06.12.1935
Neðri deild: 92. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1480 í B-deild Alþingistíðinda. (2489)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Hannes Jónsson:

En veit ekki hæstv. forseti, að ég verð að tala hér yfir hæstv. fjmrh. hálfsofandi og þessum dordinglum hans, sósíalistunum? Hann hlýtur að viðurkenna, að slík ræðuhöld eru tilgangslítil, og verð ég því enn að mælast til þess, að hæstv. forseti taki ósk mína til greina. Verður það ekki gert? (Forseti: Ég er fyllilega búinn að láta í ljós ætlun mína og álit). Hvað má ég tala lengi? Ég óska að fá að vita það. (Fjmrh.: Byrjaðu bara, þetta er ekki svo merkilegt). Ef ég mætti, þá mundi ég alltaf tala til kl. 3, en ég vildi gjarnan fá að vita það, svo ég gæti hagað ræðu minni samkv. því. (PZ: Er ekki hv. þm. eini maðurinn, sem hefir sofið hér í d.?). Hv. 2. þm. N.-M. ætti nú að hugsa um og passa sínar ær í nótt og brytja þær síðan niður í kýrnar í fyrramálið og mjólka þær á morgun. (Forseti: Ég vil benda hv. þm. á að hætta þessu skrafi hér í d., sem hann hefir nú viðhaft um stund). Það getur ekki verið óforsvaranlegt af mér að svara því, sem beint er til mín, en ég vil beina því til hæstv. forseta, að hinir þm., sem hér eru staddir, þurfa ekki að nota annars manns ræðutíma. — Annars sé ég ekki ástæðu til þess að halda áfram þingfundi, en ég get gjarnan byrjað hér á fyrstu brtt. frá hv. landbn., við 1. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að í stað „75—20%“ komi: sem mest. Það er ekki nema eðlilegt, að hv. landbn. vilji ekki binda þetta við 15—20% og komi því með till. um þessa orðabreyt., og get ég vel fallizt á, að þetta sé ekki það allravitlausasta, sem n. hefir dottið í hug, þó hugkæmnin sé ekki ýkjamikil, enda er sá tími farinn til nefndarstarfa, að ætla mætti, að ekki hefði mikið sloppið framhjá henni.

Við 2. gr. virðist líka vera rétt að flytja brtt., og get ég samþ. þær flestar. Tel ég rétt, að ákvæði 1. málsgr. eigi að vera víðtækari eða ná jafnvel lengra en gert er ráð fyrir, og er því sú brtt. ekki flutt að ófyrirsynju. Eins er ég samþykkur hinum brtt. við þessa grein í aðalatriðum.

Mér þykir miður, ef hv. landbnm. eira ekki undir umr., sérstaklega hefði ég vonazt eftir, að hv. frsm. færi ekki langt burt úr deildinni.

Önnur brtt., um stafl. b., er aðeins orðabreyt., sem að vísu er óþörf, en gjarnan má gera hv. landbn. til geðs að samþ. hana.

Þá er brtt. við a-liðinn, þar sem gert er ráð fyrir, að jarðir, sem lagztar eru í eyði, skuli öðlast rétt til að kallast nýbýli, ef þær eru teknar til endurbyggingar. Þetta er ekki nema rétt ákvæði og sjálfsagt, og var það í frv. því, sem við hv. 2. landsk. lögðum fram.

Við 4. gr. er brtt. við það ákvæði frv., er lýtur að sambýlum, þannig að í staðinn fyrir 10 komi 5. Er það alveg í samræmi við ákvæði, er við höfðum sett í okkar frv., enda sýnist það vera svo, að margar af brtt. þeim, er fyrir liggja frá hv. landbn., séu þaðan lánaðar, og virðist sem eins gott mundi hafa verið að taka okkar frv. og leggja það til grundvallar að fullu.

Um 5. brtt., um að fella 5. gr. í burt, er það sama að segja og fyrri till. í þessu efni. Kemur í ljós með brtt., hvernig frá frv. þessu hefir verið upphaflega gengið, þar sem n. verður að leggja til, að hálfar og heilar greinar þess verði strikaðar burt. — Um 6. brtt., við 6. gr. frv., sem verður 5. gr., er fátt að segja. Greinin er aðeins orðuð um, og aðaltilgangurinn með því er að ná í þessari gr. því orðalagi, er taki af öll tvímæli um þau atriði, sem með henni skuli tryggja. Hygg ég, að orðalagið verði nokkurnveginn traust, en geti ekki valdið ágreiningi, og get ég samþ. þessa brtt. En það hefði verið ólíkt skjótlegri afgreiðsla um þetta efni, ef frv. okkar Bændaflm. hefði verið tekið og lagt til grundvallar.

Þá eru ákvæði 7. gr., eða brtt. um landsstærð nýbýlis, þannig að eftirlit sé með því haft, hvort landrými telst nægilegt. Þetta er ekki nema sjálfsagt ákvæði, sem ég get fallizt á, ekki sízt þar sem tilgangur n. með brtt. þessari virðist hafa verið sá, að tryggja hverju nýbýli nægilegt landrými til þess að fjölskylda geti lifað af því. — Er nú ekki hæstv. forseti búinn að fá nóg? (Forseti: Ég get hlustað miklu lengur. —Fjmrh.: Þetta er léleg ræða!).

