06.12.1935
Neðri deild: 92. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1479 í B-deild Alþingistíðinda. (2484)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Forseti (JörB):

Það er alveg óþarfi af hv. þm. V.-Húnv. að vera að geta það í skyn, að hann muni tala til morguns, þó að hann tali hér um allt annað en þingsköp heimila. Ég hefi enga tryggingu fyrir því, að aðrir stilli umr. í hóf á morgun, þó e. t. v. hv. þm. V.-Húnv. muni gera það. Ég tel það því fremur óþarfa að fresta umr. nú, þar sem ég gaf fyllilega í skyn, að ég vildi ljúka umr. í nótt. Ég get látið þess getið, að aðeins tveir þm. hafa fjarvistarleyfi hjá mér, þó ýmsa vanti hér í deildina.

Þó nokkuð sé orðið síðla kvölds, er vinnudagur ekki ennþá orðinn svo langur, að ekki megi vel halda áfram enn um stund, sérstaklega þegar þess er gætt, að enn eru mörg mál, sem bíða afgreiðslu, en það er ætlun allflestra þm. að ljúka þingstorfum fyrir jól. Ég vil því mælast til þess við hv. þm. V.-Húnv., að hann bregðist eins vel við og hv. þm. A.-Húnv. og tali stutt og skýrt og beini máli sínu að aðalatriðum málsins, til þess að flýta fyrir afgreiðslu þess, þar sem við munum allir telja, að hér sé um mjög merkilegt mál að ræða.