og sumar á þskj. 816 hafi legið fyrir hv. Nd. og verið felldar þar. Fyrst og fremst er aðalbrtt. nokkuð annars efnis heldur en nokkur af þeim, sem lágu fyrir Nd., og þess vegna ekki óhugsanlegt, að d. gæti fallizt á hana, og þó svo væri, að menn gerðu ráð fyrir því, að Nd. breytti frv. aftur í það form., sem það var í, þegar það kom hingað, þá get ég ekki séð, að það réttlæti það, að Ed. gangi frá frv. á annan veg heldur en hún telur rétt vera. Ed. hefir sama rétt til að hafa áhrif á löggjöfina eins og Nd., þó að hún skipi fleiri þm. Mér finnst því hv. þm. ganga á heiður þessarar d. með því að gera kröfu til þess, að dm. hér greiði atkv. um málið öðruvísi en þeir telja réttast, af hræðslu við það, að Nd. beygi þá aftur undir sig.