04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

1. mál, fjárlög 1936

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég tel rétt að eyða örfáum orðum að síðasta ræðumanni, sem er hinn rétti hæstv. forseti Sþ. Hann gat ekki setið á sér — ég vil ekki segja á strák sínum, af því hann skipar svo virðulegt embætti — að stiga niður úr sæti sínu til þess að hjálpa sínum flokki, og stjórnarflokkunum báðum, að eltast við allar þær ákúrur og þær virkilega veigamiklu ákærur, sem komið hafa fram frá stjórnarandstæðingum. Sérstaklega var hann aumur út af þeim orðum, sem ég let falla í fyrsta kafla ræðu minnar í dag, þar sem ég benti með nokkrum orðum á atburðinn 1. des. Sá atburður mun hv. þm. eins ferskur í minni eins og mér og hverjum öðrum. Af orðum hv. 4. landsk. mátti ráða það, sem ég gat um, en lagði ekki mikla áherzlu á, að stjórnarflokkarnir hefðu ekkert haft við þetta að athuga. Nú fékkst full staðfesting á því, að þeir hafa talið gott og gilt það, sem flutt var hér af svölum alþingishússins af hálfbróður þeirra í flokkslegu tilliti, sem þar talaði,og vilja áfellast þá, sem ekki kunnu við það.

Annað var ekki í ræðu hv. 4. landsk. svaravert, enda hefi ég ekki tíma til að fara frekar út í það, sem hann sagði. Hann má kenna mig við hvaða þjóð sem hann vill, ég tala sem Íslendingur út frá íslenzku sjónarmiði og tel það eitt rétt, en ekki þann undirlægjuhátt gagnvart öðrum þjóðum, sem hefir lengi lifað í flokki þessa hv. foringja. Þá verð ég að víkja að þeim öðrum aths. við mál mitt, sem fram hafa komið upp á siðkastið. Þó skal ég geta þess að því er snertir afurðasölumálin, að ekkert hefir komið fram, sem getur talizt hrekja það, er ég sagði um þau mál, sem var í rauninni samandregið álit stjórnarandstæðinga, er þeir hafa haldið fram í þeim umr., sem farið hafa fram um þessi mál. Þegar hæstv. forsrh. svaraði þeim, sem deilt hafa á stj. fyrir að lækka mjólkurverðið hér í Rvík, komst hann svo að orði, að mjólkin hefði í raun og veru ekki lækkað, því 42 aura verðið áður en samsalan tók til starfa hefði aðeins verið á pappírnum; það hefði verið gefinn svo og svo mikill afsláttur. Skömmu seinna sagði sami ráðh., að dreifingarkostnaðurinn hefði verið 16 aurar hjá Mjólkurfél. Rvíkur. Þá hefir hann miðað við 42 aura verð, því útborgaðir voru 26 aurar fyrir lítra. Í þessu kemur fram mótsögn, sem maður er að vísu ekki óvanur við hjá þessum hæstv. ráðh., en ég bendi á þetta vegna þess, að að því leyti sem þetta er vísvitandi, er það sýnilega gert til þess að blekkja áheyrendurna, því menn vita, að Mjólkurfél. Rvíkur vann jafnan úr einhverju af mjólkinni, og hefir þá fengið lægra verð fyrir það.

Þá var þessi hæstv. ráðh. að blása sig eitthvað upp hér fyrir hönd skjólstæðings sins, forstjóra raftækjaeinkasölunnar. var það þó ekki svo nauðsynlegt, því það, sem ég sagði um þennan mann, er að öllu leyti réttmætt, og má t. d. vitna til þess, að stjórnarblaðið, Alþýðublaðið, hafði um hann svæsnari ummæli, því ég byggði á staðreyndum, og veit ég þó ekki til, að hann hafi gert neitt til þess að hrinda af sér þeirri árás. Skal ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkuð af því, sem Alþýðublaðið sagði 2. apríl síðastl. um þetta fyrirtæki, raftækjaeinkasöluna, og forstjóra hennar:

„Sú ráðstöfun, að sameina raftækjaeinkasöluna og tóbakseinkasöluna undir einni forstjórn, er þegar mjög óheppileg. ... En auk þess að vera óheppileg verður þessi ráðstöfun að teljast mjög vítaverð, þar sem vitað er, að hinn nýskipaði forstjóri verður að semja við sjálfan sig um kaup á birgðum af þeim vörum, sem einkasalan á að verzla með. Þar við bætist, að hlutaðeigandi maður rekur einnig smásölu á raftækjum, og mun þar af leiðandi halda áfram að skipta við sjálfan sig, og hefir jafnvel heyrzt, að hann muni hafa í hyggju að gera það í stórum stíl. Er það og ekki ótrúlegt, þegar á það er litið, að hann hefir haft sömu aðferðir á sviði tóbaksverzlunarinnar hér í bænum“. Ég læt þetta nægja. Það er úr hæstv. stjórnarblaði, frá þeim, sem bezt ættu að þekkja þennan mann, því hann var flokksbróðir þeirra þangað til nýlega, og fékk hann hæfilegar kveðjur frá þeim, þegar hann fór, sem vitna um, hvert álit þeir höfðu á manninum. Annars er einkennilegt af hæstv. ráðh. að verja sig með því, að ekki megi nefna aðgerðir í einhverju máli af því, að utanþingsmaður sé við það riðinn. Vitanlega er óheyrt að halda slíku fram, ef það er meiningin, að ekki megi gagnrýna það, sem hæstv. stj. gerir, vegna þess að utanþingsmenn komi við það. Það er gefið, að við flestar aðgerðir, sem stj. lætur sér úr hendi fara, eru riðnir meira og mínna hinir og aðrir menn, sem ekki eiga setu á Alþingi. Þetta er aðeins til þess að skjóta sér undan réttmætum ákúrum, enda eru þeir ekki að hugsa um slíkt sjálfir, hæstv. ráðh. Ég veit ekki betur en hæstv. forsrh. réðist hér á utanþingsmann, Eyjólf Jóhannsson, og kallaði hann lygara, glæpamann o. s. frv. Sama gerði hv. 9. landsk. Það er vitað, að þessi maður getur ekki fremur borið hönd fyrir höfuð sér hér heldur en aðrir, sem ekki eiga sæti á þingi. Og síðast í kvöld henti það hæstv. forsrh. að blanda öðrum utanþingsmanni, Jóni í Dal, hvatskeytlega inn í umr.; veitti hann honum ákúrur, sem að vísu voru sumpart á litlum rökum byggðar og sumpart ósannaðar. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi um, hvernig þessir menn fara sjálfir að því að deila á aðra.

Þá skal ég víkja nokkrum orðum að hæstv. fjmrh. Hann þóttist ætla að svara því, er var mergurinn málsins í ræðu minni, þeirri, er hæstv. forseti kallaði þýzku ræðuna; veit ég ekki, hvort það er af því, að raftækjaeinkasalan sé í þeirra herbúðum talin þýzk, en nokkuð er það, að fullyrt er, að hún sé praktíseruð hér úti sem þýzk væri. því það er sannað, að raftækjaeinkasala ríkisins er öðrum þræði þetta firma, sem kallað er A. E. G., sem forstjórinn einmitt var riðinn við, og er máske ennþá, og fulltrúi hans við þetta starf líka. Fyrir þessu er hægt að leggja fram sannanir hvenær sem er, en ég ætla aðeins að henda á eitt atriði, sem er áberandi. Hér er verið að byggja sundhöll, eins og menn vita, sem er eign ríkisins. Samt leyfir raftækjaeinkasalan sér að koma því svo fyrir, að þessi stöfnun getur ekki fengið nokkuð dýran hlut, sem hún þarf að fá frá útlöndum, frá öðru firma en A. E. G., enda þó muni talsvert miklu, jafnvel einum þriðja, á verðinu. Það var sem sé þannig, að panta átti rafmótor fyrir sundhöllina. Leitað var upplýsinga hjá verzlunarhúsi hér og pöntun gerð, en áður en endanlega var gengið frá þessari verzlun var raftækjaeinkasalan komin á. Þurfti hún nú að koma hér til skjalanna og heimtaði, að tækið væri keypt frá A. E. G. Varð að gera það, þó miklu munaði á verðinn. Rafmótorinn mátti fá hjá því firma, sem upphaflega átti að skipta við og hefir beztu vörur, fyrir 330 ríkismörk, en af því taka varð hann hjá A. E. G. kostaði hann 480 ríkismork. Munaði þannig 150 ríkismörkum á þessum litla hlut. Þetta mun liggja skjallega fyrir, og þannig er með hvað eina.

