22.11.1935
Neðri deild: 80. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1462 í B-deild Alþingistíðinda. (2444)

186. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað

Flm. (Jónas Guðmundsson):

Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessu máli. Aðalatriðið er tekið fram í grg., og eins og þar er sagt, er ástæðan fyrir því, að þetta frv. er borið fram, sú, að við teljum af fenginni reynslu undanfarinna 8 ára, að það fyrirkomulag, sem nú er á skipun þessara mála, sýni, að það er óheppilegt bæði fyrir bæjarfógetaembættið og bæjarstjóraembættið, að þau séu sameiginleg.

Það er gert ráð fyrir, að þetta hafi í för með sér um 1 þús. kr. útgjöld fyrir ríkissjóð. En þess ber að gæta, að eftir eitt ár fær þessi viðkomandi starfsmaður aldursuppbót, sem nemur um 400 kr., og auk þess dýrtíðaruppbót, svo að kostnaðaraukinn verður ekki eins mikill eins og lítur út fyrir í fljótu bragði.

Ég vænti þess, að þingið líti á það, að þessu bæjarfélagi sé leyft að skipa svo málum sínum, eins og öðrum bæjarfélögum í landinu, og verði vel við þessari breyt., sem farið er fram á í frv. Og vil ég að lokinni þessari umr. mælast til, að því verði vísað til 2. umr. og til allshn., sem svona mál fara venjulega til.