04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (250)

1. mál, fjárlög 1936

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. var allmikið niðri fyrir síðast, er hann talaði, enda hefir hann víst þótzt standa sig vel. Hann byrjaði með því að hártoga það, sem ég sagði um í aurana. Hann hélt því fram í gær, að sölukostnaðurinn lækkaði úr 16 aur. niður í 9 aur., og að þar græddust í aur. Ég sagði frá því, að bændur hefðu hringt til mín og spurt, hvort ekki væri hægt að rukka hæstv. ráðh. um þessa 7 aura, sem gera alls ca. 350 þús. kr. Ég skýrði frá því, að þetta um 7 aurana væri ekkert annað en vitleysa, því að sölu- og dreifingarkostnaðurinn hefði verið kominn í 101/3 eyris, þegar samsalan byrjaði. Það væri því blekking að tala um 16 aura dreifingarkostnað.

Hæstv. ráðh. ætlaði að slá sér upp á því að vitna í orð, sem ég hefði sagt, meðan ég var atvmrh., sem sé þau, að ég gleddist af því, að kjötverð í Englandi hefði hækkað það ár, miðað við árið áður. Ég skal nú lesa upp úr þingtíðindumtm, hvað ég sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Og nú eru þau gleðitíðindi að segja, að verðið á freðkjötinu hefir hækkað töluvert frá því, sem var síðastl. ár. Mun mega gera ráð fyrir því með nokkurn veginn vissu, að freðkjötið, sem selt er til Englands, muni nú seljast fyrir 80 aur. kg.“

Þetta sagði ég, og ég spurðist fyrir um það, hvort n., sem bar fram till. þá, sem þar um ræðir, ætlaðist til þess, að greidd yrði uppbót á það kjöt, sem selt yrði til Englands, á þennan markað. Hún svarar þessu, ég svara aftur, og loks svarar Páll Hermannsson:

„Ég vil fyrir hönd n. þakka hæstv. atvmrh. fyrir góðar undirtektir við málið. Ég bjóst alltaf við þeim, og ég tel, að þær hafi líka komið“.

Ég hygg því, að ég hafi gefið n. öll þau svör, er hún hafi getað ætlazt til.

Um þetta var líka rætt út af till. Jóns í Stóradal um að reynt yrði að skaffa bændum betra verð fyrir afurðirnar. Þá sagði ég:

„Ég hygg, að engum blandist hugur um þá nauðsyn, að þetta sé athugað, eða geti fundizt eðlilegt, þó talað sé um, að rannsókn fari fram um það, hver áhrif sé tiltækilegt að reyna að hafa á verðlag landbúnaðarafurða, þegar allar horfur eru á, að annar aðalatvinnuvegur þjóðarinnar ætli að stöðvast fyrir það, að framleiðsluvörur hans seljast ekki með kostnaðarverði. Mál þetta er nauðsynjamál, og það af tveim ástæðum. Önnur er sú, að þær landbúnaðarvörur, sem hér eru framleiddar og seldar innanlands, eru nauðsynlegar fyrir þjóðarbúskapinn. Það myndi allmikið hallast greiðslujöfnuður vor við aðrar þjóðir, ef við ættum að kaupa af öðrum þjóðum allar þær landbúnaðarafurðir, sem notaðar eru í landinu af öðrum en framleiðendunum sjálfum. Í öðru lagi er á hitt að líta, að sjávarútvegurinn er ekki svo glæsilegur sem stendur a. m. k., að vænlegt ráð sé að ætla honum að taka við sveitafólkinu á mölina, ef atvinnugrein þess á við svo þröngan kost að búa, að búskapur þess getur ekki borið sig.“ Og svo segi ég:

„Og meðan afurðaverðið er lægra en svo, að landbúnaðurinn geti greitt þeim, sem honum vinna, sæmilegt kaup fyrir strit sitt, þá getur enginn maður sagt, að verið sé að spenna bogann of hátt, þótt stefnt sé að því, að bóndinn fái framleiðslukostnaðinn endurgoldinn. — Þeir, sem telja sig vera sérstaklega fulltrúa neytendanna, geta ekki brugðið fulltrúum bænda um ósanngirni, þó að þeir orði slíkt. Miklu fremur er hér um sanngirnismál að ræða af hendi þeirrar stéttar, sem nú ber minnst úr býtum fyrir vinnu sína af öllum stéttum landsins.“

Menn geta svo dæmt um, hvort ég hefi þá talað öðruvísi en nú. Hv. þm. sagði, að meðan ég var ráðh., hafi ekki komið fram neinar kröfur fyrir landbúnaðinn. En mér er spurn: Hvenær komu fram meiri kröfur fyrir landbúnaðarins hönd en þá? Og hvenær hefir þeim kröfum verið betur fullnægt með framlögum af stj. hálfu en einmitt þá? Það komu fram kröfur um styrk til frystihúsa, og það er bezt að spyrja Sigurð Kristinsson, hvort þeim kröfum hafi verið sinnt á þá lund, að hann hafi verið ánægður. Til þeirra hluta var ákveðið að greiða úr ríkissjóði allt að hálfri milljón. Ég veit ekki betur en að samið hafi verið um þær greiðslur á þann hátt, sem Sigurður Kristinsson var ánægður með.