Hæstv. ráðh. heldur fram, að raftækjaeinkasalan leggi ekki meira á en lög heimila. En reynslan sýnir allt annað, og skal ég nefna nokkur dæmi. Sérstök tegund vartappa kostaði hér áður 6.95, en kostar frá einkasölunni 18 kr. stykkið, eða hafa með öðrum orðum hækkað um 158%. Önnur tegund vartappa var fáanleg fyrir 7.30, en er nú komin upp í 25 kr. stykkið. Þar er hækkunin 242%. Menn athugi það, að samkv. lögum mátti leggja á mest 75%. Þá var sömuleiðis vartappategund, sem kostaði 15.85, en kostar nú 43 kr. (hækkun 17%), og enn ein, sem kostaði áður 17.25, en nú 70 kr. Þar er hækkunin komin upp í 305%. Þá má benda á saumavélarlampa, sem áður kostaði 3.15 stykkið, en nú er kominn upp í 15 kr., það er 376% hækkun. Fyrir þessu er hægt að leggja fram fullnægjandi gögn hvenær sem er. Má merkilegt heita, ef hæstv. ráðh. vill bera fyrir sig fávizku í þessu efni. Sýnir hann sig þá fávísari heldur en fávizkan leyfir, ef hann lætur aðra segja sér, að ekki séu lögð á nema 75%, og hleypur svo eins og fífl með það inn í þingsalina.

Svipað er að segja um verðhækkunina á bifreiðum. mér þykir leiðinlegt, ef hæstv. ráðh. hefir það eftir forstjóra viðtækjaverzlunarinnar, að bílar hafi ekki hækkað í verði, því ég þekki hann ekki að neinu illu og þykir því líklegra, að hér sé um að kenna fávizku og óskammfeilni hæstv. ráðh. Það er á allra vitorði, og er hægt að leggja það fram skjalfest, að bílar hafa hækkað í verði, ekki minna en 50%. Auk þess er það, sem verra er en þessi hækkun, að varan er að ýmsu leyti miklu verri en áður, svo fróðir menn telja jafnvel óforsvaranlegt að selja slíka hluti. Hvað verðhækkunina snertir, þá segja þeir, sem bezt þekkja til, þeir, sem fengust við þessa verzlun áður, að hún geti ekki verið að kenna markaðinum ytra. Þeir vita, að ef um nokkra verðhækkun er að ræða þar, þá er hún í hæsta lagi ekki nema 5%, eða eitthvað því um líkt.

Ég hefi í kvöld fengið kvittanir frá þeim, sem bílasöluna höfðu áður, og einkasölunni, sem eiga við sömu tegund bíla. Samkv. þeim kostaði bili af þessari tegund áður en einkasalan komst á 3040 kr., en kostar nú 3700 kr. Það eru 6 til 7 hundruð, sem þarna munar, og þó átti þessi tegund bíla eiginlega að kosta 3850 kr. til Péturs og Páls, en af því í hlut átti firma, sem verzlar mikið og borgar kontant, þá fékk það þennan afslátt. Einnig er hægt að benda á fólksbílategund, sem kostaði áður 4400, en kostar nú ekki minna en 5600–5800 kr. Svona má lengi halda áfram að telja.

Ég ætla að enda á því, af því tími minn er nú búinn, að geta aðeins um það, að hæstv. fjmrh. var að vandræðast yfir því, að þessi forstjóri hefði látið grátbæna sig til þess að taka að sér að vera fyrirmaður raftækjaeinkasölunnar. Ef svo hefir verið, er það einkennilegt, að ekki skyldi mega verða við þeim gagngerðu kröfum, sem fram komu um, að hann léti af forstöðu þessa fyrirtækis, þegar jafnvel stjórnarliðar töldu til þess ýmsar ástæður, að hann væri til þess starfa óhæfur. En nú bregður svo við, þegar gögn liggja fyrir, sem mótmæla stjórn þessa forstjóra á raftækjaeinkasölunni, að hann tekur það ráð að senda umsogn sína í stjórnarráðið, og nú mun hæstv. fjmrh. vera að yfirvega, hvort hann á að gefa hópum lausn í náð.