04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

1. mál, fjárlög 1936

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Það, sem hefir einkennt þessar eldhúsdagsumr. upp á síðkastið, er aðallega það, að umr. hafa mest snúizt um málefni sveitanna. Það má segja, að Bændafl., þótt hann sé ekki stór á þingi og með þjóðinni, hefir tekið mikinn þátt í þessum umr. Lítur út fyrir, að Sjálfstfl. hafi lofað honum að ráða því, að umr. hafa súnizt að mestu leyti um mál sveitanna. Ég er ekki alveg viss um, að Sjálfstfl. hafi gert honum greiða með þessu, heldur hafi hann gert það til þess að forða sér frá því að tala um mál kaupstaðarbúa. Mér dettur líka í hug, að þeir viti, hvernig málum núv. stjórnarflokka er tekið í kaupstöðunum, og þeir eru svo nærri fólkinu þar, að þeir vita dálítið um hlut þess. Það var sagt hér á dögunum, þegar samkomulag stjórnarflokkanna var birt, að þá æluðu sjálfstæðismenn að taka á leigu 3–4 fundarhús til þess að halda mótmælafundi gegn skattaálögunum og þeim málum öðrum, sem stj. hefir komið sér saman um. Það fórst nú einhvernveginn fyrir, að þessir stóru mótmælafundir væru haldnir þá, má vel vera, að þeir verði haldnir síðar, og skal ég ekkert um það segja, en ég gæti hugsað, að Sjálfstfl. hefði komizt að rann um það, að þessi mál stj. væru ekki svo illa séð hjá kaupstaðabúum, heldur ættu jafnvel talsverðu fylgi að fagna, og því hafi þessi fundarhöld öll farizt fyrir. Þess vegna vilja þeir nú tala við fólkið úti um byggðir landsins. Það hefir ekki getað fengið nýju blöðin, og þess vegna ekki getað fylgzt eins vel með þessum málum.

Hv. þm. V.-Húnv. hafði í kvöld eftir áður tilgreindum Alþýðuflokksmanni ummæli, sem finnst rétt að taka til athugunar. Ummælin voru um það, að við hefðum sagt á fundi, hvernig við ætluðum að fara að því að leggja undir okkur fyrst Framsfl. og eyðileggja síðan Sjálfstfl. Þetta er verk hvers flokks. Hver flokkur reynir að bæta við tölu kjósenda sinna, og þess vegna er ekkert athugavert við það, þótt við höfum látið í það skína, að við viljum vinna kjósendur frá þessum flokki. Vaxi fylgi einhvers flokks, hlýtur kjósendum einhvers annars flokks eða flokka að fækka að sama skapi. Ef þetta á að vera til þess að spilla milli Framsfl. og Alþfl., þá er það mikill misskilningur. Þeir eru ekki svo blankir, framsóknarmenn, að þeir vita, að þetta er markmið hvers flokks, og þetta er þeirra markmið líka. En það, sem mér dettur í hug, er það, að það hljóta að vera kjósendur Bændafl., sem eru auðveldast herfang fyrir hina flokkana. Mér finnst þeir vera talsvert villuráfandi á þessum síðustu tímum, því að þótt Bændafl. hafi einhverntíma í byrjun haft einhver vaxtarskilyrði, þegar merkir menn veittu honum forstöðu, þá hafa allar þær vonir brostið, þegar þessir menn veita honum forstöðu. Þá var heldur ekki komið á það samband milli Sjálfstfl. og Bændafl., sem ég lýsti í ræðu í kvöld, sem sé að það lítur út fyrir, að Sjálfstfl. hafi gleypt Bændafl. með húð og hári. Sjálfstfl. er það versta illyrmi að þessu leyti, að hann er kunnur að því að gleypa flokka með húð og hári. Hann gleypti gamla Sjálfstfl. 1929. Það sýndi sig við kosningarnar þá, að hann hafði gleypt hann allan, en samt fitnaði hann ekki, því að útkoman varð litlu betri en áður. Ég hefi stundum verið við veiðiskap og átt þess þá kost að sjá eitthvert það gráðugasta rándýr, svo að ég noti orð hv. 3. þm. Reykv., og veitt því athygli, hversu því hefir lánazt að kyngja stórum bitum. Ég hefi séð tveggja punda urriða gleypa punds urriða, og svo gleypa þeir auðvitað minni seiði líka. Það má segja, að þegar núv. Sjálfstfl. gleypti gamla Sjálfstfl., þá hafi þar tveggja punda urriðinn gleypa punds urriðann. Og hvað yrði honum þá fyrir því að gleypa annað eins seiði og Bændafl., svo að ekki sest nema rétt á sporðblöðkuna af Bændafl. út úr gini Sjálfstfl. En hv. 10. landsk. sárnaði svo þessi lýsing, sem ég gaf af þessu samstarfi og samvinnu Sjálfstfl. og Bændafl., að hann kallaði það rógburð, sem ég fór með, og þó gerði ég ekki annað en að lýsa satt og rétt því, sem farið hefir fram í viðskiptum þessara tveggja flokka. Ég lýsti því satt og rétt, hvernig Jón í Dal hefði jafnan svikið sinn flokk til þess að þóknast sjálfstæðismönnum, og líka hversu sjálfstæðismenn hefðu brugðið gefnum loforðum til þess að þóknast duttlungum Jóns. Svona hófst samvinnan, og því hafði ég þau orð um, að ekki væri ástæða til að ætla, að þetta mundi vel fara að lokum.