Hann segir, að ég hafi ekkert gert fyrir leiguliðana í landinu. Hvenær komu fram l., sem hafa veitt ábúendum betri aðstöðu gagnvart landsdrottni heldur en l. 1933, sem ég undir bjó?

Hann segir, að komið hafi fyrirskipun frá dómsmálaráðuneyti Magnúsar Guðmundssonar um það, að framkvæma ekki gömlu mjólkursöluögin. Það mun hafa verið gefin fyrirskipun um, að ekki ætti að taka menn fasta um hvítasunnuna. En af bréfum, sem dómsmálaráðuneytið skrifaði lögreglustjóra, sest, að hann átti að sjá um, að l. væri fylgt eins og öðrum l.

Þá kom hann að því mikla máli, sem hann hélt, að hann hefði algerlega slegið mig fullu rothöggi. Hann hélt, að ég væri þar illa að mér, miklu verr en hann hefir vonað. Hvað hafði ég sagt í ræðu minni, þegar ég talaði um skyrsöluna ?

Ég endurtók það, sem hann sagði í útvarpið í gærkvöld, að skyrsalan á þessu ári hefði verið 167000 kg. Ég sagði, að það mætti gera ráð fyrir því, að skyrsalan frá Mjólkurbúi Borgfirðinga og Hvanneyri og öllum þeim einstöku bændum, sem seldu skyr til bæjarins í stórum stíl, hefði verið nálægt því eins mikið og það skyr, sem mjólkurbú Mjólkurfélagsins seldi af skyri samtals. Ef svo væri, þá sýndi ég fram á, hversu mikið Skyrsalan hefði minnkað samkv. því.

Nú skal ég játa, að ég hefi ekki skýrslur við hendina nema fyrir 3 ár, 1930, 1931 og 1932, og þær skýrslur sýna, að skyrsalan hefir alltaf farið vaxandi í bænum á hverju ári. T. d. var skyrsalan 1930 153502 kg. í Mjólkurbandalagi Suðurlands, en 1931 var hún vaxin upp í 185193 kg., og 1932 var hún vaxin upp í 216538 kg. Það getur verið, að hann rengi þetta, en ég rakti þetta nánar sundur og athugaði söluna í hverju búi, sem er í Mjólkurbandalagi Suðurlands. Mjólkurbú Flóamanna seldi 1930 80654 kg., 1931 seldi það 66238 kg., 1932 seldi það 76810 kg.

Ölfusbúið seldi 1930 15 þús. rúmlega, 1931 seldi það 18 þús. kg. og 1932 á 18. þús. kg.

Mjólkurbú Reykjavíkur seldi 1930 57 þús. kg. rúmlega, 1931 1000 þús. kg. rúmlega og 1932 122630 kg.

Samlagningin á þessu sýnir, að mjólkurbúin í bandalaginu selja öll 1930 150 þús. kg. rúmlega, 1931 185 þús. kg. og 1932 216500 kg.

Nú hafði ég sagt, að telja mætti líklegt, að mjólkurbú Borgfirðinga, Hvanneyri og allir þeir mörgu einstaklingar, sem seldu skyr utan við búin, sem vitanlega er ógrynni, seldu samtals ein, mikið og Mjólkurbandalagið hefir selt. Samkv. því er skyrsalan öll árið 1932 eftir þessu, sem ég hefi sagt, um 400000 kg. En hvað hefir þá samsalan selt, eftir að hún tók til starfa? Hæstv. ráðh. sagði í gærkvöld, að það hefði verið 167000 kg., en nú segir hann 180000 kg. Ég held, að menn geti því nokkurnveginn af þessu séð, hvort ég hefi farið með vísvitandi ósannindi, eða hvort ég hefi ekki haft nokkuð til míns máls, þegar ég benti á það, hversu ógurlega skyrsalan hefði minnkað. Ég hefi að vísu ekki fyrir framan mig skýrslur fyrir 1933, en það má gera ráð fyrir, eftir því hvað skyrsalan hefir alltaf farið vaxandi undanfarin ár, að 1933 hafi skyrsalan verið miklu meiri en skýrslan gerir ráð fyrir.

Þarna er hægt að sjá, hversu mikið er hægt að hrekja af því, sem ég sagði. Hæstv. ráðh. getur ekki borið fyrir sig annað en þá einhverjar villandi skýrslur, sem eru álíka og skýrslur Páls Zóphóníassonar, þegar hann varð að éta ofan í sig hvorki meira né minna en 152 tonn af kjöti.