13.12.1935
Neðri deild: 98. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1490 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

80. mál, nýbýli og samvinnubyggðir

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég vil fyrst svara þeirri fyrirspurn frá hv. þm. V.-Húnv., hvort girðingar séu taldar með í orðunum „til ræktunar“ í 20. gr. N. lítur svo á, að svo sé, enda tíðkast slíkt ávallt, þegar lán eru veitt úr ræktunarsjóði.

Þá talaði hv. þm. um það, að hann vildi ekki takmarka svo mjög, hverjum hluta styrksins mætti verja til ræktunar, eins og n. hefir gert. Þetta var rætt í n., en það varð að samkomulagi, að réttast væri, að meginhluti styrktarfjárins færi til bygginga. N. leit svo á, að nýtt býli væri ekki myndað fyrr en nauðsynlegustu byggingar væru reistar Nú er svo ákveðið, að viðkomandi leggi fram 1500 kr. sjálfur, gegn 3500 kr. styrk og 3500 kr. láni, í landi eða öðru. Langlíklegast er, að þetta framlag verði oftast í ræktun. Oss fannst því eðlilegt, að ekki yrði meiru en 1000 kr. af þessum 3500 varið til ræktunar. Hv. þm. V.-Húnv. vill hækka lánveitinguna um 4500 kr. Þetta var rætt í n., en það varð að samkomulagi, að hin lægri upphæð héldist, við leggjum áherzlu á það, að byggingarkostnaður verði ekki meiri en svo, að ábúandi geti risið undir honum, og er því betra að fara hægara af stað og bæta við seinna. Þótt leyfi þurfi til viðbótar frá nýbýlastjórn, er ekki líklegt, að því verði synjað, ef talið er, að býlið þoli þær viðbætur.

Þá hafa komið fram brtt. frá þm. Árn. við 23. gr. Fyrri brtt. virðist mér ólánlega orðuð, þar sem hún byrjar á orðunum „Á sama hátt“ og verður því í ósamræmi við orðalag næstu mgr. á undan. Ég og n. erum á móti efni þessarar brtt.

Í frv. er gert ráð fyrir, að nýbýlanefnd hafi tillögurétt um styrkveitingu, en við hana er lánið bundið, en nýbýlastjóri taki fullnaðarákvarðanir um tillögur nefndarinnar í samráði við landbúnaðarrh.. Þetta er að öllu leyti lógískt. En með brtt. þessum á að fara að teygja undir ákvæði frv. lög um endurbyggingu býla, sem koma þessu máli ekkert við. Ég fæ ekki séð, að fremur þurfi að draga þessi umráð undan byggingar- og landnámsjóði heldur en ræktunarsjóði. En annars finnst mér alls ekki eiga við að draga vald úr höndum Búnaðarbankans undir stjórnarráðið, nema að því leyti sem þessi lög ákveða. Þess má líka geta, að auk Búnaðarbankans eru aðrir aðiljar, svo sem hreppsnefnd og læknir, sem úrskurðuðu um það, hvort viðkomandi hafi þörf á endurbyggingu eða geti staðið straum af henni. Ég verð því að leggja á móti báðum liðum till., sem miða að því einu, að færa ákvæði frv. yfir á allar lántökur úr byggingar- og landnámssjóði, bæði til eldri og yngri býla.