16.12.1935
Efri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (2439)

150. mál, Brunabótafélag Íslands

Frsm. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Ég sé nú ekki ástæðu til að halda þessum umr. mikið áfram, en það var eitt atriði í ræðu hv. 2. þm. Rang., sem ég skildi ekki vel. Mér skilst hann halda því fram, að aðaltryggingarsjóðir Brunabótafél. Ísl., sem myndaðir eru að mestu leyti af skyldutryggingum, séu eign þeirra, sem þar hafa tryggt. Ég er nú búinn að tryggja þar húseign í ein 30 ár, og mér skilst þá eftir orðum hv. þm. Rang., að ég eigi einhvern hluta í þessum sjóði. En ég hefi ekki litið svo á. Það er rétt, að sjóðirnir eru myndaðir af þeim iðgjöldum, sem vátryggjendur hafa greitt. En þegar einn flokkur er búinn að mynda mjög öflugan sjóð, þá segi ég fyrir mig, að ég get ekki verið svo meinfýsinn að meina það, að sjóðurinn megi standa til tryggingar fyrir nýjum flokkum, af því að ég lít svo á, að ég eigi ekkert tilkall til þessa sjóðs. Þess vegna er það, að ég lít á þetta öðrum augum heldur en hv. 2. þm. Rang. Ég lít þannig á, að engin nauðsyn sé til þess að hafa lausafjártryggingar í sérstökum flokki. Það er það, sem ber á milli. Þess vegna er ég á móti þessum brtt. Sú eina, sem ég teldi að gæti komið til mála, er sú, sem snertir það, að Reykjavík, ef til kæmi, skuli mynda sérstakan áhættuflokk. Ég lít svo á, að varasjóður Brunabótafél. sé eign stofnunarinnar, en ekki þeirra, sem skipt hafa við hana, því ég veit ekki til þess, að það sé neinn lagastafur fyrir því, að vátryggjendur eigi rétt á því að fá endurgreiðslu. Og það er ekki hægt að útfæra þessa hugmynd hv. 2. þm. Rang. út í yztu æsar, að hver nýr vátryggjandi eigi eiginlega að bera áhættu af sínum tryggingum. Það bætast alltaf við ný hús, sem tryggð eru í Brunabótafél. Ísl., og ég veit ekki betur heldur en að sá, sem byggir hús sitt í ár, telji sig hafa fullan rétt til þess, að fyrir vátryggingu þess standi sá sameiginlegi brunabótasjóður, sem þegar er myndaður. Ég sé því ekkert því til fyrirstöðu, að hann standi til áhættu fyrir nýrri starfsemi félagsins.