Hv. þm. v.-Húnv. talaði um þá ósvífni sósíalista, að heimta yfirráð afurðasölumálanna í sínar hendur. Þessi ósvífni hefir þó ekki gengið lengra en það, að þeir eiga einn mann af fimm í mjólkursölunefnd og einn mann af sjö í kjötverðlagsnefnd. Ég veit ekki, hvernig væri hægt að fara fram á minna heldur en einn mann í hvora n. Og sérstaklega þegar þarf að koma sér vel við neytendurna í kaupstöðunum, þá er ekki nema eðlilegt, að sá flokkur, sem meðal þeirra hefir einkum fylgi, fái að hafa einhver áhrif á, hvernig með þessi mál er farið. En tel það happ fyrir þá, sem með mjólkursöluna fara, að hafa getað fengið menn úr hópi neytenda til að starfa með sér, og ég skoða það óviturlegt af hv. 10. landsk., sem er talinn slægur maður, að hann skuli heimta, að bændur taki þetta að öllu leyti í sínar hendur. Ef svo væri fram farið, er hætt við, að þeir fengju neytendahópinn upp á móti sér, eins og t. d. Mjólkurfélag Reykjavíkur meðan það for með mjólkursöluna. Hinsvegar tel ég viturlegt af hæstv. stj. að taka þetta tillit til neytendanna, að leyfa þeim að taka þátt í þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru í afurðasölumálunum.

