16.12.1935
Efri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (2440)

150. mál, Brunabótafélag Íslands

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Það er mesti misskilningur hjá hv. 2. þm. S: M., að ég hafi haldið því fram, að tryggingarsjóðir Brunabótafél. Ísl. væru séreign þeirra, sem vátryggt hefðu hús sín þar. Það, sem ég hefi haldið fram, er ekki annað en það, að tryggingarsjóðirnir séu óskiptanleg sameign þeirra kaupstaða og kauptúna, sem skyldutryggingu hafa haft í félaginu. Og það er mesti misskilningur, ef hann heldur, að þetta sé þýðingarlaust fyrir hlutaðeigandi kaupstaði og kauptún. Það hefir mikla þýðingu fyrir þau, einmitt af því að þetta skapar möguleika til þess að lækka vátryggingargjöldin frá því, sem nú er. Eftir því sem sjóðnum vex fiskur um hrygg, því meiri eru möguleikarnir til þess, að iðgjöldin geti lækkað frá því, sem verið hefir. Og ég get ekki séð nokkra ástæðu til þess að nota þessa sjóði til þess að styrkja menn hér í Rvík eða annarsstaðar til þess að tryggja lausafé sitt. Ég hefi ekki komið auga á, að það séu svo mikil vandkvæði á því að standa straum af brunabótatryggingum á lausafé, að ástæða sé til að veita ríkisstyrk eða taka af þessum sameiginlega sjóði kaupstaðanna til þess að standast þessa áhættu. Ef félagið á að færa út starfsemi sína, þá verður að haga iðgjöldunum þannig, að nýr sjóður geti myndazt, sem getur staðið undir sér sjálfur. — Þetta er í mínum augum augljóst mál.