Um ákvæði 8. brtt. get ég verið fáorður. Það er vitanlega sjálfsagt, að rannsókn fari fram um allar aðstæður, og þá sérstaklega á þeim atriðum, sem fram eru talin í staflið 1—4.

Ég get líkt sagt, að ekki sé nema rétt og sjálfsagt að taka þetta fram í orðalagi gr., svo sem er í þessum brtt. Hitt getur frekar orkað tvímælis, hvort ekki skuli fleiri atriði tekin með, og mun ég kannske síðar víkja að því við þessa umr., þegar fleiri eru á fundi.

Um brtt. við 11. gr. er það að segja, að ég álít, að hún nái ekki því marki, sem beri að stefna að. Í okkar frv. var gert ráð fyrir því, að yfirstjórn þessa máls væri í höndum atvmrh., sem fæli aftur Búnaðarfél. Íslands að hafa framkvæmd þeirra með höndum. Hér er gert ráð fyrir, að skipaður verði nýbýlastjóri, en að hægt sé að fela búnaðarmálastjóra það starf. Það er nú reyndar gert ráð fyrir, að svo geti farið, að það verði ekki búnaðarmálastjóri, sem hafi þetta mál með höndum, heldur geti svo farið, að skipaður verði alveg sérstakur nýbýlastjóri, og svo eru ákvæði sett um það, hvernig laun hans skuli ákveðin. Ég teldi nú réttara, að því væri slegið föstu, hvernig þessu nýbýlastjórastarfi yrði háttað, hvort búnaðarmálastjóra yrði falið þetta eða hvort sérstakur nýbýlastjóri yrði skipaður, eða hvort einhverjum starfsmanni öðrum í Búnaðarfél. Íslands yrði falið þetta starf.

Þá þykir mér breyt. á 12. gr. vera öðruvísi en ég hefði óskað, þar sem lagt er til, að þriggja manna nýbýlanefnd skuli skipuð til þriggja ára í senn, af landbrh. Þessi nýbýlan. er sjálfsagt algerlega óþörf. Mér virðist, að starfsmenn Búnaðarfél. gætu framkvæmt það starf, sem henni er ætlað, án þess að landbrh. komi þar til skjalanna með útnefningu nefndar. Sama er að segja um það, að mér virðast ákvæðin um kaupgreiðslur til n. vera þannig vaxin, að það mundi vel gerlegt að leggja störf, sem þessari n. eru ætluð, undir Búnaðarfél. Ísl., án þess að það orsakaði rýrnun starfskrafta þess vegna annara máletna. Það kemur líka fram í 13. brtt., því að þar er B. Í. gert að skyldu að láta starfsmenn sína aðstoða nýbýlastjóra eftir þörfum í starfi hans.

Viðvíkjandi 14. brtt., við 15. gr. frv., sem verður 13. gr. eftir till. n., er það að segja, að ég hefði óskað, að hv. frsm. n. hefði verið viðlátinn og getað svarað hér til saka í sambandi við það, sem ég hefi að athuga við þá brtt. Ég hefi ekkert sérstaklega út á b-lið brtt. að setja. Þó þyrfti að taka atriði þess liðar skýrar fram. Getur verið, að ég skýri það nánar síðar við umr.

Um 16 gr. hefi ég ekki margt að segja. Þó hygg ég, að orkað geti tvímælis, hvort ekki ætti að hafa strangara skilyrði fyrir því, að ábúðarþurfi fái aðstoð ríkis til að stofna nýbýli, heldur en það er hér, nefnilega að hann hafi starfað við landbúnað aðeins í 2 ár. A. m. k. vildi ég, að það væri tekið fram, að forgangsrétt að slíkum býlum ættu þeir, sem lengur hefðu starfað við landbúnað, og væri e. t. v. ástæða til að veita alveg sérstök forréttindi í þessu efni þeim, sem búnir væru að ganga á landbúnaðarskóla.

Vegna ákvæða 19 gr., þar sem gert er ráð fyrir, að nýbýli, sem ekki eru í einstaklingseign, skuli byggð samkv. 1. um erfðaábúð og óðalsrétt, vil ég taka það fram, að mér finnst það nokkuð ófrjálst, ef hlutaðeigendur mega ekki um það velja, hvort þeim sé aðeins byggt til nokkurra ára eða til lífstíðar, þar sem þeir með því móti gætu öðlazt rétt, sem af slíkum leiguliðum er tekinn með þeirri löggjöf um erfðaábúð og óðalsrétt, sem fyrir þessu þingi hefir legið. Ég geri nefnilega ráð fyrir því, að margir þeir, sem nú eru leiguliðar ríkisins, muni ekki óska eftir því að fá byggingu eftir þessum l., einmitt fyrir það, að þeir mundu með því missa af ýmsum þeim hlunnindum, sem þeir nú njóta. [Frh.].