07.12.1935
Neðri deild: 93. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (2493)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal vera eins fáorður og ég get, vegna þess að það er yfir litlum tíma að ráða til þess að koma málinu í gegn áður en Sþ. hefst, en hinsvegar mjög mikils virði, ef hægt er að ljúka þessari umr. málsins.

Ég vil þá fyrst svara hv. meðnm. mínum, hv. þm. A.-Húnv., sem talaði hér í gær um það ágreiningsatriði, sem hann gerði í n., sem sé stjórnarfyrirkomulagið. Hann vill koma stjórn þessara mála þannig fyrir, að það sé Búnaðarfél. eitt, sem hafi þau með höndum, og annaðhvort búnaðarmálastjóri eða einn maður frá Búnaðarfél. sé nýbýlastjóri. Meiri hl. n. hefir ekki getað fallizt á þessa till., og ég fyrir mitt leyti, þó ég treysti Búnaðarfél. Ísl. vel til þeirra hluta, sem því hefir verið falið, álít ég ekki heppilegt að fela því þetta starf. Fyrst og fremst finnst mér það eðlilegt, að þar sem þetta er sérstakur þáttur í framkvæmdarstarfi ríkisstj., þá heyri það beint undir hana og hún feli einum ákveðnum manni að fara með þetta starf. sérstaklega vegna þess, að sá maður, sem er í búnaðarmálastjóraembættinu, hefir þar tryggt starf aðeins milli búnaðarþinga. Búnaðarþingið gegnum búnaðarfélag stjórnina getur þar af leiðandi sett búnaðarmálastjóra frá og tekið nýjan í staðinn svo oft sem henni þykir máli skipta. En sá maður, sem er nýbýlastjóri, þarf að hafa aðstöðu til að vinna að því starfi samfleytt árum saman. Það væri mjög illa farið, ef sá maður, sem er þessu starfi vaxinn, yrði að láta af stjórn þess vegna þess, að hann getur ekki lengur haldið öðru starfi, sem hann hefir á hendi hjá öðrum aðila, eins og Búnaðarfél. Ísl. Þess vegna álít ég það eðlilegt, að nýbýlastjóri hafi aðstöðu til að gegna því starfi samfleytt í mörg ár, ef hann álízt hæfur til þess, en að ríkisstj. þurfi ekki að eiga það undir öðrum aðila, hversu lengi hún getur haldið manni í þeirri stöðu. Þetta álít ég vera aðalagnúana á því að ákveða það, að búnaðarmálastjóri skuli alltaf vera nýbýlastjóri. Hinsvegar er ákvæði um það í frv., að það megi fela þetta starf búnaðarmálastjóra.

Þá vildi ég svara hv. þm. V.-Húnv. nokkrum orðum. Hann talaði hvatvíslega um það, að n. hefði ekki lagt frv. þeirra félaga til grundvallar fyrir þessum brtt. sínum, og hélt því fram, að ef hún hefði gert það, þá hefði þingi og þjóð sparast útgjöld svo tugum þúsunda skipti. Ég held nú satt að segja, að n. hafi aldrei komið til hugar að gera slíkt, því ég efast um, að nokkuð minni tími eða fyrirhöfn hefði farið í það að samræma brtt. n. við það frv. heldur en hitt. En hinsvegar vil ég neita því, að það hafi stafað af nokkrum „partiskum“ ástæðum í hans garð, að frv. var ekki notað, heldur vegna þess, að okkur fannst hitt að mörgu leyti betra, þó að við værum ekki alveg ánægðir með niðurröðun frvgr. og efni í þeim.

Þá var það ein aðalaðfinnslan hjá hv. þm. V.-Húnv. gegn frv., að of lítill styrkur væri veittur til nýbýla, og miðaði hann þá m. a. við sitt eigið frv. En n. álelt, að það gæti ekki komið til mála, að beinn styrkur úr ríkissjóði gæti orðið 10—12 þús. kr. á hvert býli, því þar sem geta ríkisins væri takmörkuð, þá yrðu það ekki nema örfá býli árlega, sem hægt væri að koma á fót með svo ríflegum styrk. Og í öðru lagi töldum við, að það sé rétt að haga þessu þannig, að aðallega sé átt við smá og ódýr býli, af þeim ástæðum, sem ég tók fram í framsögu minni hér í nótt, að við ætluðumst til þess, að þessi býli eigi aðallega að byggjast á framleiðslu til eigin þarfa heimilisins, og þess vegna vildum við haga kostnaðinum þannig, að vextir og afborganir yrðu sem minnstar. Þá vildi ég einnig í þessu sambandi benda á þá hættu, sem hv. 7. landsk. réttilega benti á, og hún er sú, að ef mjög greiður aðgangur er að býlunum og til þeirra veittur mjög ríflegur styrkur, þannig að þau yrðu, eins og menn hafa komizt að orði hér í umr., eins og uppbúið rúm, sem menn geti gengið í, þá verði það til þess að auka flottann frá eldri og erfiðari býlunum og vinna að því að leggja þau í eyði. Þarna er töluverð hætta, sem n. kom auga á og ræddi sín á milli, að nauðsynlegt væri að hafa ekki bilið milli möguleikanna til þess að stofna þessi nýju býli og búa á eldri býlunum það mikið, að það verði til þess að draga menn óeðlilega mikið frá eldri býlunum að þeim nýju. Annars vil ég segja það, að þessi hætta þarf ekki að vera eins mikil eins og hv. 7. landsk. gerði ráð fyrir, vegna þess, að það er ákvæði í frv. um það, að enginn geti fengið nýbýlastyrk eða komizt undir ákvæði l., ef hann á býli eða hefir átt í eitt ár aftur í tímann, er hann sækir um slíkan styrk. Þarna verður að fara bil beggja, búa ekki til óeðlilegan aðstöðumun milli eldri og nýju býlanna, og ég held, að með sínum till. hafi n. nokkurn veginn stillt þessum málum í hóf.

Þá var hv. 7. landsk. að spyrja um það, hvernig n. hefði hugsað sér að veita styrk til ræktunar. Ég skal ekki neita því, að það þyrfti kannske að vera nánar gerð grein fyrir því í l., en þó hygg ég, að það mætti koma fyrir í reglugerð nánari ákvæðum um það. En það, að við vildum binda meiri hluta styrksins til bygginganna, stafar af því, að við álítum, að hin eiginlega nýbýlamyndun sé ekki hafin fyrr en byggingin er fengin, og þess vegna sé ekki rétt að leyfa takmarkalaust, að sá styrkur, sem ríkið leggur til nýbýla, fari allur í ræktun, því þá gæti svo farið, að ekkert yrði úr byggingunni. Það má vitanlega athuga það til 3. umr., hvort þörf sé á nánari ákv. um það, hvernig þessum styrk skuli varið, en ég býst við, að því mætti koma fyrir í reglugerð, sem gert er ráð fyrir að gefa út samkv. þessum lögum.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta að sinni, og geymi mér þá heldur aths. til 3. umr.