04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

1. mál, fjárlög 1936

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég var farinn að halda, að svo aum væri orðin aðstaða hv. þm. S.-Þ. (JJ) í Framsfl. undir stjórn „sósanna“, að hann ætti ekki að fá að tala í eldhúsinu, en ég samfagna honum, að hann er þó ekki enn svo niðurbældur, að hann fær þó enn að tala, þegar hann langar mest til. Hann var að tala um það, að Bændafl. væri undirdeild í öðrum flokki, en hann reyndi á hinn bóginn að draga fjöður yfir það, að hans flokkur ekki aðeins notar hvert tækifæri til þess að nudda sér upp við sósíalistana, heldur er hann beinlínis horfinn inn í þann flokk. Eins og hv. samflokksmaður minn benti á, varð hv. þm. S.-Þ. að sækja dæmi til annara landa um það, að ekki væri slæmt að vera undir sósíalista gefinn fyrir flokk, sem telur sig vera flokk bændanna. Hann leitaði til Svíþjóðar, en ég tel réttara að athuga afstöðuna her. Hvernig er það með afurðasölumálin? hér hafa bændur minnihluta í kjötsölunefnd og mjólkursölunefnd. Er það svo í Svíþjóð? Nei, þar skipa bændur einir þær nefndir. Og hvers vegna? var það af því, að þeir afgreiddu þessi mál með hjálp „sósanna“? Nei. Þeir höfðu afgr. þau mál með hjálp annara flokka áður en sósíalistar komu til. Hann vitnaði í Noreg. Leystu bændur afurðasölumálin þar með hjálp sósíalista? Nei, þeir leystu þau áður en sósíalistar komu þar til valda. Þá vildi hv. þm. reyna að klekkja á mér með því að segja, að ég hefði verið hægur á mér með kjötsölulögin. Ég undirbjó þó þá löggjöf meðan ég var í stj., og lagði því grundvöllinn í því máli. Ég var búinn að segja, að þau gerðu gagn, enda má það mikið vera, ef þau gera ekkert gagn, þó Hermann hafi breytt þeim dálítið. Hitt er annað mál, að betri maður stjórnaði framkvæmd þeirra í fyrstu heldur en sá. sem nú gerir það og hv. þm. S.-Þ. vitnaði í. Þá gaf hv. þm. þá eftirminnilegu skýrslu, að ekki hefði verið hægt að fá lögin samþ. nema með hjálp sósíalista. Hverjir greiddu atkv. með lögunum? Það voru menn úr öllum flokkum. Eða ætluðu framsóknarmenn að vera, á móti logunum, ef þeir gætu ekki samþ. þau í flatsænginni með sósíalistum?

Þá kom hann með þá merkilegu ályktun, að bandur hér þyrftu ekki að vera óánægðir með mjólkurverðið. Danskir bændur fengju ekki nema 11 aura fyrir sína mjólk og norskir bændur ekki nema 14 aura. Hann ætlar líklega að telja mönnum trú um, að framleiðslukostnaður sé álíka hér og í þessum löndum. Hann telur víst, að hann geti verið sá sami hér í okkar kalda landi Íslandi og í því frjósama landi Danmörku. Ég veit, að Danir bera sig illa með 11 aura verðið, en ég hygg, að það gefi þó betri afkomu en þó bændur í Árnessýslu fái 16–17 og jafnvel 20 aura fyrir sína mjólk. Hann var að tala um, að bændur í Mosfellssveit fengju eitthvað hærra verð fyrir sína mjólk. Hann sagði í útvarpið í fyrra, að þeir fengju nokkrum aurum hærra verð en áður, en hve margir aurar sem þeim eiga að hafa verið sendir í uppbót, þá fá þeir ekki nema vænu broti úr eyri meira en áður. þó talið sé, að þeir fái nú 28 aura, þá er eftir að draga frá því verði, vegna þess að nú þarf að taka hluta af þeirra mjólk til vinnslu, svo verðið verður ekki nema 26,5 aurar en var í fyrra 25,8 aurar fyrir lítra. Hann sagði, að Eyfirðingar fengju 20 aura fyrir sína mjólk, en Árnesingar ekki nema 18 aura. Hvernig stendur nú á þessu, að Eyfirðingar, sem ekki eru undir mjólkursölulögunum, skuli fá töluvert hærra verð en Árnesingar, sem eru undir þessum ágætu lögum? Mér finnst hv. þm. skjóta þarna nokkuð mikið framhjá marki. Hann var að tala um gömlu mjólkursölul. Hermann Jónasson skrifaði kóngi, að þau væru ónothæf. Við skulum hugsa okkur, að hann hafi sagt satt, — en hvað kom þá í staðinn? Jú, yfirráðin voru tekin úr höndum bænda. Það var sagt, að sósíalistar vildu ekki láta framkvæma gömlu lögin, og Framsfl. vildi heldur fá þeim völdin yfir mjólkursölunni en að framkvæma lögin með hjálp annara flakka undir stjórn bændanna sjálfra. Þá sagði hann, að ég hafi ekki undirbúið afurðasölulögin. Það er skjallega sannað, að önnur þeirra voru alveg fullbúin og hin að öðru leyti en því, að þau áttu eftir að fá mjög lítilfjörlega lögfræðilega endurskoðun, þegar ég fór úr stjórninni.

