16.12.1935
Efri deild: 96. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (2467)

186. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er komið frá Nd. og var flutt þar af hv. 6. landsk. eftir beiðni bæjarstj. Norðfjarðar. Frv. gekk óbreytt og andmælalaust í gegnum þá deild og allshn. hér leggur til, að frv. verði samþ.

Í grg. frv. er drepið á ástæðurnar til þess og skýrt frá því, hvaða breyt. frv. geri á afstöðu þess embættismanns, sem hér ræðir um, til ríkissjóðs. Ætlazt er til, að launin hækki um 1100 kr. Það hefir komið fram í þessum kaupstað, að það fyrirkomulag hefir reynzt óheppilegt, að lögreglustjóri væri jafnframt bæjarstjóri, enda hafa engin bæjarfélög, nema Siglufjörður, slíka tilhögun lengur. Það er ljóst, að óheppilegt er, að sami maður annist innheimtu bæði fyrir bæjar- og ríkissjóð, og eðlilegt, að bæjarsjóður mæti fremur afgangi, þegar lögreglustjóri, sem er embættismaður ríkisins, innheimtir gjöld fyrir báða aðilja. Það er líka óheppilegt, að sami maður og á að innheimta fremji lögtök og kveði upp úrskurði. Það hefir hvarvetna reynzt óvinsælt, enda alstaðar afnumið, nema á Siglufirði. En þar er bæjarfógeti lítið launaður úr bæjarsjóði, svo að bæjarsjóður hefir haft efni á því að kaupa honum aðstoð. En í Neskaupstað verður bærinn að greiða bæjarfógeta 3000 kr., auk skrifstofukostnaðar. Það er því eðlilegt, að nokkur óánægja sé með það, að sá maður verði að láta störf sín í þágu ríkisins ganga fyrir, af því að hann er talinn embættismaður þess.

Eftir till., sem liggja fyrir um breyt. á umdæmum sýslumanna, er gert ráð fyrir, að sýslumaðurinn í Suður-Múlasýslu verði jafnframt bæjarfógeti í Neskaupstað. Þetta frv. ætti frekar að greiða fyrir þeirri breyt. Með þessu vil ég þó ekkert um það segja, hvort sú ráðstöfun er heppileg eða ekki. — Eins og ég hefi þegar sagt leggur allshn. til, að frv. verði samþ.