Hv. þm. V.-Húnv. sneri út úr orðum mínum um bitlinga, sem hann hafði áður minnzt á. Hann hafði það eftir mér, að þeir bændaflokksmenn hefðu ekkert gert til þess að ná sér í bitlinga. Þetta sagði ég ekki. Ég sagði, að að svo miklu leyti, sem þeir gerðu till. um afurðasölumálin — í þeirra aumu till., orðaði ég það víst —, hefðu þeir gert ráð fyrir nefndum, sem stjórnuðu þessu, en þessi nefndarstörf eru það, sem þeir nú kalla bitlinga. Ég er alls ekki svo viss um, og þessir bændaflokksmenn séu saklausir af að hafa náð sér í bitlinga meðan þeir höfðu sér vinsamlega ríkisstj. Það voru ein svik Jóns í Dal við framsókn, þegar hann braut samþykkt þess flokks til þess að ná sér í stöðu við Búnaðarbankann. Ég er ekki að segja, að hann hafi náð sér þar í bitling, hann innir þarna starf af hendi, þó misjafnir domar séu um, hvernig honum ferst það. Það er ekki rétt að kalla allt slíkt bitlinga, ef menn leggja hæfilegt starf af mörkum fyrir laun sin, en þetta er nú samt gert. Hvernig er það þá með hv. þm. V.-Húnv. í þessu efni? Sóttu hann nokkuð eftir svokölluðum bitlingum? Ekki getur það verið, þegar hann æsist upp hér í ræðum sínum og kallar stjórnarliðið bitlingahítir og þar fram eftir götunum. Það skyldi maður ætla. En það er nú samt eins og mig minni, að hann sé ekki alveg frí við þetta. Það er eins og mig rámi eitthvað í, að þegar hann átti mann í ríkisstj., þá hefði hann nokkra bitlinga samtímis. Ég man eftir þremur, en býst við, að þeir hafi verið fleiri. Hann var endurskoðandi landsreikninganna, — það er kallaður bitlingur nú á dögum. Hann var settur í n. til þess að undirbúa mjólkurlögin; ég ímynda mér, að hann hafi ekki unnið þar fyrir ekki neitt. Ég hefi að vísu ekki farið yfir bókhald ríkisféhirðis til að athuga þetta, eins og bændaflokksmenn hafa stundum verið að gera til þess að tina saman ýmsar tölur. En ég þykist vita, Þó hér sé um að ráða góðan mann, sem vill spara fyrir föðurlandið, að hann hafi eitthvað tekið fyrir þetta. Þá var hann settur í innflutnings- og gjaldeyrisnefnd, og var hann alllengi í þeirri n. Er mér beinlínis kunnugt um, að hann gerði það ekki fyrir ekki neitt. Hann fékk borgun á hverjum mánuði fyrir það starf, sem náttúrlega er nauðsynlegt starf, en í hans munni heitir það bitlingur, og er því bezt ég orði það svo. Þá er ég búinn að telja bitlinga, sem þessi hv. þm. hafði samtímis, og þó ég satt að segja viti dálítið meira um hans bitlingaveiðar í tíð þeirrar ríkisstj., sem hann studdi, þá vil ég ekki vera að angra hann meira.

Ætla ég þá að sleppa þeim bændaflokksmönnunum, sem hafa fengið hér svo herfilega útreið í kvöld, að ekki er á það bætandi. Af því þeir eru með hortugheit, er eðlilegt, að þeim sé lúskrað dálítið sjálfum með þeim vopnum, sem þeir eru að myndast við að nota.

Hv. þm. V.-Sk. flutti hér einskonar fyrirlestur í dag. í honum var reyndar ekki neitt, sem ég þarf sérstaklega að svara, því mest af efninu var aðeins hugleiðingar, og það fáa, sem svaravert var, hefir hæstv. fjmrh, hrakið ofan í hv. þm. En mér þykir rétt að benda á, að þessi ræða var full af þeim dæmalausa þjóðrembingi, sem ekkert á skylt við sanna sjálfstæðisbaráttu. Ef maður ber þessa ræðu saman við þær ræður, sem þýzku blöðin flytja á hverjum degi eftir foringja nasista, þá er þar svo mikill skyldleiki á milli, að ef tekið væri úr ræðu hv. þm. V.-Sk. það, sem beinlínis er bundið við nafn Íslands, þá gæti enginn þekkt hana frá ráðum hinna þýzku nasista. Þessi hv. þm. er alltaf í einu orði að tala um kommúnista og stjórnarflokkana. Nú veit hann vel, svo framarlega að hann fylgist svo með í opinberum málum sem þingmannsskyldan leggur honum á herðar, að kommúnistaflokkurinn í þessu landi lætur ekkert tækifæri ónotað til þess að svívirða Alþfl., reynir að leggja allar hans till. út á versta veg og rægja hvert það mál, sem hann ber fram. Samt telur hv. þm. þetta einn og sama flokk, þessa flokka, sem berjast sín á milli hinni harðvítugustu baráttu, jafnharðvítugri baráttu og þeir berjast gegn Sjálfstfl. Þetta ætti hv. þm. að vita. En hann gengur framhjá því, af því hann hefir þýtt einhverja nasistaræðu og brugðið nafninu Ísland inn í á viðeigandi stöðum, til þess að villa mönnum sýn. Þessi þjóðrembingur hv. þm. á ekkert skylt við hið sanna sjálfstæði; hann á ekkert skylt við baráttuna fyrir því að reyna að skapa fólkinu sæmileg lífskjör og manna það, svo það geti tekið að sér það sjálfstæði, sem við vonum allir, að þjóðin geti tekið við á sínum tíma. Það er hið sanna sjálfstæði, en ekki sá nasistíski þjóðrembingur, sem kom fram í ræðu hv. þm. V.-Sk. í dag.