Þá var hv. þm. að saka mig um, að ég hefði ekki viljað skaffa Kreppulánasjóði reiðufé. Hann man ekki eftir því að ég lagði fram frv. á Alþingi um 2 millj. kr. reiðufé handa Kreppulánasjóði, en n., sem hafði frv. til umsagnar í hv. Nd. var einhuga um það, að Kreppulánasjóður fengi ekki þetta fé. Hann getur því kennt sósíalistum og sínum flokksbræðrum um það, að sjóðurinn fékk ekki þetta fé.

Þá var þessi hv. þm. að tala um það, að Jón í Stóradal hefði verið heima hjá sér, er hann átti að vera að vinna í Kreppulánasjóði. Jón í Stóradal hefir kannske tekið sér jólafrí meðan hann var í stjórn Kreppulánasjóðs, en ég vil segja það, að þessi hv. þm. hefir verið meira að heiman en Jón, þegar hann átti að gegna hér opinberum störfum.

Þá réðst hv. þm. á stjórn Kreppulánasjóðs fyrir hennar störf og sagði, að hún hefði beitt pólitískri hlutdrægni við lánveitingar úr sjóðnum. Þessar sömu ásakanir voru bornar fram á stjórnmálafundum í vor af þessum hv. þm. og fleiri flokksmönnnm hans. Þeir töldu, að stjórnin hefði veitt Bændafl.mönnum hærri lán en öðrum og krafizt lægri trygginga af þeim en öðrum. Hæstv. forsrh. var með þessar dylgjur á fundi á Sauðárkrók í vor, og lofaði að sanna þar með dæmum strax og hann kæmi hingað suður. Síðan var manni nokkrum falið að endurskoða lánveitingarnar krítiskt. Sá maður hefir leitað í allt sumar og reynt að finna eitthvað athugavert. Og það er fyrst nú fyrir fáum dögum, að þessi maður hefir komið með sínar athugasemdir. Og þær aths. eru þá það smávægilegar, að hann getur bent á eina einustu afgreiðsluvillu, þar sem Kreppulánasjóðsstj. hafði skrifað í sitt álit um eitt lán, að taka ætti lausafé að veði fyrir láninu til viðbótar fasteigninni, en ritaranum hafði sezt yfir þetta. Auðvitað var þessi villa leiðrétt við skuldaskilin, svo þetta kom ekki að sök fyrir sjóðinn. Hinsvegar höfðu á sumum jörðum verið gerðar ákaflega miklar umbætur síðan jarðamatið fór fram, bæði jarðabætur og byggingar. Sérstaklega átti þetta við hér í grennd við Reykjavík, í Mosfellssveitinni. Í þeim tilfellum kröfðust kröfuhafar þess, að jarðirnar yrðu metnar upp aftur. T. d. hafði Kolbeinn í Kollafirði auk jarðabóta látið gera stórt og vandað fjós ásamt áburðarhúsi. Sama er að segja um fleiri menn í Mosfellssveit. (Fjmrh.: Fleiri vini Bændafl.). já, og hæstv. ráðh. líka, t. d. Björn Birnir, sem er framsóknarmaður. Matið á hans jörð var hækkað vegna umbótanna. Þessir menn gátu ekki fengið lán, sem miðuð voru við fasteignamat á jörðum þeirra. Kröfuhafarnir töldu jarðirnar með réttu miklu meira virði, svo ekki varð hjá því komizt að meta þær að nýju, ef bændurnir áttu að fá lán út á þær. Að síðustu vil ég minna á það, að ekkert hefir fundizt athugavert við starf Jóns í Stóradal við Kreppulánasjóð, jafnvel þó einn harðvítugasti andstæðingur hans, séra Sveinbjörn Högnason, framkvæmdi hina krítísku endurskoðun á verkum hans! Árás hv. þm. S.-Þ. á Jón í Stóradal er því í alla staði ósæmileg og ómakleg; það veit ég, að allir hv. framsóknarmenn hér á Alþingi vita og viðurkenna, nema þessi hv. þm. Auk þess má nefna það, að Jón í Stóradal réði ekki lánveitingum til bænda í Mosfellssveit, heldur var það annar maður, sem þessi hv. þm. vill ekki tala illa um hér á þingi.

Aðfinnslur hans um afgreiðslu lánanna í Rangárvallasýslu eru líka ástæðulausar. Þar fannst ekki nema þessi eina villa. Annars er það létt verk að gera kreppulánaveitingar tortryggilegar í augum trúgjarnra manna. Það var svo, að bændur vildu yfirleitt fá sem lægst lán og sem mest eftir gefið, en kröfuhafar vildu aftur á móti, að lánin yrðu sem hæst og sem minnst væri gefið eftir. Þarna var vitanlega vandi að sigla milli skers og báru, en það vita allir, að Jóni í Stóradal tókst vel.

Hv. þm. S.-Þ. var að tala um það, að Framsfl. hefði minnkað. Það er rétt. Ég vil aftur á móti segja það, að enginn flokkur hefir vaxið meira en Bændafl., og ekki er sá vottur sízt að þakka því hneyksli, sem framið var gagnvart þeim flokki í byrjun þessa þings. Ég er ekki að segja, að þetta sé okkur að þakka, heldur er það mest Framsfl. að þakka. Það er mest að þakka þessum hv. þm. og hæstv. forsrh., og ég vil segja, að það sé líka það eina, sem bændur landsins hafa þessum mönnum að þakka.